Jón Björn Hákonsson, bæjarstjóri Fjarðarbyggðar, tilkynnti í gær að hann láti af embætti bæjarstjóra og sem fulltrúi í sveitarstjórn líkt og greint var frá í frétt DV fyrr í dag.
Afsögn bæjarstjóra sem hefur ekki skráð sumarhús sín og fjölskyldu sinnar né greitt gjöld af þeim
Jón Björn segist í viðtali við Austurfrétt hafa fundið það síðustu mánuði að starfið væri farið að reyna meira á hann og því ákveðið að láta staðar numið. Ekkert eitt málefni hafi valdið því. Segist hann hafa tekið ákvörðunina fyrir helgi en viljað tilkynna hana á bæjarráðsfundi.
Jón Björn ræðir í viðtalinu meðal annars um starfsumhverfi kjörinna fulltrúa og orðræðu um þá, sem hann segir oft snúast meira um persónur heldur en málefni. Aðspurður um hvort umræðan hafi á stundum verið farin að snúast meira um hann heldur en störf meirihlutans svarar hann:
„Þegar umræðan er farin að kristallast um mig frekar en málefnin þá er það hvorki gott fyrir meirihlutann né Fjarðabyggð. Þá getur verið einfaldast að stíga út úr því, ég er bara verkamaður í víngarði Drottins. Ég er kannski ekki dómbær á stöðuna en ég vil að minnsta kosti ekki að svo verði að umræða um mig fari að há sveitarfélaginu. Það sem stendur upp úr er að Fjarðabyggð er flott sveitarfélag með mikla möguleika. Við höfum áorkað mörgu og stígið stór skref síðustu ár. Að því hef ég fengið að koma með mörgu fólki.“
Vill ekki ræða sumarbústaðamálið
Jón Björn hefur setið í sveitarstjórn fyrir Framsóknarflokkinn sem myndar meirihluta með Fjarðarlistanum. Sjálfstæðisflokkurinn er í minnihluta og óskaði í gær eftir skýringum á fasteignamálum Jóns Björns. Segir hann við Austurfrétt að hann ætli ekki að tjá sig að svo stöddu um af hverju sumarbústaðir í eigu hans og skyldmenna voru óskráðir og ekki greidd af þeim fasteignagjöld. Jón Björn segist þó ekki hafa komið að umfjöllun um eigin mál.
Í Fréttablaðinu var haft eftir Snorra Styrkárssyni, fjármálastjóra að ekki hefðu verið veitt leyfi fyrir bústöðunum en vinna við þá heldur ekki verið stöðvuð. Túlka mætti þá sem þeir væru óleyfisframkvæmd.
Jón Björn gerir ráð fyrir að gegna starfi bæjarstjóra út þessa viku, staðgengill bæjarstjóra taki síðan við helstu verkefnum þar til nýr bæjarstjóri tekur við. Jón Björn fer jafnframt í leyfi frá bæjarstjórn og hættir þar með sem fulltrúi í ráðum, nefndum og öðru sem hann er kjörinn í á vegum sveitarfélagsins.
„Ég hef ekki sótt neins staðar um eða hef augastað á neinu. Ég ætla mér að ljúka störfum mínum hér vel þannig að öll mál séu komin í hendur þeirra sem taka við þeim. Ég á töluvert sumarfrí inni og ætla að hvíla mig. Síðan fer ég að horfa í kringum mig.“
Lesa má viðtalið við Jón Björn í heild sinni hjá Austurfrétt.