Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að hann telji mjög óskynsamlegt að efna til ófriðar á vinnumarkaðnum núna. Hann sagði erfitt að sjá fyrir sér hvert lokamarkmið Eflingar sé.
Hann sagðist telja að ekki sé meirihluti fyrir verkfallsaðgerðum á flestum vinnustöðum Eflingar og að lítill hópur sé að knýja á um gerð kjarasamnings fyrir 21 þúsund félagsmenn Eflingar. „Ég á erfitt með að sjá hvert endatakmarkið er, annað en að efna til óþarfa slagsmála á milli viðsemjenda og reyna með því að réttlæta herskáar yfirlýsingar forystu félagsins,“ sagði hann.
Hann sagði að reynslan hafi kennt SA að útiloka ekki neitt þegar kemur að samskiptum við forystu Eflingar og því sé beiting verkbanns ekki útilokuð.