Ótrúleg fylgisaukning Framsóknarflokksins varð til þess að meirihlutinn í Reykjavík féll í kosningunum sem lauk í nótt. Framsóknarflokkurinn fékk alls 18,3 prósent og fær fjóra menn í borgarstjórn en á nýafstöðnu kjörtímabili átti flokkurinn ekki borgarfulltrúa enda fékk flokkurinn 3,2% fylgi árið 2018.
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin töpuðu bæði tveimur borgarfulltrúum. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 24,5% fylgi og sex borgarfulltrúa en Samfylkingin hlaut 20,3% fylgi og fimm borgarfulltrúa.
Þá fengu Píratar 3 borgarfulltrúa og 11,6% fylgi, Sósíalistaflokkurinn 7,7% fylgi og tvo borgarfulltrúa en Viðreisn (5,2%), Flokkur Fólksins (4,5%) og Vinstri Græn (4,0%) hreppu öll einn borgarfulltrúa.
Fyrir liggur að það mun reynast þrautinni þyngri að mynda meirihluta. Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósílistaflokksins, útilokaði meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn en það þýðir að mjög erfitt er að mynda meirihluta án aðkomu Framsóknarflokksins.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, útilokaði til að mynda ekki samstarf flokksins við Samfylkinguna og Framsókn um meirihlutasamstarf í viðtali á RÚV en fyrr um kvöldið mátti greina að Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, hugnaðist slíkt samstarf.
Þá velti Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur, því upp að Sjálfstæðisflokkurinn gæti boðið Einari Þorsteinssyni, oddvita Framsóknar, borgarstjórastólinn og freistað þess að fá Flokk fólksins eða Viðreisn með sér í slíkt samstarf þó síðarnefndi kosturinn væri ólíklegri.