Hulda Elsa Björgvinsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og sviðsstjóri ákærusviðs er komin í leyfi frá störfum í kjölfar þess að sálfræðistofa gerði úttekt hjá starfinu á ákærusviðinu. Frá þessu greinir Vísir.
Samkvæmt heimildum Vísis, sem ríma við þær heimildir sem DV hefur, hafa starfsmenn á ákærusviði leitað í önnur störf undanfarin ár meðal annars vegna erfiðra samskipta við Huldu. Vísir segir að fyrrverandi starfsmaður hafi sagt að ekki væri óþekkt að hún tæki „hárblásarann“ á undirmenn ef svo bæri við.
DV sendi fyrirspurn á Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra vegna málsins. Í svari lögreglustjóra segir:
„Embættið staðfestir að Hulda Elsa Björgvinsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri, hefur óskað eftir breytingu á starfssviði sínu. Breytingin felur í sér að dagleg stjórn ákærusviðs verður undanskilin starfsskyldum hennar en að öðru leyti er hennar staða óbreytt. Fallist hefur verið á beiðnina en það er nú til skoðunar hvernig stjórnun sviðsins verði háttað til framtíðar. Staðgengill Huldu Elsu hefur nú þegar tekið við daglegri stjórn en að öðru leyti er starfsemi sviðsins óbreytt.
Embættið mun að öðru leyti ekki tjá sig um málefni einstakra starfsmanna.“
Halla svaraði ekki spurningum um áðurnefnda úttekt eða hvort ráðist hafi verið í úttektina fyrir eða eftir að Hulda Elsa var skipuð aðstoðarlögreglustjóri í júní síðastliðnum.
Samkvæmt skipuriti embættisins heyrir ákærusvið, sem aðstoðarlögreglustjóri og staðgengill lögreglustjóra fer fyrir. Undir sviðið heyra ákærusvið, 1,2 og 3.
Halla Bergþóra svaraði því ekki til hvernig háttað yrði með störf Huldu þegar hún þarf að starfa sem staðgengill lögreglustjóra.
Aðstoðarlögreglustjórar hjá embættinu eru tveir. Á móti Huldu er Ásgeir Þór Ásgeirsson, en bæði voru þau skipuð í embættið í lok júní. Hulda er lögmaður að mennt og hefur verið sviðsstjóri ákærusviðs lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2016. Hún hefur frá 2017 starfað sem staðgengill lögreglustjóra og hefur í tvígang starfað sem settur lögreglustjóri. Samkvæmt matsnefnd sem fór yfir hæfni umsækjenda um starfið taldist Hulda mjög hæf til að hljóta skipun.