Þetta segir Bragi Skaftason, sem er með rúmlega 20 ára reynslu af rekstri veitingastaða. Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Braga að það séu sviptingar fram undan og að veitingastöðum muni fækka. Það sé alveg ljóst.
Hann sagði greinina standa frammi fyrir innistæðulausum verð- og launahækkunum. „Auðvitað á starfsfólk veitingastaða skilið að fá góð laun en staðreyndin er samt sú að veitingahús á Íslandi greiða að jafnaði yfir 50 prósent af sinni innkomu í laun. Sem er langt yfir því sem heilbrigður rekstur í þessu umhverfi þolir,“ sagði hann.
Hann sagði að ofan á þetta bætist að veitingastaðir greiði oftast mun hærri húsaleigu en gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum á sama svæði.
Neyslumynstur hefur einnig breyst með tilkomu mathalla og meiri sjálfvirkni á veitingahúsum. „Mögulega eru veitingastaðir í Reykjavík bara orðnir of margir,“ sagði Bragi.