Í gærkvöld var tilkynnt til lögreglu um ógnandi mann sem neitaði að yfirgefa húsnæðí í hverfi 105 í Reykjavík. Þegar lögregla kom á vettvang lét maðurinn illa og lamdi í lögreglubíl. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem vakthafandi varðstjóri ræddi við hann. Að viðræðum loknum var honum ekið heim til sín.
Frá þessu greinir í dagbók lögreglu en þar er líka meðal annars farið yfir eftirlit lögreglu með skemmtistöðum í borginni í nótt. Þrír reyndust vera að sinna dyravörslu í miðborginnni án þess að hafa til þess tilskilin leyfi og inni á einum veitingastað voru of margir gestir þegar lögregla kom á vettvang. Ábyrgðaraðila var tilkynnt að skýrsla yrði rituð vegna brots á lögum um veitingastaði og hann látinn vita að ef lögregla kæmi aftur á vettvang og ekki yrði gætt að gestafjölda yrði veitingastaðnum lokað.
Tilkynnt var um mann sem braut rúðu á hóteli í miðborginnni og var með ógnandi tilburði. Maðurinn var óviðræðuhæfur sökum ölvunar þegar lögregla kom á vettvang og var hann handtekinn. Þegar flytja átti manninn á lögreglustöðina við Hverfisgötu hrækti hann í andlit lögreglumanns sem sat við hlið hans í lögreglubílmum. Var maðurinn vistaður í fangaklefa.
Maður gekk berserksgang í Kópavogi og olli skemmdum. Var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa.