Allir neituðu sök í umfangsmiklu svikamáli Eggerts Skúla Jóhannessonar og meintra vitorðsmanna hans sjö, en málið var þingfest í dag í Héraðsdómi Reykjaness. Sökum fjölda sakborninga og þess að sjö lögmenn koma að málinu var þétt setið í dómssal, jafnvel þó ekki hafi allir sakborningar verið viðstaddir.
DV sagði frá ákæru Héraðssaksóknara á hendur áttmenningunum í júlí síðastliðnum. Kom þar fram að ákæran væri í sjö liðum og heilar nítján blaðsíður, en afar fátítt er að ákærur teygi svo úr sér.
Þau sem ákærð eru, til viðbótar við þá Eggert Skúla og Jóhannes Gísla, son Eggerts, eru Hörður Alexander Eggertsson, yngri sonur Eggerts, Halla Árnadóttir, móðir Eggerts, Friðfinnur V. Hreinsson, Guðlaugur Hermannsson, Gunnar Bender og Jóhann Ósland Jósefsson. Er það rakið í ákærunni að allt þetta fólk tengdist Eggerti ýmist fjölskyldu-, vina- eða viðskiptaböndum.
Falsaðir samningar og launaseðlar
Samkvæmt ákærunni eru áttmenningarnir ákærðir fyrir að hafa starfrækt umfangsmikla svikamyllu og haft milljónir af Ábyrgðarsjóði launa með því að skila inn fölsuðum og tilhæfulausum gögnum um töpuð laun vegna gjaldþrota. Gjaldþrota félögin áttu það öll sameiginlegt að vera tengd með einum eða öðrum hætti við Eggert.
Aðferðin sem áttmenningarnir notuðu við svikin, samkvæmt ákærunni, virðist alltaf hafa verið það sama. Við gjaldþrot félags voru launasamningar og launaseðlar falsaðir aftur í tímann og framvísað til Ábyrgðarsjóðs launa sem ábyrgist launagreiðslur hjá gjaldþrota félögum. Fyrsta tilfellið sem ákært er fyrir er síðan 2012 og það síðasta árið 2015.
Mamman virtist illa áttuð
Tekið skal fram að fyrrnefndur Gunnar Bender er ákærður fyrir tilraun til fjársvika, en krafa hans um greiðslu úr Ábyrgðarsjóði launa var hafnað, og virðast Eggert og félagar hafa látið af háttsemi sinni í kjölfar þeirrar höfnunar. Fljótlega eftir það hófst rannsókn á málinu sem stóð yfir í að minnsta kosti þrjú ár áður en ákæra var gefin út fyrr á þessu ári.
Halla, móðir Eggerts, sem einnig er ákærð í málinu þurfti aðstoð sökum aldurs að komast inn í dómsal og vitnastúku. Var hún leidd þangað af lögmanni sínum. Þegar hún var spurð af dómara hvort hún skildi að hún væri sökuð um glæp og hvort hún vildi taka afstöðu til ákærunnar, sagðist hún ekki skilja hvað væri í gangi og þurfti lögmaður að stíga inní. Neitaði lögmaður þá sök fyrir hennar hönd. Að því loknu leiddi lögmaður konuna út úr dómsal og konan bersýnilega ómeðvituð um ástæður þess að hún var í dómsal. Herma heimildir DV að ákæran gegn henni verði látin falla niður.