fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Martröð húsbílaleigjenda á Íslandi – Biluð tæki, óhrein rúmföt, sjúskaðir bílar – „Varpaði löngum og dimmum skugga yfir ferðina“

Erla Dóra Magnúsdóttir, Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 14. janúar 2023 08:50

Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Töluverð brögð eru að því að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sem leigja erlendum ferðamönnum húsbíla standi ekki við gefin fyrirheit. Stundum eru bílarnir í svo slæmu ástandi að þeir standa engan veginn undir því hlutverki sem þeim er ætlað, að vera í senn gististaður og fararskjóti ferðamanna sem vilja ferðast og dveljast í ósnortinni íslenskri náttúru.

DV hefur fengið margar ábendingar um slíkar kvartanir og hefur meðal annars undir höndum tölvupóst frá viðskiptavini bílaleigu sem gengur undir nafninu Camper Iceland. Ástandið á þeim húsbíl var svo bágborið að til dæmis virkaði gashitakynding ekki, ísskápur var í ólagi, sturta og salerni virkuðu ekki og á gaseldavél í bílnum var aðeins önnur hellan af tveimur í lagi. Allt var þetta búnaður sem viðskiptavinurinn hafði greitt fyrir afnot af samkvæmt lýsingu.

Við þetta bætist að bíllinn var ekinn 129 þúsund mílur (eða yfir 200 þúsund kílómetra) samkvæmt vegmæli. Afturstuðari var beyglaður, stór dæld var á þaki bílsins og hann almennt leit út fyrir að vera gamall og í slæmu ástandi, allt öðru en því sem heitið hafði verið.

Ferðamaðurinn greinir síðan frá því í löngum tölvupósti til Camper Iceland (hér er stiklað á stóru í kvörtunum hans) að eftir að hafa lagt bílnum við fjall eitt hafi hann og samferðafólk hans veitt því athygli að loft var tekið að leka úr öðru afturdekkinu. Er þau komu til baka úr 30 mínútna göngu var dekkið orðið alveg loftlaust. Komust þau þá að því að engin dekkjaskiptaverkfæri voru í bílnum. Kostaði þetta mikla fyrirhöfn og vandræði. Hann segir að vissulega geti alltaf komið fyrir að það springi á dekki en það sé líklegra þegar þegar í hlut eigi gamall bíll sem er illa við haldið og hafi verið ekið yfir 20o þúsund kílómetra.

Þau vörðu síðan nóttinni í köldum bílnum (seint í september) án hita og rafmagns.

Margt fór úrskeiðis hjá ósáttum Dana

DV hefur verið í sambandi við danskan mann að jafni Jason Lorjé. Segir hann farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti sín við fyrirtæki í gegnum vefsíðuna Wildcampers.is sem leigir út húsbíla. Sendi hann fyrirtækinu ítarlega kvörtun í kjölfar ferðalags síns til landsins í júlí og segist hafa staðið í ströngu við að fá bót sinna mála.

Í kvörtun hans greinir hann frá því að til að byrja með hafi vefsíða fyrirtækisins vísað honum á rangan stað til að sækja húsbílinn. Þetta hafi leitt til þess að hann þurfti að taka leigubíl þaðan á réttan áfangastað og það hafi verið aukakostnaður fyrir hann. Þegar þangað kom beið hans ekki tilbúinn húsbíll, líkt og hann hafði gert ráð fyrir heldur hafi hann þurft að taka númer og bíða þess að fá afgreiðslu. Eftir klukkutíma bið hafi honum verið tilkynnt að bifreiðin yrði ekki tilbúin fyrr en klukkan 15:00, en bifreiðin hafði átt að bíða hans tilbúin klukkan 09:00.

Hins vegar hafi honum verið boðin tímabundið önnur bifreið, honum að kostnaðarlausu, og hálfan dag endurgreiddan. Honum var tilkynnt að bifreiðin yrði afhent honum þar sem hann yrði staddur klukkan 15:00.

„Bifreiðin var loks afhent okkur 35 mínútum of seint á bílastæðinu við Sky Lagoon. Farið var stuttlega yfir með okkur hvernig hún virkaði.“ Starfsmaðurinn sem veitti þessa kynningu hafi þó gleymt að tilkynna Jason að það væri svokallaður QR-kóði inni í húsbílnum sem veitt aðgang að leiðbeiningum um notkun bifreiðarinnar.

