Baráttukonan Birna Þórðardóttir er nýjasti gestur Sigmundar Ernis Rúnarssonar í þættinum Mannamál á Hringbraut. Nýverið kom út bókin Var, er og verður Birna sem Ingibjörgir skrásetti en í bókinni er litrík ævi Birnu rakin í máli og myndum.
Á meðal þess sem Birna ræðir í Mannamálum eru uppvaxtarár hennar á Borgarfirði eystra en hún segir að það hafi verið bæði gott og slæmt að alast upp þar. Hún segir að það hafi verið ákveðið öryggi í bænum, það hafi verið gott.
Það slæma var hins vegar að Birna skar sig að eigin sögn dálítið úr í bænum. „Ég man eftir því til dæmis að það var frænka mín ein sem var eiginkona mjög náins fjölskylduvinar, það er að segja föðurbróðir minn. Hann fór oft í burtu yfir vetrartímann, eftir áramót, til þess að komast á vertíð og dætur þeirra líka,“ segir Birna en þá fór hún til frænku sinnar og gisti hjá henni.
„Út af fyrir sig þá var það mjög mikil áskorun vegna þess að strákarnir nokkrir, þeir lágu fyrir mér. Mér fannst svo hallærislegt að klaga þá, ég varð bara að taka á móti því. Ég gerði það, ég fór ekki að klaga þá heima. Ég lá í stofuglugganum og horfði, sá þegar þeir voru að gefast upp á því að bíða eftir mér og þá stökk ég einhverja nýja leið niður á byggðina eða þangað sem ég var að fara til frænku minnar. Ég talaði aldrei um þetta.“
Birna segir svo að leiðtoginn í þessum strákahóp hafi eitt sinn káfað á sér í skólanum. „Svo var strákurinn sem var í fararbroddi, hann einu sinni, þetta er mjög erfitt, þá var ég að fá brjóst. Það er náttúrulega ákveðinn hjallur að komast yfir og hann kemur aftan að mér í kennslustofunni í frístund og tekur utan um brjóstin á mér,“ segir Birna sem útskýrir svo hvernig hún brást við þessu.
„Ég varð svo reið og vissi ekki hvað ég átti að gera að ég snéri mér eldsnöggt við og kýldi hann í gólfið. Eftir það var ég látin í friði.“
Annað sem Birna ræðir um í þættinum er ný áskorun sem hún er að takast á við, heilabilun. „Ég finn fyrir þeim og ég er reyndar ekkert undrandi,“ segir Birna en móðir hennar háði sömu baráttu á sínum tíma.
„Þá vil ég fremur vera reiðubúin að takast á við það heldur en að kasta því á bakvið mig. Þá er það bara ein áskorun til viðbótar, að takast á við hana, reyna sitt besta að njóta lífsins á hvaða máta sem verður.“