Það leit lengi út fyrir að íslensk kona sem býr í Michigan í Bandaríkjunum væri á leið í fangelsi vegna dauðsfalls manns eftir umferðaróhapp. Konan heitir Sarah Helena Wilhelmsen en óhappið átti sér stað í smábænum Berrien Springs í Michigan þann 30. janúar síðastliðinn. Í ítarlegri frétt á Vísir.is er rakið hvernig mál þróuðust og hvernig Sara hefur þurft að glíma við grimmt réttarkerfi um leið og hún tókst á við krabbamein.
DV greindi frá málinu í maí 2022. Sarah ók um götur Berrien Springs og var að hægja ferðina er 62 ára gamall nágranni hennar gekk í veg fyrir bílinn 0g varð fyrir honum. Sara hringdi á neyðarlínuna og gaf skýrslu hjá lögreglu. Tveimur dögum eftir slysið gekkst hún undir erfiða skurðaðgerð vegna krabbameins. Hún átti von á að hún væri laus allra mála hvað varðaði umferðarslysið en nágranninn sem varð fyrir bíl hennar lést á sjúkrahúsi tveimur vikum eftir slysið. Sara var í kjölfarið ákærð fyrir umferðarlagabrot sem leiddi til dauðsfalls („moving violation resulting in death“). Samkvæmt viðkomandi lagagrein liggur eins árs fangelsi við brotinu.
Í grein Vísis er rakið, út frá sjónarhóli Söru og frænda hannar Þrastar Þórðarsonar, sem hefur verið henni stoð og stytta í þessum hremmingum, að ákæran gegn henni hafi verið tilkomin vegna vafasamra vinnubragða lögreglu við rannsókn málsins og í lögregluskýrslunni séu að finna ósannindi, meðal annars séu með rakalausum hætti leiddar líkur að því að Sara hafi keyrt aftan á manninn, sem sé rangt.
Saksóknari í málinu gaf Söru kost á að játa á sig hraðakstur og ljúka málinu með sátt, og var þá fallið frá upphaflegri ákærunni. Sara segist hafa tekið þessu tilboði til að losna undan málinu þó að hún viti að hún sé saklaus af ásökun um hraðakstur. Sem nærri má geta hefur málið valdið Söru miklum þjáningum og vandræðum. Líf hennar stöðvaðist vegna málsins og krabbameinsmeðferðarinnar en núna horfir hún björtum augum fram á veginn:
„Þegar niðurstaðan var komin þá fannst mér loksins eins og ég gæti unnið almennilega úr þessu. Ég var búin að þurfa að harka af mér í marga mánuði, reyna eins og gat að vera sterk. Þegar málinu lauk þá gat ég einhvern veginn loksins andað léttar. Núna langar mig bara að púsla lífinu saman aftur,“ segir Sara í viðtali við Vísi.