Harður árekstur varð milli fólksbifreiðar og jeppabifreiðar á Suðurlandsvegi við Öldulón austan Fagurhólsmýrar um kl. 14:00 í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef lögreglunnar.
Samkvæmt lögreglunni voru 9 manns í bílunum og voru allir fluttir með flugi til Reykjavíkur. Lögreglan gerir ráð fyrir því að tvær þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar verði notaðar til að flytja fólkið til höfuðborgarinnar en það verður sótt til Hafnar.
„Allir eru með góð lífsmörk,“ segir í tilkynningunni. Þá kemur fram að veginum hafi verið lokað á meðan á vinnu á vettvangi stóð en að nú sé verið að hreinsa til á veginum og undirbúa opnun.
„Hinsvegar má gera ráð fyrir umferðartöfum eitthvað áfram. Mikil hálka var á vettvangi í dag.“