Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, er sagður hafa fallið niður stiga á heimili sínu síðastliðinn miðvikudag. Samkvæmt umfjöllun Daily Mail á leiðtoginn að hafa runnið til og fallið niður sjö þrep með þeim afleiðingum að hann brákaði á sér rófubeinið og missti hægðir.
Upplýsingar miðilsins eru hafðar eftir umdeildri Telegram-rás sem hefur deilt ýmsum upplýsingum um Pútín og innrás Rússa í Úkraínu, þar á meðal upplýsingum um heilsufar forsetans og sögusögnum um krabbamein sem hann á þjást af. Engar sannanir hafa þó verið birtar fyrir fullyrðingunum.
Slysið á að hafa átt sér stað fyrir framan lífverði forsetans. Hann á að hafa runnið til í stiganum, fallið niður fimm þrep, rúllað yfir á hliðina og síðan fallið niður tvö þrep til viðbótar. Þegar í stað var kallað á lækna til að gera að meiðslum forsetans en fyrst þurfti að styðja Pútín inn á baðherbergi og þrífa hann eftir slysið.
Þá kemur fram í fréttinni að rannsakað verði hvernig slysið gat átt sér stað en Pútín gengur um í sérstökum skóm sem eiga að koma í veg fyrir að hann geti runnið til auk þess sem stiginn á heimili hans er talinn öruggur.
Pútín á að hafa sloppið við alvarleg meiðsl eftir byltuna og fékk aðeins uppáskrifuð verkjalyf í kjölfarið. Daginn eftir var hann myndaður við heimsókn í rússneska verksmiðju og var ekki sýnilegt að hann hefði orðið fyrir einhverju hnjaski.