Morgunblaðið hefur eftir Jóni Gunnarssyni, dómsmálaráðherra, að dæmi af þessu tagi séu ömurleg og að stjórnvöld hafi gert sér grein fyrir þeim. „Við búum við það að kærunefnd útlendingamála komst að þeirri niðurstöðu að borgurum frá Venesúela skyldi veitt hér sérstök viðbótarvernd. Það er eitt af því sem við veitum umfram aðrar Evrópuþjóðir,“ sagði hann og bætti við að það þurfi að bregðast við þessu því þróunin í þessum málum geti ekki haldið áfram með þeim hætti sem verið hefur.
Eins og fram kom í DV í gær þá benti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á það í færslu á Facebook að Air Viajes í Venesúela hafi auglýst Ísland sem vænlegan áfangastað vegna velferðarkerfisins og lífskjörunum sem hér eru.
Segir að Ísland sé sérstaklega auglýst fyrir hælisleitendur og um skipulagða starfsemi sé að ræða
Morgunblaðið hefur eftir Jóni Gunnarssyni að auglýsing ferðaskrifstofunnar sé afleiðing af þeirri stefnu sem hefur verið rekin hér á landi. „Fiskisagan flýgur um það hvernig þjóðir taka á móti flóttamönnum og við höfum verið í þeirri stöðu að við erum með segla, sem felast í því að við erum almennt að gera betur en aðrar þjóðir. Það er rótin að því að hingað sækja fleiri en í nágrannalöndum okkar eða þeim löndum sem við berum okkur saman við,“ sagði hann.