Óhrein rúmföt og slæmt ástand bílsins

Bíllinn reyndist í mun verra ástandi heldur en auglýsing og bókunarsíða höfðu gefið til kynna. Voru klæði í sætum rifin, vatnshitari var í ólagi, ísskápinn var ekki hægt að nota þar sem Jason hafði ekki verið bent á leiðbeiningar fyrir hann, og auk þess hafi ísskápurinn verið með of litlum hillum og því svo gott sem ónothæfur.

Í stiga sem var leiddi upp í rúm í húsbílnum hafi vantað skrúfu sem varð til þess að Jason féll þegar hann fór niður stigann að nóttu.

Eins hafi Jason pantað fjögur sett af sængum en aðeins fengið þrjár sem varð til þess að fyrsta nóttin í bílnum var mjög „óþægileg“.

„Ein sængin sem við fengum var enn með óhreinum rúmfötum frá fyrri leigjanda. Okkur tókst að sækja aukasæng frá hótelinu sem fyrirtæki ykkar á í Skógum og þess vegna höfðum við fjórar sængur þessa þrjár nætur sem voru eftir,“ segir Jason í tölvupósti sínum til Wildcampers.is.

Skilningsríkt viðmót í fyrstu

Þegar Jason hafi hringt í Wild Campers til að kvarta undan ofangreindu hafi honum fundist hann mæta skilningi. Hafi starfsmaður lofað að kanna málið og hafa samband innan klukkustundar. Þau hafi þó ekki verið búin að heyra neitt fimm og hálfum tíma síðar og þá hringdi Jason aftur og var þá tilkynnt að þau gætu sóttauka sængina að Skógum og að þau fengju einn dag endurgreiddan af leigugjaldinu.

„Við vorum aldrei spurð hvort okkur þættu þær bætur nægja og okkur var enginn annar kostur gefinn.“

Jason bendir á að Wildcampers.is er með slæma einkunn á Google, eða bara 1,7 stjörnur af fimm mögulegum. Mjög neikvæðar umsagnir er að finna um þjónustu fyrirtækisins á netinu.

Bílar í verra ástandi en gefið er til kynna

Í umsögnum um slæma húsbílaþjónustu á Íslandi er því haldið fram að sömu aðilar auglýsi þjónustu sína undir hinum ýmsu keimlíku nöfnum og gerist allir sekir um þjónustubrest, m.a. séu bílar í mun verra ástandi en gefið er til kynna og sumir jafnvel í hættulegu ástandi. Hvað sem því líður er ekki í fljótu bragði hægt að tengja saman Wildcampers.is og Camper Iceland. Í upplýsingum hjá Ríkisskattstjóra er ekki að sjá að þar séu sömu forráðamenn eða eigendur. Einnig eru aðsetur fyrirtækjanna ekki á sama stað, annað er í Reykjanesbæ en hitt í miðbæ Reykjavíkur. Camper Iceland ehf er í fyrirtækjaskrá en fyrirtækið sem rekur Wild Campers heitir Nordic Car Rental. Þar sem ekki tókst að ná í skráða eigendur eða forsvarsmenn fyrirtækjanna við vinnslu fréttarinnar eru nöfn þeirra látin liggja á milli hluta í bili enda aukaatriði í þessu samhengi.

Þær spurningar vakna hins vegar hvort lýsingar eins og hér hafa verið raktar séu algeng reynsla erlendra ferðamanna hér á landi sem leigja húsbíla. Viðmælendur DV segja slíkt afar slæmt fyrir orðspor landsins og ferðaþjónustunna. „Þetta varpaði löngum og dimmum skugga yfir ferðina okkar,“ segir Jason Lorjé í samtali við DV.

DV freistaði þess að ná símasambandi við Wild Campers fyrir áramót en það gekk ekki greiðlega. Hins vegar var tölvupósti frá DV, sem skrifaður var á íslensku, svarað vinsamlega á ensku. DV skipti þá yfir í ensku. Eftir að DV hafði rakið stuttlega reynslusögu viðmælandans var beðið um að fá nafn og netfang hins óánægða viðskiptavinar svo hægt væri að hafa samband við hann og bæta honum upp það sem misfarist hefði. DV minnti á að óskað væri eftir viðtali við fyrirtækið vegna fréttar en þeirri beiðni var ekki svarað.

Jason tjáði DV að Wild Campers hefði boðið honum andvirði tveggja leigudaga. Hann segist hins vegar hafa ákveðið að hafna því boði enda finnst honum mikilvægt að greina frá slæmri þjónustu ferðaþjónustufyrirtækja og vara við henni. Segist hann ekki vilja láta hjá líða að vara við viðskiptaháttum af þessu tagi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“