fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Stórfelld skattsvik hjá starfsmanni Smíðalands

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 7. desember 2022 17:30

Frá Smiðshöfða þar sem starfsmannaleigan var til húsa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Úlfar Halldórsson hefur verið dæmdur í 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 142,5 milljónir í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna. Greiði hann ekki sektina innan frests þarf hann að sæta fangelsi í 12 mánuði.

Um er að ræða mál sem varðar meiriháttar skattalagabrot en Halldór starfaði fyrir fyrirtækið Smíðaland á árunum 2017-2019. DV hefur áður fjallað um Smíðaland og ákæru til höfuðs forsvarsmanni fyrirtækisins, Þorkeli Kristjáni Guðgeirssyni en hann er grunaður um meiriháttar brot gegn skattalögum, bókhaldslögum sem og peningaþvætti.

Þorkell stýrði tveimur fyrirtækjum sem bæði hafa verið úrskurðuð gjaldþrota, annað var Smíðaland og hitt var starfsmannaleigan 2findjob. Þorkell var á síðasta ári sakfelldur fyrir hættubrot við rekstur starfsmannaleigunnar, en hann lét erlenda starfsmenn búa í verksmiðjuhúsnæði við Smiðshöfða og var vistaverum þeirra lýst sem hættulegum „svefnskápum“. Var Þorkell dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þau brot.

Sjá einnig: Þorkell hjá Smíðalandi ákærður fyrir meiri háttar brot – Hýsti verkamenn í hættulegum „svefnskápum“

Vildi ekki tjá sig um gífurlega fjárhæðir sem voru millifærðar

Nú hefur Halldór Úlfar verið sakfelldur fyrir brot tengdum rekstri Smíðalands, en samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra tók Halldór út af bankareikningum sínum á árunum 2016, 2017 og 2018 um 252 milljónir króna í reiðufé og millifærði af reikningum sínum rúmar 67 milljónir.

Í dómi segir:

„Skattrannsóknarstjóri taldi nærtækustu skýringuna á reiðufjárúttektunum vera þá að um væri að ræða launagreiðslur eða greiðslur til verktaka sem ekki hafi verið gefnar upp til skatts og ef til vill í þágu Smíðalands ehf.“

Halldór gar fyrst skýrslu hjá héraðssaksóknara í nóvember 2020. Þar sagðist hann hafa gefið út reikninga fyrir Smíðaland ehf og það hafi verið það eina sem hann hafi gert fyrir fyrirtækið. Hann hefði ekki haft aðgang að bankareikningum og ekki verið með prókúru. Helsta starfsemi félagsins hafi verið að selja menn út í verktöku til annarra verktaka og þegar mest var hafi nokkrir tugir starfsmanna verið hjá félaginu. Sjálfur hefði Halldór þegið laun upp á 345 þúsund krónur á mánuði.

Vildi Halldór ekki tjá sig um greiðslur til hans frá Smíðalandi á árunum 2016-2018 upp á 327 milljónir króna. Hann vildi heldur ekki tjá sig um hvort hann gæti lagt fram gögn sem sýndu frma á kostnað sem hann hefði greitt fryir Smíðaland og ekki hvort hann hefði verið að greiða verkamönnum laun í reiðufé. Hann vildi heldur ekki tjá sig um þá niðurstöðu skattrannsóknarstjóra að vanframtaldar tekjur hans væru rúmar 321 milljónir.

Næst gaf hann skýrslu í janúar 2021 og þá sagði hann að fyrst búið væri að ákveða að þetta hefðu verið tekjur hjá honum hvort honum hefði ekki verið frjálst að ráðstafa þessu fé eins og honum sýndist. Óskaði hann svo eftir hlé á skýrslutökunni til að fá að leggja fram gögn.

Vildi ekki tjá sig um 70 milljónir sem hann millifærði á nána aðila

Í næstu skýrslutöku lagði Halldór fram rafræn gögn vegna rekstrar starfsmannaleigunnar 2findjob og taldi hann þau gögn varpa ljósi á úttektir Halldórs í reiðufé á tilgreindum árum.

