fbpx
Sunnudagur 29.maí 2022
Fréttir

Litlar líkur á að mál Margrétar verði rannsökuð – Fékk bréf frá forsætisráðuneytinu – Lýsir hryllilegri meðferð á fósturheimili

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 30. nóvember 2021 18:00

Margrét 15 ára til vinstri og til hægri eins og hún lítur út í dag.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Esther Erludóttir, sem sætti skelfilegri meðferð á fósturheimili í sveit í æsku, hefur fengið svarbréf við erindi sínu til forsætisráðuneytisins um mál hennar. Hávær krafa er uppi um rannsókn á tilteknum einkaheimilum þar sem börn hafa verið vistuð að tilstuðlan barnaverndarnefnda og ásakanir beinast að um illa meðferð. Fyrirheit hafa verið gefin um rannsókn á illræmdu heimili á Hjalteyri, sem rekið var á áttunda áratug síðustu aldar, og hefur verið mikið í fréttum undanfarið eftir sláandi fréttaskýringu Stöðvar 2 um ofbeldið sem þar tíðkaðist.

Í ljósi umræðunnar um heimilið á Hjalteyri hefur Margrét viljað minna aftur á sögu sína sem hefur meðal annars verið til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveiki. Eva Hauksdóttir skráði einnig frásögn Margrétar fyrir Kvennablaðið fyrir nokkrum árum.

Margrét bendir á að það sé ekki betra að vera píndur og rændur barnæskunni á einkaheimili en á ríkisreknu vistheimili. Í frásögn sinni lýsir Margrét meðal annars nauðgunum og líkamlegum misþyrmingum sem hún varð fyrir á tilteknu heimili:

„Ofbeldið og kúgunin á þessu heimili er efni í heila bók. Það voru engar venjulegar refsingar sem viðgengust þarna; við vorum svelt og okkur var misþyrmt, við vorum t.d. lamin með hrossapísk.  Ég á eingöngu vondar minningar frá þessum stað. Sem dæmi um meðferðina var viskustykki vafið um hálsinn á mér og ég látin hanga í því. Einu sinni var ég lamin með naglaspýtu í bakið og bóndinn nauðgaði mér margsinnis. Fólk trúir þessu ekki. Ég sagði frá þessu heimili á Facebook og fékk það framan í mig að ég væri bara að ljúga þessu upp. En það vill svo til að það eru vitni að þessu og ég var ekkert sú eina sem var misþyrnt. Einn drengurinn var einu sinni berháttaður og látinn sitja í vatnsbala úti í kuldanum fram á nótt. Þessi drengur fyrirfór sér síðar.“

Margrét greinir frá að börnin sem dvöldust á heimilinu hafi rætt um hvernig þau gætu flúið en þau vissu að slíkt gæti kostað hræðilegar refsingar. Hún lýsir því einnig hvernig nágranni bjargaði henni undan nauðgun húsbóndans á heimilinu:

„Við börnin, sem vorum vistuð þarna, töluðum stundum saman um það hvernig við gætum flúið en símtölin okkar voru hleruð og við vissum að okkur yrði refsað hraðlega ef við reyndum að strjúka. Börn sem er farið svona illa með brotna niður. Manni datt ekkert í hug að það væri hægt að fá hjálp.

Nágrannarnir vissu samt að það var eitthvað mikið að á þessu heimili. Þegar húsbóndinn nauðgaði mér í annað eða þriðja skiptið kom maðurinn á næsta bæ að og stoppaði hann. Þau voru öll á fylliríi og þessi nágranni kom að honum þar sem hann var að nauðga mér. Hann hreinlega dró hann frá mér.“

Upphaf hrakninga Margrétar í æsku má rekja til þess að móðir hennar lést er hún var fjögurra ára en faðir hennar var alkóhólisti og óhæfur til ala hana og systkini hennar upp, auk þess sem hann skorti allan áhuga til þess. Áhrifamikil örlagasaga Margrétar er rakin skilmerkilega í frásögn Evu Hauksdóttur og má lesa hér.

Könnun „næsta ófær“

Í svari sem Margrét fékk nýlega frá forsætisráðuneytinu við erindi sínu kemur fram að illfært er talið að rannsaka starfsemi einkaheimila þar sem börn hafa verið vistuð. Vistheimilanefnd réðist á sínum tíma í rannsókn á starfsemi Breiðavíkurheimilisins og fleiri ríkisrekinna fósturheimila en rannsakaði ekki starfsemi einkarekinna heimilia. Í bréfinu til Margrétar, sem hún birtir á Facebook-síðu sinni, segir (leturbreyting neðst DV):

„Hingað til hafa mörkin verið dregin milli stofnana sem reknar voru á ábyrgð hins opinbera og einkaheimila. Annars vegar er um að ræða stofnanir sem reknar voru af hinu opinbera eða samkvæmt leyfi hins opinbera, þar var ráðið starfsfólk, skráðar dagbækur og sjúkraskrár o.þ.h. Hins vegar er um að ræða einkaheimili, þar var ekki opinber rekstur, ekkert starfsfólk, þetta voru heimili einstaklinga, engin skráning fór fram frá degi til dags, t.d. í dagbækur eða sjúkraskrá. Ekki var skylda til skjalavistunar eða skil til Þjóðskjalasafns. Skilin á milli barna sem ráðstafað var inn á sveitaheimili fyrir milligöngu barnaverndarnefnda og þeirra sem voru þar án þess að barnaverndaryfirvöld kæmu nærri voru ekki alltaf skýr og upplýsingar um það liggja ekki alltaf fyrir. Um er að ræða atburði sem áttu sér stað fyrir áratugum og fáir til frásagnar enda margir sem í hlut áttu látnir. Vegna þessa er talið hætt við að könnun á vistun barna á einkaheimilum sé næsta ófær.“

Ráðuneytið telur þó að mikilvægt að frekari umræða um vistun barna á einkaheimilum eigi sér stað:

„Þess má geta að við meðferð frumvarps til breytinga á lögum um sanngirnisbætur síðastliðið haust fjallaði allsherjar- og menntamálanefnd um vistun barna á einkaheimilum á sömu nótum og að framan greinir. Þar segir: Nefndin telur þó mikilvægt að frekari umræða eigi sér stað um vistun barna á einkaheimilum og hvort og þá hvernig væri hægt að afmarka þessi tilvik, þá sérstaklega þar sem skilin milli barna sem ráðstafað var inn á einkaheimili fyrir milligöngu barnaverndarnefnda og þeirra sem voru þar án þess að barnaverndaryfirvöld kæmu nærri voru ef til vill ekki alltaf skýr. Auk þess liggja upplýsingar ekki alltaf fyrir, meðal annars þar sem einkaheimilum var ekki skylt að skrá upplýsingar eða vista skjöl og skila þeim til Þjóðskjalasafns Íslands.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bandaríkjastjórn íhugar að senda sérsveitarmenn til Úkraínu

Bandaríkjastjórn íhugar að senda sérsveitarmenn til Úkraínu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Forsetinn vildi ekki hitta Gunnar vegna sómölsku kvennanna sem á að vísa úr landi

Forsetinn vildi ekki hitta Gunnar vegna sómölsku kvennanna sem á að vísa úr landi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ákærður fyrir að reyna að koma fölsuðum peningaseðlum í umferð

Ákærður fyrir að reyna að koma fölsuðum peningaseðlum í umferð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þunguð kona sleppur við brottvísun að sinni

Þunguð kona sleppur við brottvísun að sinni