Lögreglan á Suðurnesjum greinir frá því að útihús í Höfnum lagðist saman í hífandi roki sem nú gengur víða yfir landið. Í tilkynningu lögreglunnar segir:
„Skítaveður og hífandi rok. Viljum ítreka beiðni okkar til íbúa og sérstaklega verktaka á svæðinu að tryggja alla lausamuni. Við vorum að ræsa björgunarsveit út okkur til aðstoðar vegna fjúkandi hluta í umdæminu en til dæmis var garðskúr sem fauk og útihús í Höfnum lagðist saman.“
„Suðvestan hvassviðri gengur yfir landið og appelsínugul viðvörun er í gildi á norðanverðu landinu. Almannavarnir biðla til fólks að ferðast ekki milli landshluta að óþörfu. Verkefnum björgunarsveita fjölgaði hratt um hádegisbil eftir rólegan morgun,“ segir í samantekt RÚV um veðurástandið um eitt-leytið í dag.
Mbl.is greinir frá því að flestar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu hafi verið kallaðar út til aðstoðar vegna óveðursins. Snúist flest verkefni sveitanna um foktjón.
Klæðning fauk utan af Urriðaholtsstkóla í morgun og í Breiðholti hafa þakplötur losnað af nokkrum húsum. Í Kópavogi hefur fólk átt í erfiðleikum með að loka svaladyrum.
„Vinnupallar hafa sömuleiðis farið af stað á Seltjarnarnesi, stórt skilti brotnaði í Skeifunni og þakplötur hafa losnað af íþróttahúsi Verslunarskólans,“ segir í frétt mbl.is.
Á höfuðborgarsvæðinu mun veðrið ekki ganga niður fyrr en seint í kvöld.