fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Sjáanlega ölvaður maður reyndi öll trikkin í bókinni til að sleppa undan refsingu

Ritstjórn DV
Föstudaginn 25. nóvember 2022 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður sem grunaður var um ölvunarakstur reyndi að freista þess að sleppa við refsingu með því að neita að gangast undir öndunarpróf, eða blása í þar til gert tæki sem lögreglumenn hafa í fórum sínum. Neitaði hann því bæði á vettvangi þar sem lögregla hafði afskipti af honum sem og síðar er hann var staddur á lögreglustöð. Ákærandi í málinu var Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra.

Neitaði að fara að fyrirmælum

Lögreglumaður hvar kvaddur út þann 12. maí 2021 vegna tilkynningar um að umræddur maður væri að aka um ölvaður. Lögreglumaður hafði uppi á manninum þar sem hann var að leggja bifreið sinni við heimili sitt. Þegar maðurinn hafi stigið út úr bifreiðinni hafi hann varið sjáanlega ölvaður og auk þess lagði sterka áfengislykt frá vitum hans.

Maðurinn neitaði þó að fylgja fyrirmælum lögreglumanns um að fylgja honum að lögreglubifreiðinni til að blása í áfengismæli. Lögreglumaðurinn tilkynnti honum að hann yrði handtekinn ef hann hlýddi ekki fyrirmælum og svo fór að maðurinn var handtekinn rétt fyrir miðnætti og færður á lögreglustöð. Þar neitaði hann að gefa blóðsýni en eftir að hafa ráðfært sig við lögmann sinn féllst hann á að gefa sýni, um hálf eitt um nóttina. Hann neitaði þó eftir sem áður að gefa öndunarsýni.

Maðurinn sagði við lögreglu að þessi afskipti af honum væri tilefnislaus. Hann hefði ekki verið að aka bifreiðinni heldur verið heima hjá sér og ákveðið að fara út í bifreiðina til að sækja „ákveðna hluti“. Hann hafi varla verið kominn inn í bílinn þegar lögreglan hafi komið og „blokkað hann“

Sagðist hafa verið að sækja kveikjara í bílinn

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði drukkið um tvo bjóra milli sjö og átta um kvöldið og svo lagt sig milli átta og tíu og þá farið út að keyra. Síðan hafi hann farið á barinn og pantað bjór með vini sínum. Hann hafi þó ekki verið með kortið á sér og þurft að fara heim að sækja það. Svo hafi hann drukkið einn bjór á barnum og tekið tvo bjóra með sér í nesti. Síðan hefði hann ekið vini sínum heim og haldið svo heim sjálfur. Hann hafi verið heima í um tíu mínútur, horft á sjónvarpið og drykkið um hálfa flösku af sterku áfengi, áður en lögreglu bar að garði einmitt þegar hann fór út í bíl að leita að kveikjara.

Þegar manninum var sýnd upptaka úr búkmyndavél lögreglumanns mundi hann skyndilega að hann hefði líka ræst vél bílsins til að fá meira ljós við kveikjaraleitina. Svo þegar hann var spurður hvers vegna hemlaljós hafi sést kvikna á upptöku og bíllinn hreyfast lítillega þegar lögreglu bar að garði, bætti hann við að hann hefði líklega rekist í bremsuna og bíllinn hrokkið áfram eftir að hann drap á vélinni.

Vitnin sögðu hann sjáanlega drukkinn

Lögreglumaðurinn sem handtók manninn sagðist hafa séð manninn stíga út úr bílnum fyrir utan heimili sitt. Hafi það átt sér stað skömmu eftir að tilkynning barst um meintan ölvunarakstur mannsins. Ákærði hafi verið sjáanlega ölvaður. Hins vegar hafi lögreglumaður ekki kannað hita vélarhlífar enda séð hemlaljós og bakkljós á bifreið mannsins áður en hann steig út.

Kona sem var að vinna á barnum bar einnig vitni. Hún sagði starfsmenn hafa ákveðið að tilkynna manninn til lögreglu þegar þau sáu hann aka frá barnum enda hafi hann verið sjáanlega ölvaður. Hún hafi svo mætt honum í akstri á leið hennar heim um hálftíma eða klukkustund eftir að barinn lokaði og þá hringt aftur í lögreglu.

Önnur kona sem einnig var að vinna barnum sagði hann hafa verið sjáanlega drukkinn og hafi starfsmenn tilkynnt það lögreglu.

Vinurinn sem var með manninum á barnum bar einnig vitni en sagði þá hafa drukkið einn bjór á barnum og tekið einn í nesti. Þeir hafi ekið aðeins um og svo hafi maðurinn skutlað vininum heim og ekki verið sjáanlega ölvaður.

Samkvæmt blóðsýni mældist 1,21 prómill í blóði mannsins í því sýni sem hann samþykkti að veita, en sérfræðingur á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði sagðist ekki geta sagt út frá blóðsýninu hvort málsvörn mannsins gæti staðist.

Dómari gaf lítið fyrir málsvörnina

Dómari rakti að frásögn mannsins væri mikið á reiki og fengi ekki að öllu stoð í gögnum máls. Eins væru vitni og lögreglumaður búin að greina frá því að maðurinn hafi verið sjáanlega drukkinn. Því væri hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi verið staðinn að akstri undir áhrifum. Dómari taldi einnig að með því að neita að gefa öndunarsýni hefði maðurinn gerst sekur um að neita að veita atbeina við rannsókn málsins.

Maðurinn var því sekur um þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir. Þetta væri ekki í fyrsta sinn sem maðurinn gerðist sekur um brot á umferðarlögum en hann hefði verið sviptur ökurétti alls fjórum sinnum frá árinu 1985. Því var maðurinn dæmdur til að greiða 420 þúsund króna sekt í ríkissjóð. Hefur maðurinn fjórar vikur til að greiða sektina og ef það bregst þarf hann að sitja í fangelsi í 26 daga. Eins var maðurinn sviptur ökurétti í fimm ár og þarf að greiða tæpar 600 þúsund krónur í lögmannskostnað og annan sakarkostnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe