fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Benedikt skýtur föstum skotum á fráfarandi forstöðumann KMÍ – „Óskaplega mannlegt en samt ósmekklegt“

Eyjan
Mánudaginn 20. febrúar 2023 12:01

Benedikt Erlingsson og Laufey Guðjónsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvikmyndaleikstjórinn Benedikt Erlingsson óskar þess að nýr forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands verði ekki jafnþaulsetin í stólnum og Laufey Guðjónsdóttir sem hætti eftir 20 ára starf í síðustu viku.

„Sú staða að heil kynslóð listamanna eigi allt undir smekk eða „vináttu“ einnar konu (eða manns), um hálf starfsævina, er bara barbarí og á ekki að viðgangast í okkar samfélagi. Það er ávísun á þóknunar og þýlindis menningu og er beinlínis hættulegt íslenskri kvikmyndagerð og fer gegn öllum okkar grunngildum,“ skrifar leikstjórinn í færslu á á Facebook-síðu sinni þar sem hann skýtur föstum skotum á Laufeyju.

Skreytir sig með stolnum fjöðrum

Tilefnið er viðtal við fráfarandi forstöðumanninn sem birtist í fréttablaði Nordic Film og TV News þar sem Laufey lítur yfir farinn veg. Það sem stuðaði Benedikt sérstaklega er að í viðtalinu er Laufey spurð um hvað það er sem standi upp úr að hennar mati eftir ferilinn. Þá nefnir hún þegar að Ísland vann loks Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2014 með mynd Benedikts, Hross í oss.

„Ég verð að nota þennan vettvang til að halda því til haga að Laufey Guðjónsdóttir veðjaði EKKI á Hross í oss á sínum tíma. Því hún veitti okkur ekki fullan framleiðslustyrk. Við fengum svona „mini“ styrk,“ skrifar Benedikt og segir að ástæðan sem hafi verið gefin hafi verið sú að hann væri byrjandi í faginu.

„Gott og vel, en á sama ári veitti hún öðrum byrjanda ríflegan fullan styrk, og svo öll næstu ár á eftir veitti hún byrjendum fulla framleiðslustyrki fyrir sínar fyrstu myndir og er það vel,“skrifar leikstjórinn.

Tók veð út á húsið fyrir myndinni

Það hafi kallað á miklar fórnir að koma Hrossinu á legg.

„Þessi litli stuðningur við Hrossið varð mér ekki sársaukalaus og af því að ég var með getulausan framleiðanda mér við hlið, þá tók ég lán, með veði í húsi mínu og safnaði fjárfestum. Það voru vinir, fjölskylda og velunnarar sem hlupu undir bagga og þannig náði ég að safna því sem upp á vantaði. Þetta er svona gamalkunnugt stef í íslenskri kvikmyndagerð. En svo vann ég til Norðurlandaverðlaunanna fyrir Hrossið, fyrstur íslenskra kvikmyndagerðarmanna, eins og Laufey skreytir sig nú með,“ skrifar Benedikt.

Ætla mætti að eftir slíka velgengni hafi leikstjóranum staðið allar dyr opnar hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands en svo var ekki.

Lítill styrkur án skýringa

„Það kom mér því á óvart þegar ég leitaði svo til Laufeyjar árið 2016 með næstu mynd: „Kona fer í stríð“. Þá var okkur einfaldlega hafnað. Okkur tókst þó að kría út úr henni vilyrði fyrir næsta ár 2017, en þá aftur aðeins „mini“ styrk og í þetta sinn án skýringa.

Kona fer í stríð vann svo eins og Hrossið til fjölda verðlauna, meðal annars Norðurlandaverðlaunanna og hef ég oft skálað við Laufeyju rjóða í kinnum á hátíðum þar sem þessum íslensku myndum hefur verið hampað,“ skrifar leikstjórinn.

Benedikt tekur þó fram að hann sé á því að Laufey hafi verið í fullum rétti að hafna umsóknunum og velja hverjir fá styrki enda sé það beinlínis vinnan hennar að velja.

„Óskaplega mannlegt en samt ósmekklegt“

„Hinsvegar finnst mér það ósmekklegt í ljósi þessa og annarra afskipta hennar af mínum verkum að hún í lok ferilsins skreyti sig með „Hrossinu“ sem hún studdi ekki að fullu. Auðvitað er það óskaplega mannlegt en samt ósmekklegt,“ skrifar Benedikt.

Hann segist þó vera þakklátur fyrir þá staðreynd að búa í ríki sem fjárfestir í menningu og listum og um það ríki nokkuð breið pólitísk samstaða. En valdi fylgir ábyrgð og hann geri kröfu um að þeir sem koma að þessum mikilvægu sjóðum vandi sig. Hann listar svo upp þeim óskum sem hann hefur varðandi eftirmann Laufeyjar.

„Ég óska þess að nýr forstöðumaður KMÍ verði ekki haldinn frestunaráráttu, því það laskar allan undirbúning verkefna, jafnvel þó að jákvæð svör fáist á endanum. Íslensk kvikmyndagerð hefur verið því marki brennd síðustu 20 árin. Undirbúningur hefst of seint og ástæðan er óútskýrður hægagangur á skýrum svörum frá KMÍ. Þessi meðvitaða eða ómeðvitaða aðferð hefur oft, í besta falli skaðað framleiðsluna, eða í versta falli, eyðilagt fjármögnunarferlið.

Enginn má halda á slíku valdi of lengi

Ég óska þess að nýr forstöðumaður innleiði meiri heiðarleika og gegnsæi og þori að standa með ákvörðunum sínum. Að umsækjendur sem ekki eru þóknanlegir fái heiðarleg svör en séu ekki þreyttir á önglinum, árum saman með Kafka-ískum skrifræðistrixum. Það er mikil sóun á lífsorku.

Og síðast en ekki síst óska ég þess að nýr forstöðumaður eða kona verði ekki jafn þaulsetinn í embætti og Laufey Guðjónsdóttir hefur verið. Það er víti til að varast.

Sá eða sú sem fær slíkt vald í hendur má ekki halda því of lengi. Fimm ár er langur tími. tíu ár of mikið. Hvað þá tuttugu ár,“ skrifar Benedikt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“