„Ertu til í að birta myndir af henni sjálfri, hún er ekki svona grimm,“ segir Katarzyna Anna Jablonska, kölluð Kasia, en hundstík hennar hefur orðið að fréttaefni fjölmiðla undanfarna daga. Í fyrradag var lögregla kölluð að fjölbýlishúsi við götuna Keilusíða við Akureyri vegna tilkynningar um að hundsrík Kasiu, sem heitir Nala, hefði bitið barn.
DV ræddi við Halldóru Larsen, íbúa í húsinu, sem sagði: „Ég og kærastinn minn heyrðum mjög árásargjarnt gelt og síðan þessi svakalegu hræðsluöskur og grát. Við fengum öran hjartslátt og vorum í sjokki eftir þetta.“ Að hennar sögn kom lögregla á vettvang og ræddi við íbúa en hundurinn var ekki fjarlægður. „Það er búið að senda margar tilkynningar til MAST og Akureyrarbæjar vegna þessa hunds. Að mínu mati á þessi hundur heima uppi í sveit en ekki í fjölbýli. Hann getur ekki verið innan um börn,“ segir Halldóra ennfremur.
Halldóra sagði að börnum í húsinu stæði mikill stuggur af hundinum. Honum væri mjög illa sinnt af eigandanum og væri hættulegur.
„Hún er ljúf og góð og krakkarnir hérna eru ekki hræddari við hana en svo að þau hafa oft boðist til að fara út með hana að ganga,“ segir Kasia í viðtali við DV. Hún segir kvartanir vegna tíkurinnar nýtilkomnar og einskorðast við eitt par sem býr í húsinu: „Ég hef haft þennan hund hér í þrjú ár og það var fyrst kvartað yfir henni í maí, það var af því hún væri að gelta svo mikið. Það var sagt að hún væri úti geltandi alla daga. Hún er þarna úti í garðinum í löngu bandi og krakkarnir leika sér hjá henni, í garðinum og á trampólíni. MAST kom hingað vegna kvartana í maí og sagði að allt væri í fínasta lagi. Ef hún er inni ein heima þá geltir hún stundum,“ segir Kasia sem bendir á að tíkin uni sér vel úti í garði í löngu bandi. DV hefur þó undir höndum myndband sem sýnir tíkina gelta kröftuglega í garðinum.
„Flestir íbúarnir hafa gefið leyfi fyrir því að tíkin sé hérna en reyndar skrifaði Halldóra Larsen ekki undir það,“ segir Kasia ennfremur en í viðtali við Vísir.is greinir hún frá því að annar íbúi í húsinu hafi heldur ekki viljað skrifa undir.
„Það er líka allt í lagi að tala við mann ef fólk hefur undan einhverju að kvarta, en ekki rjúka beint í að kæra,“ segir Kasia.
Hún segir kærasti Halldóru Larsen hafi verið með mjög ógnandi tilburði við sig í fyrradag eftir atvikið sem leiddi til komu lögreglunnar: „Hann kom alveg brjálaður til mín með andlitið upp að mér og öskraði á mig. Af hverju er hundurinn hér ennþá?“
„Lögreglan sagði að þetta hefði verið smotterí,“ segir hún um bitið en Nala er sögð hafa glefsað í barn um leið og hún stökk upp á annan hund. Segir Kasia að Nala hafi aldrei áður verið sökuð um að bíta fólk.
DV hefur undir höndum gögn sem sýna að málið hefur komið til kasta bæjaryfirvalda á Akureyri. Kasia hefur fengið sent bréf frá bænum þar sem henni er gert að fjarlægja hundinn úr húsnæðinu þar sem miklar kvartanir hafi borist vegna tíkurinnar og ekki sé leyfi fyrir veru hennar í húsnæðinu.
Í fundargerð bæjarráðs Akureyrar kemur fram að mikið hafi verið kvartað undan þessum hundi sem gelti mjög mikið og valdi miklu ónæði. Ekki sé hirtur skítur eftir hundinn á lóðinni við húsið og ekki sé leyfi fyrir hundinum í húsinu. Í umræddri bókun segir að leyfi þurfi hjá tveimur þriðju hluta íbúa en það stangast á við upplýsingar þess efnis að allir íbúar nema tveir hafi samþykkt hundinn.
Mjög hefur verið tekist á um málið á samfélagsmiðlum, sem og í skilaboðum til DV. Fólk sem segir Nölu hafa veist að börnum sínum hefur haft samband við DV en einnig fólk sem vitnar um að hún sé ekki grimm. „Ég á tvö börn sem leika við Nölu og hún hefur aldrei bitið þau,“ segir einn íbúi sem sendi DV skilaboð.