Rósinkrans Már Konráðsson, sem leitað hefur verið að undanfarna tíu daga, fannst látinn í sjónum í Köpingsvik, í Kalmarsundi, rétt fyrir hádegi í dag. Sænski fréttamiðilinn Ölandsbladet greinir frá.
Rósinkrans féll af sæþotu í Kalmarssundi, undan strönd Borgholm í Öland í Svíþjóð þann 25. september síðastliðinn. Lík hans fannst loks skammt frá þeim stað þar sem slysið átti sér stað. Það voru kafarar, sem voru við æfingar á svæðinu, sem að fundu Íslendinginn fyrir tilviljun. Hann lætur eftir sig unnustu og þrjá syni.
Sjónarvottur tilkynnti um að hafa séð mann falla af sæþotunni, rúma tvö hundruð metra frá landi.
Eins og DV hefur fjallað um héldu vinir Rósinkrans utan til að leita að honum. Um tíma voru 15 manns við leitina, aðallega ættingjar og vinir, en sænsk yfirvöld sýndu leitinni lítinn áhuga.