Þann 8. desember verður aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli gegn rúmlega fertugum manni sem ákærður hefur verið fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gegn þrítugum manni.
Atvikið átti sér stað í maí árið 2019 en mennirnir bjuggu þá saman í blokkaríbúð í Hraunbæ í Reykjavík. Var árásin framin á heimili mannanna. DV hefur ákæru í málinu undir höndum. Mennirnir eru báðir erlendir en hinn ákærði er sakaður um að hafa slegið brotaþolann í andlitið með vatnsglasi. Glasið brotnaði og brotaþolinn hlaut þriggja sentimetra langt stungusár fyrir neðan kjálka og tveggja sentimetra langt sár á hökunni.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Brotaþolinn gerir einkaréttarkröfu í málinu og krefst þess að fá þrjár milljónir í miskabætur.
Búast má við að dómur falli í málinu rétt upp úr áramótum.