fbpx
Sunnudagur 16.júní 2024
Fréttir

Félag Kickstarter-bróður úrskurðað gjaldþrota

Björn Þorfinnsson
Miðvikudaginn 26. maí 2021 17:00

Ágúst Arnar Ágústsson. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Félagið, RH16 ehf., sem skráð er í 100% eigu Ágústar Arnars Ágústssonar, var úrskurðað gjaldþrota þann 14. maí síðastliðinn í Héraðsdómi Reykjaness. Þetta kemur fram í tilkynningu í Lögbirtingablaðinu.

Félagið hét áður Janulus ehf. og var utan um þróunarverkefni Ágústar og bróður hans Einars Ágústssonar um handhæga ferðavindtúrbínu sem gat framleitt rafmagn.

Bræðurnir hófu söfnun á Kickstarter árið 2014 sem gekk afar vel og var ætlunin að senda vöruna til þeirra sem styrktu framleiðsluna árið 2015. Það dróst þó á langinn og að endingu settu bræðurnir af stað aðra hópsöfnun fyrir mun stærri vindtúrbínu. Þegar háar fjárhæðir höfðu safnast ákvað Kickstarter-hópfjármögnunarsíðan að loka á söfnunina sem vakti mikla athygli hérlendis.

Þá var greint frá því að félagið hefði fengið um eina og hálfa milljón í styrk frá Tækniþróunarsjóði til þess að þróa handhæga sólarsellu.

Í viðtali við Vísi árið 2017 fullyrti Ágúst Arnar að þeir bræður hefðu náð að klára þróun og framleiðslu á vindtúrbínunni, með breyttu sniði, sem að send hefði verið til styrktaraðila.

„Það er eftirspurn eftir svona græju, það er á hreinu. Ég er búinn að sanna að það sé hægt að búa þetta til, nú er bara mitt að sanna að það sé markaður fyrir þetta. Það er næsta skref,“ sagði Arnar við það tækifæri.

Þær áætlanir virðast ekki hafa gengið upp. Í síðasta ársreikningi áðurnefnds félags  árið 2018 kemur fram að rekstrartekjur hafi aðeins verið um 3,3 milljónir króna og skilaði félagið örlitlu tapi. Einu skuldir þess hljóðuðu upp á 4,5 milljónir króna og voru við tengda aðila.

Bræðurnir Ágúst Arnar og Einar hafa staðið í ströngu undanfarin ár í sambandi við starfsemi félagsins Zuism trúfélag. Í lok árs 2020 voru bræðurnir ákærðir af héraðssaksóknara fyrir fjársvik og peningaþvætti í tengslum við reksturinn. Var þeim gefið að sök að hafa svikið um 85 milljónir króna úr ríkissjóði í gegnum félagið.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Guðni leiðir sögugöngu um Þingvelli

Guðni leiðir sögugöngu um Þingvelli
Fréttir
Í gær

Líneik vill stöðva „gervinetsölu“ á áfengi

Líneik vill stöðva „gervinetsölu“ á áfengi