
Tveimur klukkutímum áður hafði hún hringt á sjúkrabíl fyrir hann en fljótlega var hann sendur heim með verkjalyf og tíma hjá háls-, nef- og eyrnarlækni næsta dag. Vegna þrautseigju Karenar fékk Tomasz aðstoðina sem hann þurfti en í ljós kom að hann var með alvarlega sýkingu sem hefði getað leitt til lífshættulegrar heilahimnubólgu.
Karen greindi fyrst frá málinu á samfélagsmiðlum. Í samtali við DV segir hún að Tomasz sé nú í góðum höndum en til standi að senda inn formlega kvörtun vegna málsins.
„Hann var búinn að vera veikur alla vikuna eins og sonur okkar, með flensupestina sem hefur verið að ganga. Nema svo eftir að þeir skánuðu fengu þeir báðir eyrnabólgu,“ segir Karen.
Feðgarnir fóru á læknavaktina og fengu sýklalyf. Í kjölfarið skánaði syni þeirra en Tomasz versnaði.
„En ekki í eyranu heldur aftan á hausnum. Hann veinaði og grét, varð fölur og bara hryllilegt að sjá hann. Hann var stífur í haus og hálsi með verk aftan á hálsi og hnakka, hann veinaði úr verkjum maðurinn,“ segir hún.
Karen hringdi á sjúkrabíl í gær klukkan 16:00. „Þeir tóku hann klukkan 16:30 og klukkan 17:15 hringdi hann í mig og ég átti að koma og sækja hann,“ segir hún.
„Ég spurði hvað hafi gerst. Þá athugaði læknir blóðþrýsting og hita og sagði að það væri svo mikið að gera að Tomasz myndi fá tíma hjá háls- nef- og eyrnalækni næsta dag og sendu hann heim með Tramadol, Parkódín og Íbúfen.“
Karen segir að Tomasz hafi tekið lyfin en þau hafi ekki slegið á verkina. „Ekkert gerist og það blæðir áfram rauðum vökva úr eyranu eins og hafði gert síðasta einn og hálfan sólarhringin. Blóðug bréf um allt rúm og grisjur sem hann hafði inni í eyranu og öll koddaver í þessum blóðvökva.“
Á þessum tímapunkti stóð Karen ekki á sama um veinin sem komu frá eiginmanni hennar. „Hann leit út eins og lítið barn sem þurfti að halda á og hann tók utan um hnakkann á sér eins og hann væri að fá hríðar í hnakkann sem væru að koma og fara,“ segir hún.
„Ég ákvað að googla eyrnabólgu, stífleika í hálsi og púlsandi hausverk og fékk upp niðurstöður um heilahimnubólgu. Ég skoðaði einkennin og sá að öll pössuðu við hann,“ segir hún.

„Ég hringdi strax á læknavaktina og talaði við hjúkrunarfræðing sem var yndisleg eins og þær eru vanalega. Ég sagði henni söguna og hún spurði hvort þeir á bráðamóttökunni hafi tekið blóðprufu eða þreifað á hnakkanum, því það ætti að segja til um heilahimnubólgu. En nei, læknir kom og „skoðaði“ hann. Læknirinn tók blóðþrýsting, sem var 145/100, og hita, og sagði að þrýstingurinn væri út af hausverknum og skrifaði upp á Tramadol og sendi hann heim. Hjúkrunarfræðingurinn var hissa og sagði mér að koma með hann sem fyrst upp á læknavakt og að við myndum fara í forgang þar sem hann gæti hvorki beðið né væri það ráðlagt.“
Karen brunaði með Tomasz á læknavaktina og þau fengu að fara beinustu leið inn. „Læknirinn sem tók á móti okkur skoðaði hann og þreifaði á hálsinum og var ekki lengi að sjá að líklega væri hann með alvarlega sýkingu í mastoid beini, sem er við hnakkann, og getur leitt til bakteríu heilahimnubólgu sem er lífshættuleg. Hann sagði að hljóðhimnan væri greinilega sprungin og sýkingin eflaust farin úr eyranu og búin að færa sig yfir í hnakkann,“ segir hún.
