fbpx
Þriðjudagur 14.júlí 2020
Fréttir

Kári reiður út í Svandísi: „Afskaplega hrokafull eins og lítil tíu ára stelpa“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 27. maí 2020 20:05

Kári Stefánsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, varð öskureiður þegar hann horfði á Kastljós gærkvöldsins þar sem rætt var við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um væntanlega fjöldaskimun á ferðamönnum á Keflavíkurflugvelli fyrir kórónuveirunni eftir 15. júní, en þar sagði Svandís að Íslensk erfðagreining myndi taka þátt í skimuninni og tryggja nægileg afköst.

Í viðtali við Kastljós í kvöld kemur fram að Kára gremst að ekki hafi verið leitað til Íslenskrar erfðagreiningar vegna verkefnisins. En þó fyllyrðir heilbrigðisráðherra um þátttöku fyrirtækisins í verkefninu í sjónvarpsviðtali.

„Hún vildi ekki lúta svo lágt að biðja okkur um aðstoð,“ sagði Kári og bætti svo við:

„Svandís er feikilega góður heilbrigðisráðherra, dugleg og góður baráttumaður fyrir sínum málaflokki. En af og til verður hún afskaplega hrokafull eins og lítil tíu ára stelpa.“

Í máli Kára kom fram að 80% af þeim skimunum fyrir veirunni sem gerðar hafa verið hér á landi hafi ÍE annast. „Við unnum þetta á okkar forsendum, við einfaldlega treystum ekki þessu fólki,“ sagði Kári og mátti því af tali hans skilja að verkefnið færi í hnút. „Þetta er alvarlegt verkefni. Það hefur enginn beðið mig um að gera þetta,“ sagði Kári enn fremur.

Spyrill benti honum á að þessi skimun myndi ekki eiga sér stað án þátttöku Íslenskrar erfðagreiningar og verkefnið væri gífurlega mikilvægt fyrir efnahag þjóðarinnar. Þá svaraði Kári:

„Núna ertu að setja á mig mikinn þrýsting, gamlan manninn.“

Á síðasta blaðamannfundi Almannavarnanefndar vegna kórónuveirufaraldursins þakkaði Svandís Svavarsdóttir þríeykinu marglofaða sérstaklega fyrir sitt framlag en minntist ekki á Íslenska erfðagreiningu í ræðunni. Mátti af tali Kára í Kastljósi í kvöld skilja að honum hefði gramist þetta mjög.

Kári sagði að ÍE hefði boðist til að veita ráðgjöf vegna og lána tæki til skimunarinnar á Keflavíkurflugvelli, en: „Það var ekki leitað til okkar. Það ráðfærði sig enginn við okkur.“

Blokkeraði Þórólf sóttvarnalækni

Óhætt er að segja að viðtalið hafi verið óhefðbundið. Spyrillinn, Einar Þorsteinsson, sagði við Kára: „Þú ert rosalega ruglaður, Kári!“

Kári sagði að framkoma Svandísar væri dónaskapur við allt það góða starfsfólk ÍE í Vatnsmýrinni sem hefði lagt svo mikið á sig við að skima fyrir veirunni.

Kári dró síðan í land og sagði að ef Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hringdi í sig þá myndi hann hugsanlega slá til: „Hann er bæði svo skemmtilegur og sjarmernandi að ég hugsa að ég eigi þá erfitt með að segja nei.“

Þegar Einar spurði hvort þetta væri þá ekki klappað og klárt ef Þórólfur hringdi í hann þá sagði Kári að því miður væri hann búinn að blokkera númer Þórólfs í símanum sínum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Héraðssaksóknari leitar að manni sem sagður er hafa ráðist á lögreglumenn

Héraðssaksóknari leitar að manni sem sagður er hafa ráðist á lögreglumenn
Fréttir
Í gær

Mótmæla lokun og segja rök Áslaugar ekki halda vatni

Mótmæla lokun og segja rök Áslaugar ekki halda vatni