fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Brynjar svarar gagnrýni Viðars – Myndi skammast sín ef hann talaði við foreldrana

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 18. febrúar 2021 18:16

Brynjar Karl Sigurðsson (t.v.) og Viðar Halldórsson. Samsett mynd úr Youtube-skjáskotum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allt öðruvísi er komið fram við stelpur en stráka í körfubolta, að sögn þjálfarans umdeilda, Brynjars Karls Sigurðssonar. Brynjar ræddi málin í úrvarpsþættinum Harmageddon í morgun.

Heimildarmyndin „Hækkum rána“ sem sýnd er í Sjónvarpi Símans hefur vakið gífurlegt umtal og rökræður. Stelpnalið úr ÍR sem Brynjar þjálfaði varð að fréttaefni árið 2019 er stelpurnar neituðu að taka við verðlaunum eftir sigur á Íslandsmótinu sem var haldið á Akureyri, vegna þess að þeim hafði verið meinað að keppa við stráka. Létu stelpurnar verðlaunapeningana sína falla í gólfið. Brynjar var í kjölfarið rekinn frá ÍR og stofnaði körfuknattleiksliðið Aþenu. Þjálfunaraðferðir Karls hafa að markmiði að valdefla stelpur fyrir utan að gera þær góðar í körfubolta.

„Þegar við förum að bera saman hvernig stemningin var stráka- og stelpumegin þá finnst mér svo skrýtið að enginn skuli sjá þetta. Það eru gerðar miklu minni kröfur [til stelpnanna, innskot DV], þær fá miklu meira hrós fyrir að gera miklu minna, það er oftar hlaupið inn á völlinn ef þær gráta.  – Mig langaði að fá meira sjálfstraust og meiri aggressjón í þær.“

Brynjar bendir á að æfingamenningin þar sem kjaftháttur og harka tíðkaðist hafi verið einskonar „flughermir“ og líkir við spunaleikrit. Þetta var heimur sem stelpurnar voru sáttar að ganga inn í og um leið og æfingunni lauk þá róðust þær aftur niður. Þá var farið yfir samskiptin á æfingunni og hvernig þátttakendur höndluðu áreitið. Orðval hans og framganga á æfingum með stelpunumn hafi verið stýrt ferli sem allir hafi gengið sáttir inn í. Segir hann fólk ekki hafa haft hugmynd um hvað aðferðafræði hans var úthugsuð.

„Þeim finnst þetta æðislegt, þeim líður rosalega vel í þessu,“ sagði Brynjar um líðan stelpnanna í þessu ferli. Foreldrar höfðu einnig á orði við hann að þessi stelpuhópur væri blessunarlega laus við allt drama. Stelpurnar voru fullar af sjálfsöryggi. Telur hann að hugsanleg skýring á dramasækni kvennahópa í íþróttum sé sú að þeim sé frekar haldið niðri en strákunum hvað varðar aggressíft atferli í leikjum og æfingum.

Myndi skammast sín

Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Brynjar fyrir þjálfunaraðgerðir hans er Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði. Viðar segir markmið Brynjars, að valdefla stúlkur, vera gott, en aðferðir hans slæmar, enda beiti hann úreltum þjálfunaraðferðum þar sem íþróttir 8-11 ára barna séu afreksvæddar. Þetta kom fram í grein Viðars á Kjarnanum og þar segir meðal annars að afreksvæðing íþrótta hjá börnum feli í sér að þjálfunaraðferðir fyrir fullorðna atvinnumenn séu yfirfærðar á börn.

Grein Viðars má lesa hér

Brynjar Karl segir í viðtalinu við Harmageddon að Viðar viti ekki um hvað hann er að tala:

„Mér finnst ótrúlegt af því ég hef rosalega lítinn áhuga á því að vera að mæta í fjölmiðla og vera að gaspra eitthvað um þessa hluti, en mér finnst ótrúlegt að ég sjái mig knúinn til að mæta hér í eitthvert útvarpsviðtal vegna þess að einhver prófessor vinnur ekki heimavinnuna sína. Það sem ég á við með því er að þetta á við engin rök að styðjast. Ég er með krakka með allskonar greiningar og allskonar hluti, það eru stelpur í þessu liði sem eru með skilgreiningar sem ég ætla ekki að tala um hérna, ef hann myndi kynna sér málið og tala við foreldrana þá held ég að hann myndi skammast sín.“

Kemur síðan fram í viðtalinu að Brynjar hafi ekki getuskipt sínum hópi heldur skipt upp eftir dugnaði og elju og vilja til að skuldbinda sig.

Þá kemur enn fremur fram að fátt hafi valdið eins miklum framförum hjá liðinu og að keppa við strákalið. Gífurleg getubæting hafi fylgt því og strákunum hafi líka þótt frábært að keppa við stelpurnar. Hins vegar sé magnað að hann hafi hvað eftir annað heyrt það viðhorf að það sé svo mikil niðurlæging fyrir stráka að tapa fyrir stelpum og það hafi ekki síst komið frá mæðrum strákanna.

Fyrsta skrefið inn í heim vanvirðingar og áreitni

Brynjar segir að krafan um að stelpurnar fengju að etja kappi við stráka á Íslandsmótinu árið 2019, þegar stelpurnar létu verðlaunapeningana sína falla gólfið í mótmælaskyni, hafi verið fullkomlega eðlileg. Þá þegar hafi það tíðkast að stelpur spiluðu sem uppfyllingarleikmenn í strákaliðum.

Brynjar segist hafa hugsað með sér á þessum tímapunkti að þarna „væri þetta að byrja“, stúlkurnar væru að stíga inn í karlvæddan heim körfuboltans á Íslandi, þar sem miklu minna væri lagt í kvennaliðin og miklu minni áhersla væri lögð á mót stelpnanna en strákanna. Þetta væri sá sami heimur og þar sem upp hafi komið mál þar sem þjálfarar og dómarar hafi gerst sekir um áreitni við ungar körfuboltakonur.

„Dóttir mín, hún er ekki að fara að verða fórnarlamb í svona aðstæðum,“ segir Brynjar. Þess vegna hafi augnablikið þegar stelpurnar létu verðlaunapeningana falla í gólfið verið augnablik sem mótaði þær. „Þetta fer aldrei úr þeim.“ Þessar stelpur láti ekki vaða yfir sig í framtíðinni og ganga yfir mörk sín.

Varðandi ásakanir um að hann hafi heilaþvegið stelpurnar segir hann: „Fólk trúir því ekki að þessar stelpur hafi áhuga á þessum málum.“ Segir Brynjar að málin hafi verið reifuð á fjölmörgum fundum þar sem stelpunum var kynnt að hann og aðrir væru að reyna að koma í gegn reglugerðarbreytingum á ársþingi KKÍ, um að stelpur gætu keppt gegn strákum. Lét hann þær síðan vita um lyktir þeirra mála. Uppfrá því spratt hugmyndin um að taka ekki við verðlaununum eftir mótið örlagaríka árið 2019. Málin voru alltaf rædd og stelpurnar komu fram með sínar skoðanir. Segir Brynjar líta svo á að hann hafi verið að móta einstaklinga með gagnrýna hugsun, sem er þá í raun andstæðan við heilaþvott.

Brynjar fer ítarlega yfir málin á Harmageddon

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni