Embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hefur gefið út ákæru á hendur manni á þrítugsaldri vegna brots á sóttvarnarlögum. Hið meinta brot átti sér stað fyrir tveimur árum, nánar tiltekið þann 23. mars 2021.
Er manninum gefið að sök að hafa ekki getað sýnt fram á neikvætt PCR-próf í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við komuna til landsins frá Amsterdam. Um var að ræða meint brot á reglugerð um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 sem og brot á sóttvarnarlögum. Fer embætti lögreglustjórans fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar fyrir brot sitt og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Á hinn ákærði yfir höfði sér allt að þriggja mánaða fangelsisdóm samkvæmt lögum en þó var gefið út á meðan að faraldurinn stóð að einstaklingar yrðu ekki dæmdir í fangelsi vegna brota á sóttvarnarlögum. Það fullyrti meðal annars Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á upplýsingafundi almannavarna þann 28. október 2020.
Ekki liggur fyrir heildarfjöldi sóttvarnarbrota á meðan sóttvarnaraðgerðum yfirvalda stóð yfir en í febrúar 2021 voru tæplega 240 brot skráð hjá yfirvöldum og lauk þeim yfirleitt með sektargreiðslu eða þau látin niðurfalla. Sóttvarnaraðgerðum lauk ári síðar í febrúar 2022.
Verði maðurinn fundinn sekur má hann því búast við sekt sem er að hámarki 250 þúsund krónur auk þemm sem brotið gæti ratað á sakaskrá umrædds einstaklings.
Ekki hefur tekist að birta manninum ákæruna og því var auglýsing þess efnis birt í Lögbirtingablaðinu og verður málið tekið fyrir þann 30. mars næstkomandi í Héraðsdómi Norðurlands Eystra. Mæti hinn ákærði ekki fyrir dóm verður litið á það sem viðurkenningu sektar í málinu.