„Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann. Evrópa, Svíþjóð og Svíar lifa í nýjum og hættulegum raunveruleika,“ sagði Magdalena Andersson, forsætisráðherra, á fréttamannafundi þar sem hún lagði áherslu á nauðsyn þess að Svíþjóð fái þá tryggingu fyrir öryggi sem aðild að NATÓ veitir. Hún nefndi Noreg og Danmörku sem dæmi um að lítil ríki, þar sem jafnaðarmannastefna er við lýði, geti vel þrifist innan NATÓ.
Lengi hefur verið reiknað með að Svíar myndu fara þessa leið og sækja um aðild að NATÓ en ferlið hefur dregist á langinn hjá þeim. Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra, sagði í samtali við Dagens Nyheter að niðurstaðan hafi legið skýrt fyrir hjá honum fyrir um fimm vikum síðan. Hann sagði að það hafi verið 11. apríl klukkan 08.15 sem hann varð endanlega viss í sinni sök. Þá var hann staddur í öryggisrými í varnarmálaráðuneytinu, rými þar sem fyllsta öryggis er gætt og ekki á að vera hægt að hlera það sem þar fer fram.
„Við vorum búin að fara yfir alla möguleika. Við höfðum metið alla möguleika sem ríki utan hernaðarbandalaga. Ég var sjálfur búinn að hugsa um þetta lengi. Þegar staðan breytist þá verður maður að taka afstöðu. Mín tilfinning var: „Þetta gengur ekki lengur. Í þessari stöðu, sem upp er komin, er eðlilegt að við ákveðum að vera með í NATÓ.““
Þessi þróun mála hjá Hultqvist er athyglisverð í ljósi þess að áður en Rússar réðust inn í Úkraínu var hann mjög efins um að Svíþjóð ætti að sækja um aðild að NATÓ.
Allt frá því að Rússar hertóku Krím 2014 hafa bæði Finnar og Svíar mjakast hægt og rólega nær NATÓ. Innrásin í Úkraínu gerði síðan útslagið og er nú að ýta báðum ríkjum í fang NATÓ. Eitthvað sem Rússum hugnast illa. Landamæri Finnlands og Rússlands eru um 1.360 km og hugnast Rússum mjög illa að þetta verði nú landamæri að NATÓ-ríki.
Reiknað er með að bæði Finnland og Svíþjóð fari hraðferð inn í NATÓ.
Í tilkynningu sænskra jafnaðarmanna er tekið fram að þeir vilja ekki að kjarnorkuvopn verði geymd í Svíþjóð og þeir vilja heldur ekki að NATÓ komi sér upp varanlegum herstöðvum í landinu. Magdalena Andersson vísaði til þess að Danir og Norðmenn búi við þessi skilyrði.