Einræðisherra Norður-Kóreu, Kim Jong-un hefur stórhert viðurlög við því sem hann kallar vestræn áhrif og kapítalíska hegðun
Samkvæmt fréttum sem berast frá lokaðasta ríki heims hafa verið skipaðar dauðasveitir sem leita hvern þann er gerist sekur um að horfa á klám.
Refsing við áhorfi á klám er skot í höfuðið á staðnum. Sama má segja um þá er bjóða upp á vændisþjónustu. Verða þeir er verða uppvísir að slíku skotnir samstundis þar sem klám er nú flokkað sem hámark erlendrar spillingar og ólifnaðar.
USB lyklar verstu óvinir stjórnarinnar
Í Norður-Kóreu hafa lengið verið við lýði lög sem lúta að svo að segja allri mannlegri hegðan, til að mynda hvernig fólk skuli klippa hár sitt, hvaða sjónvarpsefni skuli horfa á, hvaða tónlist skuli hlusta á og jafnvel og hvenær skuli gleðjast og hvenær skuli syrgja.
Sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu segja Kim hafa nú enn hert viðurlög við erlendum „ósiðum.”
Búið er að auka eftirlit og herða refsingar gegn áhorfi á allt sjónvarpsefni annað en innlent. Sérstaklega er einræðisherranum illa við allt efni sem kemur frá nágrannaríkinu Suður-Kóreu sem stjórnvöld líta á sem lepp Bandaríkjanna.
Töluverðu magni af erlendu sjónvarpsefni og kvikmyndum er smyglað inn í landið, einna helst USB lyklum. Það hefur lengi verið vinsælt að taka alfarið rafmagn af þeim þorpum og bæjum þar sem grunur leikur á um að USB lykill sé í umferð.
Gætt’að hvað þú segir
Fjölmargir hafa einnig verið sendir í þrælkunarbúðir en eftirlit með gjörðum almennings verður enn hert til muna.
Þeir er verða uppvísir að áhorfi á erlent efni mega nú eiga von á 15 ára vist í þrælkunarbúðum en þeir sem uppvísir verða að sölu þess fá dauðadóm.
Sé efnið metið sem klám að dauðasveitum einræðisherrans skiptir ekki máli hvort viðkomandi hefur dreift þvi eða ekki, refsingin er skot í hnakkann.
Í síðasta mánuði voru fjórir háskólanemar í Pyongyang reknir út skóla og dæmdir til tveggja ára þrælkunarvinnu eftir að hafa notað orðatiltæki sem talið var upprunnið úr Suður-Kóreskum sjónvarpsþætti.
Og í október í fyrra voru tvö ungmenni, 16 og 17 ára, skotin fyrir framan skelfingu lostna nágranna sína fyrir að selja USB lykla með erlendu sjónvarpsefni.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hvetja íbúa landsins til að njósna hver um aðra og hefur svo verið kynslóð eftir kynslóð, allt frá stofnun ríkisins.
Njósnakúltúrinn er svo innbyggður í þjóðarsálina að ekki þarf neinn hvata eða verðlaun fyrir njósnirnar, þær eru einfaldlega partur af daglegu lífi.
Það var einmitt 16 ára vinur ungmennanna sem tilkynnti söluna á USB lyklunum og ollið þar með dauða þeirra.
Afmæli bönnuð
Einnig verður tekið mun harðara en áður á hinum vestræna ósið, afmælisveislum, sem nú eru á pari við áhorf eða hlustun á erlent skemmtiefni, að mati Kim Jong-un.
Verðskulda þeir er fagna afmæli vist í þrælkunarbúðum til nokkurra ára, að mati stjórnvalda.
Hingað til hafar íbúar Norður-Kóreu fagnað afmælisdögum líkt og aðrir, boðið heim gestum og gefið gjafir.
Reyndar voru afmæli, og reyndar allar samkomur, reglulega bannaðar í sjö, tíu eða fjórtán daga síðustu ár meðan lýst var yfir þjóðarsorg yfir að einhver ár voru liðin frá andláti fyrri einræðisherra,
En nú er alfarið búið að taka fyrir slíkt. Einu afmælin sem nú má halda upp á eru afmælisdagar hinna þriggja einræðisherra landsins.
Hinum nýju sérsveitum er einnig gert að skera upp herör gegn hárgreiðslum sem eru ekki á lista yfir hinar 28 samþykktu hárstíla landsins.
Hingað til hafa þeir er verða uppvísir af því að beygja reglurnar varðandi hárgreiðslur mátt eiga von á fangelsisvist en nú er hreinlega búið að gefa út skotleyfi á hárglæpamenn, sérstaklega þá er voga sér að lita hár sitt.
Einnig er búið að herða refsingar við smygli, betli, skrópi í vinnu, framhjáhaldi og iðkun trúarbragða.
Heimsins stærsti framleiðandi metamfetamíns
Kim Jong-un hefur einnig skorið upp herör gegn fíkniefnaneyslu.
Sem er er skondið sé litið til þess að það er opinbert leyndarmál að Norður Kórea er mjög líklega heimsins stærsti framleiðandi metamfetamíns.
Framleiðsla efnisins færir landinu dýrmætan gjaldeyri auk þess sem notkun þess er mikil meðal almennings án þess að yfirvöld hafi skipt sér af að ráði.
Talið er að allt að helmingur landsmanna noti efnið að staðaldri og vilja sumir sérfræðingar meina að talan sé nær 70%. Almenningur hefur gripið til notkunar efnisins í hungursneyðum, til að halda orku langa og erfiða vinnudaga og við nám. Það er meira að segja álitið gott við kvefi.
Mörgum finnst hræsni einræðisstjórnarinnar í Pyongyang hafa náð jafnvel nýjum hæðum.
Það vita allir af ,,gleðisveitinni” sem er hópur 2000 stúlkna sem valdar eru um landið og teknar af foreldrum sínum, allt niður í 13 ára gamlar til að „gleðja“ Kim Jong-un og meðreiðarsveina hans.
Er um að ræða sið sem afi hans og stofnandi Norður-Kóreu kom á og hefur haldist.
Sjá: Kynlífsþrælarnir í Norður-Kóreu – Stúlkur teknar barnungar frá foreldrum til að þóknast öllum óskum ráðamanna
Hræsni?
Faðir Kim Jong Un, Kim Jong-il, var gríðarlegur kvikmyndaáhugamaður og lét byggja fyrir sig í það minnsta einn þúsund manna bíósal.
Hann átti ennfremur gríðarlegt magn erlendra kvikmynda og var sérlegur aðdáandi James Bond.
Kim fjölskyldan er elsk að dýrum vínum en einnig hafa heyrst sögusagnir um fíkniefnaneyslu fjölskyldumeðlima, ekki síst hægri handar og trúnaðarmanns Kim Jong Un, systur hans Kim Yo-jong.
Þar sem Norður-Kórea býr yfir kjarnorkuvopnum fylgist alþjóðsamfélagið náið með hverjum þeim sem heldur um stjórnartaumana og er talið nokkuð víst að verði Kim Jong-un að víkja, taki yngri systir hans.
Því fylgjast sérfræðingar í málefnum landsins sérstaklega vel með Kim Yo-jong en þær raddir eru uppi um að hún noti metamfetamín eða hafi í það minnsta gert það fyrr á árum.
Allar vonir um að ný kynslóð Kim ættarinnar myndi nútímavæða landið á einhvern hátt hafa brugðist og þess í stað er sífellt hert hert tökin á þegnum sínum.
Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref í stjórn landsins.