Hann sagðist hafa afhent Þorkeli allt það reiðufé sem hann hefði tekið út og megnið hafi farið í að greiða yfirvinnu erlendra starfsmanna Smíðalands ehf. Því hafi þetta ekki verið hans tekjur. Svo virðist sem að 2findjob hafi greitt dagvinnu með hefðbundnum hætti en greitt yfirvinnu með reiðufé.

Halldór vildi þó ekki tjá sig um þær tæplega 70 milljónir sem hann hafi millifært á aðra aðila og sagði að hugsanlega hafi þetta verið „tekjur á hann. Flestir sem hann hafi greitt til væru tengdir honum fjölskylduböndum eða öðrum nánum böndum.“

Héraðssaksóknari ákvað að 160 milljónir af því sem Halldór hefði tekið út hafi farið til starfsmanna starfsmannaleigunnar. En eftir stæðu rúmar 161 milljón sem Halldór gæti ekki gert grein fyrir.

Fundinn sekur um stórfelld skattsvik

Í niðurstöðu dómara segir að Halldór hafi talið fram engar tekjur fyrir árið 2016, tæpa 1,6 milljón árið 2017 og tæpar 3,6 milljónir 2018. Væri ótrúverðugt að hann hefði ekki haft meiri tekjur á þessum tíma sérstaklega miðað við þá óútskýrðu fjármuni sem Smíðaland lagði inn á hann á þessu tímabili. Halldór gæti sjálfur ekki gefið skýringar á ráðstöfun þessara fjármuna.

Hann hafi gerst sekur um „stórkostlegt hirðuleysi“ með því að vantelja tekjur sínar og var brot hans fullframið þegar hann skilaði röngum skattframtölum. Halldór hafi viðurkennt að hluti þess fés sem Smíðaland lagði inn á hann hafi hann ráðstafað í eigin þágu, en mótmælt því að fjárhæðin væri rúmlega 161 milljón, án þess þó að geta rökstutt það með nokkrum hætti.

„Þrátt fyrir fullyrðingar ákærða um að hann hafi afhent forsvarsmanni Smíðalands ehf. allt reiðuféð, sem ákærði tók út af bankareikningi sínum, hefur hann ekki lagt fram nein gögn til staðfestingar á því.“

Ekki hafi verjandi hans heldur gert tilraun til að skýra þetta nánar í greinargerð.

„Það stendur að sjálfsögðu ákærða næst að gera grein fyrir því hvernig hann hefur ráðstafað fjármunum sem hafa farið í gegnum bankareikninga hans. Hann getur ekki ætlast til þess að aðrir geti rannsakað það til hlítar án þess að hans upplýsingagjöf og skýringar komi til. Það dugar ekki ákærða að fullyrða að allir þessir fjármunir eða mikill meirihluti þeirra hafi verið greiddir í þágu Smíðalands ehf. án þess að geta stutt þessar fullyrðingar gögnum.“

Hélt Halldór því meðal annars fram að hluti þeirra peninga sem fóru í gegnum bankareikning hans hafi áðurnefndur Þorkell notað til að kaupa fasteignir í Dubai og rafmyntir. En hann hafi ekki getað sannað það.

Bæði einstaklingar sem og lögaðilar þurfi að geta gert yfirvöldum grein fyrir uppruna fjármuna sem fari um bankareikninga þeirra og sanna að ráðstöfun þeirra væri með réttmætum hætti. Ef þeir geti ekki gert slíkt megi þeir búast við viðbrögðum í samræmi við gildandi lög og reglur.

Því taldist skattalagabrot sannað og væri brotið stórfellt. Halldór hefur áður verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik og taldi dómari hæfilega refsingu vera 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi og 142,5 milljón króna sekt í ríkissjóð.

Dómurinn í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe