Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrverandi þingmaður Pírata og fjölmiðlamaður, stígur nú fram í hlaðvarpi Mannlífs þar sem hann greinir meðal annars frá stirðum samskiptum við stjúpmóður sína, Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrum forsætisráðherra.
Gunnar Hrafn er sonur Jónínu Leósdóttur, rithöfundar, eiginkonu Jóhönnu. Hann segir að þegar móðir hans og Jóhanna hafi tekið saman hafi óheiðarlega verið komið fram gagnvart honum.
„Ég fékk ekkert að vita. Þá var búin til lygasaga, til þess að milda höggið, um það að pabbi hefi í raun farið frá mér. Hann hafi viljað fara til útlanda og búa erlendis, sem særði mig alveg rosalega og ég geng ennþá með á höfnunartilfinningu.“
Þegar hann hafi svo lesið bókina sem Jónína skrifaði um samband hennar og Jóhönnu, Við Jóhanna, hafi hann komist að því að Jóhanna og Jónína hafi byrjað að stinga saman nefjum þegar Jónína var enn í sambandi við föður Gunnars.
„Síðan skilur mamma við pabba og í raun og veru rekur hann að heiman. Og ég fékk ekkert að vita það fyrr en ég er kominn á þrítugs- eða fertugsaldurinn að pabbi minn hafi ekki farið frá mér. Það hefði gjörbreytt okkar sambandi í æsku, okkar pabba. Og okkar Jóhönnu. Ekki að það hafi verið gott, það hefði verið ennþá verra, ef ég hefði vitað þetta.“
Gunnar segist ekki eiga neitt samband við Jóhönnu og segist hann búa yfir miklum upplýsingum um hana sem hann ætli að uppljóstra eftir að hún fellur frá.
„Ég mun skrifa ævisögu þar sem ég mun segja mína hlið og hlið margra annarra sem hafa dílað við hana. Ég vil ekki nota orð eins og mútur, en hún hefur mikið stuðningslið í kringum sig af því að hún hefur hjálpað fólki í krafti embættis síns, meðal annars mér.“
Hann lýsir því að hann hafi ungur og óreyndur fengið vinnu sem blaðamaður á Morgunblaðinu eftir að Jóhanna hringdi eitt símtal fyrir hann.
Hann segist aldrei hafa skilið samband móður sinnar og Jóhönnu.
„Öll mín æska, þær hafa byrjað saman og hætt saman og ég er ekki að ýkja svona 30-40 sinnum, og í hvert einasta skipti varð uppnám á heimilinu. Ég var svolítið markeraður af því sko. Verður mamma hágrátandi uppi í rúmi næstu tvo daga? Er Jóhanna góð við hana eða er Jóhanna búin að detta í það?“
Gunnar segir að Jóhanna hafi lengi ekki þorað úr skápnum því hún hafi óttast samflokksmann sinn, Jón Baldvin Hannibalsson, sem hafi vitað að hún væri samkynhneigð og hótað að „eyðileggja hana“