Síðastliðinn mánudag var aðalmeðferð við Héraðsdóm Norðurlands eystra í máli manns sem ákærður er fyrir ofbeldisbrot í nánu sambandi og barnaverndarlagabrot. DV hefur ákæru Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra undir höndum en í henni greinir frá því að ofbeldið hafi átt sér stað fyrir framan þriggja ára son fólksins sem reyndi að koma móður sinni til hjálpar með eð því að berja í föður sinn.
Maðurinn er sagður hafa ráðist á sambýliskonu sína og barnsmóður á heimili þeirra á Akureyri og klipið hana ítrekað í líkamann. Eftir að konan hringdi í 112 til að kalla eftir hjálp við að fjarlægja manninn úr íbúðinni hafi hann slegið hana föstu hnefahöggi í höfuðið, tekið hana kverkataki, sparkað í hana og kýlt hana ítrekað í hnakkann, auk þess að bíta í fingur hennar og hóta henni lífláti.
Í ákærunni segir ennfremur:
„Afleiðingar þessa fyrir brotaþola voru þær að hún hlaut bólgu ofan við hægri augabrún og fyrir ofan vinstri augabrún, auma bólgubletti aftan til á hnakka hægra megin, klórför framanvert á hálsi hægra megin, 1 cm sár ofan við vinstra viðbein, dreifð þreifieymsli í háls- og herðavöðvum, sár og klórför á vinstra brjósti, klórför á neðanverðum kvið, þreifieymsli og roðasvæði hægra megin á mjóbaki, klórfar vinsta megin á mjóbaki og eymsli eftir hryggsúlu upp eftir öllu baki, mar við vinstri olnboga og bitför og bólga á baugfingri og löngutöng hægri handar.“
Lögreglustjóri krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Konan gerir bótakröfu á manninn upp á 2,6 milljónir króna.
Búast má við að dómur falli í málinu innan fjögurra vikna.