„Læknirinn sagði að þetta væri alvarlegt, hann tók CRP próf sem var 197 og endurtók hversu alvarlegt ástandið væri.“
Karen segir að læknirinn hafi sent þau á bráðamóttökuna og sagðist ætla að hringja í sérfræðing og að þau fengju allt annað viðmót en fyrr um daginn.
„Fegin drifum við okkur þangað en þar tók við okkur sami hjúkrunarfræðingurinn og hitti hann fyrr í dag. Algjörlega eru þær eins misjafnar og þær eru margar greinilega, því hún fór inn og kom aftur og beygði sig niður að Tomasz, þar sem hann sat í hjólastól, og sagði eins og hann væri skilningslaus vanviti: „Þú varst hér áðan og fékkst verkjalyf og átt tíma hjá háls-, nef- og eyrnalækni á morgun. Læknirinn skoðaði þig áðan.“ Ég hækkaði þá róminn og sagði yfir allan hópinn: „Meinar þú skoðaðir með því að taka blóðþrýsting og hita?! Hann er með CRP 197 og læknirinn á læknavakt telur hann vera með alvarlega sýkingu sem gæti leitt til heilahimnubólgu!“ Hún drattaðist þá inn og við biðum, ekki vitandi hvaða móttökur við myndum fá næst.“
Karen viðurkennir að á þessum tímapunkti hafi hún óttast að fá ekki viðeigandi þjónustu fyrir eiginmann sinn en loksins var hann tekinn inn á bráðamóttökuna. „Ég mátti ekki fara inn vegna aðstandenda banns, sem hræddi mig mikið því hann var svo slappur og gat ekki barist fyrir sjálfan sig,“ segir hún.
„Læknirinn á læknavaktinni hafði greinilega haft samband við sérfræðing eins og hann sagði og málið var loksins litið alvarlegum augum, tveimur tímum eftir að þau sendu hann heim af bráðavakt, þegar ég hafði sent hann þangað með sjúkrabíl.“
Tomasz gekkst undir ýmsar rannsóknir næsta klukkutímann. „Hann fékk morfín til að reyna að slá á þennan hryllingsverk þar sem ekkert annað virkaði. Fljótlega eftir komuna sagði hjúkrunarfræðingur við hann að hann yrði þarna eflaust í einhverja daga. Hann fékk sýklalyf í æð og eftir rúmlega tvo til þrjá tíma var hann lagður inn á aðra deild á spítalanum.“
„Ég bara get ekki hugsað til þess hvað hefði gerst ef ég hefði ekki fengið þá hugdettu að google-a. Oft er maður svo pirraður á læknavaktinni en Guði sér lof fyrir hjúkrunarfræðinginn sem ég talaði við og þennan lækni sem sá frá byrjun hversu alvarlegt ástandið var. Ég græt bara því mér finnst svo hryllilega ósanngjarnt að ég hafi þurft að berjast fyrir þessu,“ segir hún.
„Ég veit að það vantar starfsfólk og auðvitað er þetta ríkisstjórnarvandamál. En það hittu hann læknir og hjúkrunarfræðingur sem bæði mistókst að hjálpa honum frá upphafi.“
Karen spyr sig hvort að þjónustan sem Tomasz fékk hafi eitthvað að gera með að hann sé pólskur. „Ég veit ekki, en hann talar fína íslensku og ensku,“ segir hún.
Karen er gengin tæplega 34 vikur á leið og með tvö börn heima. „Ég er eiginlega bara uppgefin,“ segir hún. „Ég vil hvetja aðra að hlusta á innsæið sitt, jafnvel þó þið voruð hjá lækni fyrir klukkustund, farið aftur ef þið finnið hversu alvarlegt þetta er.“
Í samtali við DV segir Karen að hann sé núna að fá góða þjónustu á deildinni. „Seint í nótt sýndu blóðprufur mikla sýkingu og hann er að fá alls konar lyf í æð sem ég þekki ekki. Niðurstöður CT skanna í morgun sýna að sýkingin er ekki bara í eyranu heldur nær lengra, og hann er að fara í segulómskoðun í dag til að fá nánari sýn á hvar sýkingin liggur.“