Héraðssaksóknari hefur ákært konu á sextugsaldri fyrir hrottalega árás í Borgarnesi sem átti sér stað þann 17. október 2020. Ekki tókst að birta konunni ákæruna og því var hún auglýst í Lögbirtingablaðinu fyrir stundu.
Þar kemur fram að konan er grunuð um hafa veist að tæplega sextugum manni þetta kvöld með ítrekuðum hnefahöggum í andlit og líkama. Þá hafi konan stungið manninn ítrekað í líkamann með skærum og einu sinni í andlitið. Maðurinn hafi náð að flýja út en þá hafi konan veitt honum eftirför að útibúi Olís við Brúartorg þar sem hún gerði tilraun til þess að stinga hann í líkamann.
Í ákærunni kemur fram að maðurinn hafi hlotið fjögur sár vinstra megin á baki og á vinstri öxl, sár á vinstri olnboga og sár og mar á vinstri upphandlegg og sár á vinstri kinn eftir árásirnar.
Telst konan hafa gerst brotlega við 2. málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga sem gæti varðað allt að 16 ára fangelsi. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Vesturlands þann 10. júní næstkomandi.