Maður sem slasaðist í starfi sínu á kjúklingastaðnum Rotisserie, sem staðsettur var inni í Krónunni í Mosfellsbæ, stefndi eigendum staðarins fyrir Héraðsdóm Reykjaness og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna vinnuslyssins.
Maðurinn hóf störf á kjúklingastaðnum í september árið 2019. Þann 25. október sama ár rann hann til á eldhúsgólfinu á staðnum með þeim afleiðingum að bak hans og öxl lentu á veggföstum vaski. Hann kláraði vaktina sína en fór síðan á bráðamóttöku Landspítalans. Var hann frá vinnu vegna áverka sinna í 11 daga.
Þegar hann sneri til baka var nýr eigandi tekinn við rekstri staðarins en félagið sem rak hann áður var orðið gjaldþrota. Nýi eigandinn greiddi manninum laun frá og með nóvember 2019 og fram til ágúst 2021 þegar hann hætti störfum á staðnum. Í texta dómsins segir:
„Stefnandi kveðst enn vera með áverka eftir slysið, eins og niðurstöður úr ómskoðun 17. september 2021 sýni. Verkir stefnanda lýsi sér í því að honum sé illt í
hægri öxl, finni til álagstengdra verkja og hreyfingar um axlarlið framkalli verki. Hann hafi verið slæmur í hægri öxl frá slysi og hann hafi lýst því fyrir heilbrigðisstarfsfólki að tímabilið eftir slysið hafi verið verstu ár ævinnar. Sjúkrasagan sýni gríðarlegan mun á umfangi heilbrigðisþjónustu sem stefnanda hafi verið veitt fyrir og eftir slysið, en það sé til marks um þau miklu áhrif sem það hafi haft á heilsufar hans.“
Eigandi Rotisserie hafnaði kröfum mannsins og segist aldrei hafa tekið á sig ábyrgð á þessu slysi þegar hann keypti staðinn og tók yfir skuldbindingar sem í þeim kaupum fólust. „Samkvæmt kaupsamningnum hafi stefndi ekki tekið yfir neinar skaðabótakröfur sem stofnast hafi til áður en til framsalsins kom,“ segir um þetta í dómnum.
Í málflutningi mannsins var því haldið fram að ábyrgð eiganda kjúklingastaðarins hafi falist í því að hafa ekki séð til þessa að gólfefni í eldhúsinu væri nægilega stamt til að þola bleytu án þess að verða sleipt. Sé það í samræmi við skyldur vinnuveitenda samkvæmt 6. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. Þar segir, í öðrum tölulið: „Gólf og gólfefni í vinnurými skal vera þannig að það hæfi því starfi, sem þar er unnið með tilliti til slits, burðarþols og hreinsunar.“
Í stuttu máli féllst dómurinn á kröfur starfsmannsins og skal því viðurkennt að eigandi Rotisserie beri skaðabótaábyrgð vegna vinnuslyssins. Mun því maðurinn fá bætur úr tryggingu félagsins. Eigandi veitingastaðarins þarf jafnframt að borga manninum 1,8 milljónir króna í málskostnað.