Hópur íslenskra sérfræðinga á sviði aðgerðastjórnunar í rústabjörgun á hamfarasvæðum leggur af stað til jarðskjálftasvæðanna í Tyrklandi í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneyttinu.
Icelandair mun flytja hópinn til Tyrklands í kvöld og má áætla að vélin lendi í Tyrklandi í fyrramálið að staðartíma. Í tilkynningunni segir:
„Sérfræðingasveitin starfar innan vébanda Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Um er að ræða aðgerðastjórnendur, verkfræðinga og stuðningsteymi. Ísland er virkur þáttakandi sérstaks samstarfsvettvangs á vegum Sameinuðu þjóðanna um rústabjörgun (INSARAG) og er sveitin á viðbragðslista hans.
Stjórnvöld í Tyrklandi hafa óskað eftir aðstoð vegna hamfaranna og hafa hjálparbeiðnir borist bæði í gegnum viðbragðskerfi Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins. Til viðbótar við stuðning við hjálpar- og björgunarstarfið í Tyrklandi munu íslensk stjórnvöld styðja fórnarlömb jarðskjálftanna á Sýrlandi í gegnum alþjóðleg hjálparsamtök.“