Fnykur sem barst frá holræsakerfum í vesturbæ Hafnarfjarðar um jólin má rekja til bilunar í hreinsibúnaði hjá verslunarrisanum Costco í Kauptúni. Frá þessu greinir RÚV.
Íbúar í Hafnarfirði fóru að kvarta undan ólykt um miðjan desember og var í fyrstu talið að um eitthvað smáræði væri að ræða. Sú var þó ekki raunin og vaknaði fljótlega grunur um að mengunin kæmi frá holræsakerfi Garðabæjar sem er að hluta tengt inn á holræsakerfi Hafnarfjarðar.
Var minnisblað umhverfis- og veitustjóra um málið lagt fram á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs bæjarins í morgun. Ástæða lyktarinnar, eða ólyktarinnar, var bilun í hreinsibúnaði Costco-afgreiðslustöðvarinnar í Kauptúni. Eftir að haft var samband við verslunarrisann var strax farið að vinna að lagfæringu.
Í minnisblaðinu segir að Costco hafi verið krafið skýringa um það hvers vegna svo mikil olía hafi lekið úr olíutönkum og hvers vegna það hafi ekki komið fram við reglubundið eftirlit. Harmaði umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðar í bókun sinni að Costco hafi ekki brugðist við þegar viðvörunarbúnaður bilaði og hafi útkoman verið „umtalsvert mengunarslys“. Fólk ráðið jafnframt umhverfis- og veitustjóra að rukka Garðabæ um kostnaðinn við aðgerðirnar.