fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Heiða varð fyrir líkamsárás fyrir utan heimili sitt um helgina – „Ég er með pönkaragen í mér“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 6. september 2021 10:10

Heiða Eiríksdóttir. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dagbók lögreglu sem fjölmiðlar greindu frá á laugardagsmorgun segir frá því að ráðist hafi verið á konu í stigagangi við heimili hennar í miðbæ Reykjavíkur, laust eftir miðnætti á föstudagskvöldið. Árásarmaður hrinti konunni og skallaði hana í andlitið. Hlaut konan áverka í andliti og gleraugu hennar brotnuðu.

Konan sem þarna átti í hlut er Heiða Eiríksdóttir, tónlistarmaður og dagskrárgerðarmaður á Rás 2. Í samtali við DV segist hún ekki bera varanlegan skaða af árásinni, hvorki líkamlega né andlega. „Ég bara fín,“ segir hún í samtali við DV. Aðdragandinn að árásinni var sá að hún heyrði mikinn hávaða fyrir utan húsið þar sem hún býr er hún var að fara í háttinn á föstudagskvöldið. Lætin hljómuðu eins og ofbeldi ætti sér stað og Heiða hikaði ekki við að skerast í leikinn:

„Fyrst hélt ég að einhver væri bara að skella hurðum en síðan hélt ég í alvörunni einhver væri að meiða einhvern annan. Það fyrsta sem ég hugsaði var ekki að ég ætlaði ekki að blanda mér í þetta heldur að ég ætlaði að fara út og skoða hvað væri að gerast, þannig að ef einhver þyrfti á því að halda þá væri ég vitni og gæti líka hringt í lögregluna,“ segir Heiða.

Ungur piltur, 18 ára, lét öllum illum látum. Hann var að stíga úr leigubíl og virtist bæði undir áhrifum áfengis og örvandi lyfja, þó að það sé ekki staðfest. Heiða býr á jarðhæð í húsinu, sem er fjögurra hæða fjölbýlishús, og þess vegna heyrði hún lætin svona vel. Það skipti engum togum að eftir að Heiða hafði opnað út réðst pilturinn á hana samkvæmt framangreindri lýsingu. Hann fór síðan inn í íbúð í húsinu ásamt nokkrum félögum sínum.

Heiða vill ekki fara dýpra í atvikið sjálft þar sem hún á eftir að gefa lögregluskýrslu um það í vikunni. En hún greindi fjölmörgum Facebook-vinum sínum frá því í færslu í gær og féllst á að ræða málið við DV. Hún segir tvennt í þessu afar mikilvægt: Annars vegar að þeir sem verða fyrir ofbeldi þegi ekki yfir því og hins vegar að fólk láti sig aðra varða og sitji ekki hjá þegar aðrir eru í hættu.

Pönkaraeðlið tók völdin

DV spurði Heiðu hvernig henni liði og hún sagði að henni líði bara frábærlega. Hún finnur ekki til vanlíðunar eftir árásina og það kann að stafa af því að hún hefur verið opinská um atvikið og kannski líka að hún er sátt við hvernig hún brást við aðstæðum:

„Ég er með pönkaragen í mér og í því felst að ég trúi rosalega á það að allir eigi að hjálpast að, og réttlæti er mjög sterkt í mér. Þetta hefur alltaf vegið þyngra í mér en sú hugsun að vera ekki að blanda mér í eitthvað og lenda í veseni. Þetta er eitthvað sem kemur úr „do-it-yourself“ pönkarasenu, þar sem allir hjálpast að og allir passa alla hina.“

Heiða segir líka mikilvægt að burðast ekki með tilfinningar og hugsanir eftir ofbeldi heldur segja frá ofbeldinu. „Það á enginn að þurfa að burðast með efasemdir um að hann eða hún hefði ekki átt að skipta sér af, og upplifa skömm eftir að hafa verið laminn. Það á að segja frá, bara út með það.“

Hún segist engan kala bera til piltsins sem réðst á hana og jafnframt svaraði hún athugasemd blaðamanns um að það gæti verið hættulegt að vera sleginn:  „Þetta er bara ungur strákur, ég á son sem er eldri en hann. Almennt er ég ekki hrædd við unglinga, vissulega getur verið hættulegt að vera slegin en ég ætla bara að vera þakklát fyrir að vera ekki hrædd, frekar en að greina þetta eitthvað mikið.“

Heiða skrifaði eftirfarandi færslu til Faceboo-vina sinna um atvikið:

„Kæru vinir. Það er ekki oft sem maður veit nánari deili á þeim ofbeldisverkum sem skila sér inní fréttir úr dagbókum lögreglu. Í dagbók síðustu nætur er ég þó ein af þeim sem varð fyrir tilefnislausu ofbeldi. Ég er búin að fá áverkavottorð og mun mæta í formlega skýrslutöku á lögreglustöð í næstu viku. Ég er nágrannakonan sem fór fram til að athuga með lætin sem glumdu um allt rétt eftir miðnætti í gær. Ég er ekki nefbrotin, en bólgin og blá og gleraugun mín eru teipuð í dag. Ég trúi ekki á ofbeldi og það á aldrei rétt á sér og ég fór fram á gang því lætin voru svo mikil að ég hélt að verið væri að ráðast á einhvern annan, og það gerist ekki á minni vakt án þess að ég láti mig það varða. Það er sjokk að láta skalla sig á náttfötunum með tannburstann í annarri á leið uppí rúm á föstudagskvöldi, en þetta ofbeldi er þó bara brotabrot af því sem margir þurfa að upplifa.

Þöggun er þó aldrei besti kosturinn og það að segja satt og rétt frá og skammast sín ekki neitt, enda gerði ég ekkert rangt, er partur af mikilvægu heilunarferli. Ég fékk frábærar móttökur og aðstoð bæði frá lögreglunni sjálfri og á Borgarspítalanum í dag. Ekkert nema virðing og skilningur yfir línuna og búið er að finna út hver gerandinn er. Ég hvet alla, konur jafnt sem karla, til að segja frá ofbeldi svo það verði skráð og skilaboðin komist áleiðis að ofbeldi er aldrei réttlætanlegt. Segjum frá, fáum hjálp og upprætum svona hegðun í samfélagi manna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
Fréttir
Í gær

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur

Svívirðileg brot gegn sjö ára stjúpdóttur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum