Tónlistarmaðurinn Ingólfur Þórarinsson, Ingó Veðurguð, er sagður stefna á stórtónleika í Háskólabíói í mars á næsta ári. Vísir greinir frá.
Samkvæmt heimildum Vísis verður yfirskrift tónleikanna „Loksins gigg“ og er dagsetning tónleikanna 10. mars. Miðasala er ekki hafin en sagt er að vinir og vandamenn hafi verið beðnir um að taka kvöldið frá.
Nafnið „Loksins gigg“ ber keim af nafni á vinsælum sjónvarpsþætti sem Ingó var með á Stöð 2, „Í kvöld er gigg“. Þátturinn var tekinn af dagskrá í kjölfar skriðu ásakana á hendur Ingó sumarið 2021 um kynferðisofbeldi.
Ingó hefur ávallt neitað öllum ásökunum. Lítið hefur farið fyrir honum á tónlistarsviðinu undanfarin misseri en á Facebook-síðu sinni hefur hann boðað nýtt lag á næsta ári. Lag hans, „Í kvöld er gigg“, var eitt vinsælasta lag ársins 2020.
DV hefur sent Ingó fyrirspurn vegna málsins og bíður svara.