fbpx
Sunnudagur 14.ágúst 2022
Fréttir

Leigusalar orðnir að klerkastétt – Hvetja til að taka rafmagnið af ef leigjandi stendur ekki í skilum

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 16. maí 2022 17:02

Guðmundur Hrafn Arngrímsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, segir fjölda leigjenda vera miður sín vegna orðræðu þar sem talað er um leigjendur sem annars flokks fólk.

Hann segist í morgun hafa fengið skilaboð frá yfir tuttugu manns vegna umræðu í Facebookhópnum Fjármálatips þar sem leigusalar skiptast á ráðum um hvernig sé best að sía út tilvonandi leigjendur.

Þar er til dæmis hvatt til þess að hafa rafmagnið á nafni leigusala þannig að hægt sé að taka rafmagnið af ef leigusali stendur ekki í skilum á tilsettum tíma, aldrei gera lengri en sex mánaða samning til að auðveldara sé að losna við leigjandann, athuga hvort viðkomandi beri virðingu fyrir eigninni með því að fylgjast með hvort hann fari úr skónum þegar hann kemur að skoða íbúðina, alltaf að biðja um hámarks tryggingu, setja í samning hvort leigjandi megi setja nagla í vegg til að hengja upp myndir, skoða Facebooksíðu viðkomandi til að skoða hvernig lífsstíll hans er, fá meðmæli frá fyrrverandi leigusala og frá vinnuveitanda, og fá afrit af sakavottorði. Svo dæmi séu tekin.

Haldið í stofufangelsi

„Þetta er að fara rosalega illa í leigjendur en rímar samt við þeirra reynslu. Það er ekki eins og þeir séu að heyra þetta í fyrsta skipti,“ segir Guðmundur en heitar umræður hafa skapast um málið í Umræðuhópi leigjenda. Meðal athugasemda þar eru:

„Þetta er skelfileg lesning, en það sem er skelfilegra er hvað þessi umræða virðist einstaklega eðlileg í huga þessa fólks.“

„Það virðist vera mjög algengt að gera tímabundna samninga, jafnvel aðeins til 3-6 mán í senn. Ég hef sjálf lent í þessu, með tvö ung börn. Þetta skapar gríðarlegt óöryggi og tók mig gjörsamlega á taugum.“

„Ég hef ekki mátt hengja upp myndir til að gera íbúðina heimilislega. Og allskonar reglur sem hafa haldið manni í hálfgerðu stofufangelsi. Enda hefur mér ekki fundist ég „eiga heima“ neinsstaðar í 15 ár…þetta er meira eins og hótel.“

„Það er eins og við séum óæðri dýrategund í hugum þessa valdafólks.“

Ætti að vera einmitt öfugt farið

Guðmundur segir að ástandið á leigumarkaði og takmörkuð réttindi leigjenda verða til þess að leigusalar eru orðin valdastétt þar sem valdaójafnvægið er gríðarlegt gagnvart leigjendum.

„Leigjendur upplifa ofboðslega íþyngjandi skilyrði. Leigusalar eru að mörgu leyti orðnir eins og einhver klerkastétt sem býr til siðferðisskilaboð um hvernig fólk á að haga sér. Og leigusalar komast hreinlega upp með að setja ströng skilyrði og skipta sér af bæði einkalífi og heimilishaldi leigjenda í miklum mæli. Það er verið að koma gríðarlega illa fram við fólk, rannsaka háttsemi þeirra og félagslegt net, og í raun ráðskast með þeirra helgustu vé sem er heimilið, fjölskyldan og vinir. Leigusalar eru ekki slæmt fólk en regluverkið og umhverfið dregur fram það versta í fólki, það versta í mjög góðu fólki,“ segir hann.

Þá segir Guðmundur það vera öfugsnúið að leigjendur þurfi að keppa um hylli leigusala sem geri ekkert annað en að græða á þeim. „Þetta ætti að vera öfugt. Leigusalinn ætti að þurfa að selja sjálfan sig því leigjandinn er að afhenda honum allt sitt neyslufé, borga fyrir hann húsnæðið og jafnvel borga fyrir hans neyslu og framfærslu. Leigusalinn ætti að fara þessa bónferð, taka mökunardans fyrir leigjandann og reyna að heilla hann. Það eru miklir andverðleikar sem felast í því að leigusali skuli setja sig á háan hest gagnvart því fólki sem er að halda honum uppi.“

Hættuleg menning

Guðmundur bendir á að það sé engum hollt að hafa þau völd yfir neinum sem leigusalar hafa yfir leigjendum hér á landi. „Við þessar aðstæður verður til markaleysi, ekki ósvipað því sem talað er um í sambandi við feðraveldið. Það verður til sú menning að mega og eiga tilkall til einhvers í nafni eignarréttar, alveg sama hversu mikið níð þú ert að bjóða fólki uppá. Það er hættulegt að búa til svona kúltúr.“

Honum finnst ummæli leigusala í garð leigjenda í Fjármálatips bera vott um fyrirlitningu í þeirra garð. „Þetta er markaleysi sem viðgengst í tómi þar sem við áttum okkur ekki á því siðferðisrofi sem hefur orðið, að líta á leigjendur sem annars flokks. Nú þegar þessi umræða er hafin verða leigusalar oft vandræðalegir og þráast við að rétta af þetta siðferðismat. En fyrirlitningin sem birtist í þessu viðhorfi sem við sjáum er sláandi, en hún er mun algengari en margur heldur og þarna birtist einfaldlega inngróin fyrirlitning gagnvart leigjendum. Leigjendur þurfa vernd fyrir svona hegðun og viðhorfi. Fólk er að leita sér að heimili, ekki að leita að stað til að skemma. Hér ríkir heimilishelgi. Engu að síður geta leigusalar ráðskast með annað fólk í skjóli neyðar sem er heimatilbúin og jafnvel studd af bæði Alþingi og sveitarstjórnum. Það er búið að búa til umhverfi þar sem einstaklingar geta ráðskast með aðra og þeirra helgustu vé, og þessu þarf að breyta strax,“ segir Guðmundur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja að FBI hafi leitað að leynilegum skjölum um kjarnorkuvopn heima hjá Trump

Segja að FBI hafi leitað að leynilegum skjölum um kjarnorkuvopn heima hjá Trump
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Strandgestir flúðu í örvæntingu þegar rússneskar flugvélar sprungu – Atburðirnir á Krím geta breytt stríðinu – Myndband

Strandgestir flúðu í örvæntingu þegar rússneskar flugvélar sprungu – Atburðirnir á Krím geta breytt stríðinu – Myndband
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nafn mannsins sem lést í sjósundi við Langasand

Nafn mannsins sem lést í sjósundi við Langasand
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fordæma netárás og hótanir í garð Fréttablaðsins – „Alvarleg tilraun til að hafa áhrif á sjálfstæða ritstjórn íslensks fjölmiðils“

Fordæma netárás og hótanir í garð Fréttablaðsins – „Alvarleg tilraun til að hafa áhrif á sjálfstæða ritstjórn íslensks fjölmiðils“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gunnar vonsvikinn eftir fund um mál kennarans sem smánaði hann – „Þær sögðu að þetta væri ekki einelti heldur mistök“

Gunnar vonsvikinn eftir fund um mál kennarans sem smánaði hann – „Þær sögðu að þetta væri ekki einelti heldur mistök“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

234 þúsund brottfarir erlendra farþega í júlí

234 þúsund brottfarir erlendra farþega í júlí