fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Tjaldferðalag unglinga breyttist í martröð á Selfossi – „Þau voru grátandi inni í tjaldi, umkringd þessu ógeði“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 24. maí 2020 18:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tjaldferðalag sex ungmenna á aldrinum 18-19 ára breyttist í martröð þegar þau urðu fyrir miklu áreiti, ógnunum og hótunum á tjaldsvæði í eigu Gesthúss Selfossi við Engjaveg á Selfossi. Eigandi og rekstraraðili tjaldsvæðisins, Elísabet Jóhannsdóttir, harmar atvikið í samtali við DV og lofar því að verkferlar á tjaldsvæðinu verði endurskoðaðir. Unglingarnir voru mjög óánægðir með viðbrögð starfsmanns á tjaldsvæðinu sem þau segja að virðist ekki hafa gert sér minnstu grein fyrir alvöru málsins og hafi í raun lítið hlustað á kvartanir þeirra.

DV ræddi við eina stúlkuna úr hópnum, en unglingarnir eru allir fæddir árið 2001, fimm stelpur og einn strákur, og segir hún að þau hafi tjaldað við grashól á svæðinu sem liggur í skeifu, nokkuð aflokað frá hinum  hlutum svæðisins þar sem nokkuð hafi verið um tjaldvagna og húsbíla.

„Þeir komu og plöntuðu sér niður tvo metra frá okkur rétt eftir að við komum. Þeir byrjuðu strax að blasta tónlist hátt og drekka áfengi.“

Um var að ræða hóp manna sem virtust á aldursbilinu 20 til 25 ára. Stúlkan segir erfitt að gera sér grein fyrir því hvað þeir voru margir því vinir þeirra virtust koma og fara og er áreitni mannanna jókst um nóttina þorðu ungmennin ekki út úr sínu tjaldi. „Á milli klukkan fjögur og fimm kom hrúga af fólki og þetta voru alveg þrjú tjöld nálægt okkur,“ segir stúlkan.

„Svo komu þeir og fóru að böggast í okkur. Þeir sögðu við vin minn að hann væri svo heppinn að vera einn í tjaldi með öllum þessum stelpum og voru óþægilega uppáþrengjandi. Þegar þeir voru búnir að koma tvisvar til okkar renndum við fyrir tjaldið svo þeir kæmu ekki inn. En það stoppaði þá ekki í að áreita okkur því einn þeir renndi upp tjaldinu og öskraði eitthvað inn í það, fór síðan um og sparkaði í tjaldið. Við vorum mjög stressuð því þeir voru blindfullir og öskrandi beint við hliðina á tjaldinu okkar.“

Mennirnir öskruðu yfirlýsingar um að þeir ætluðu að berja unglingana og höfðu uppi ýmis fúkyrði, meðal annars niðurlægjandi tal um konur og homma.

Segja tjaldsvæðisvörðinn lítið hafa gert

Unglingarnir kvörtuðu þrisvar til starfsmanns á svæðinu, en það eina sem hann gerði, að þeirra sögn, var að fara til ungu mannanna, segja þeim að kvartanir hefðu borist um hávaða og biðja þá um að hafa lægra. Stúlkan segir að maðurinn hafi aldrei gefið henni færi á að útlista áreitið sem þær urðu fyrir, hann hafi alltaf gengið burtu frá henni án þess að hún fengi að ljúka við mál sitt, eins og hann vildi ekki hlusta á hana.

Sjálf treystu unglingarnir sér ekki til að hringja á lögreglu þar sem þau óttuðust þá sviðsmynd að lögreglan kæmi og færi og mennirnir myndu síðan ganga í skrokk á þeim í hefndarskyni.

„Við sváfum varla og héngum lengi við innganginn á tjaldinu því við vorum mjög hrædd um að þeir myndu koma inn. Undir morgun tóku þeir svo tjaldhælana úr tjaldinu okkar og fóru burtu,“ segir stúlkan en ferðin sem átti að standa í nokkra daga og enda í sumarhúsi tók snöggan enda því vansvefta og skelfingu lostnir unglingarnir fóru tjaldhælalausir heim og frestuðu ferðinni.

„Það er ekki næs að vera unglingsstelpa með blindfulla menn í stórum hópi tvo metra frá tjaldinu sínu, að áreita sig alla nóttina, öskra að þeir ætli að lemja okkur og tala niðrandi um konur og homma,“ segir stúlkan sem segist aðeins hafa fengið áreiti og svefnleysi fyrir peningana á þessu tjaldsvæði sem hún telur vera fremur dýrt.

Móðir stúlkunnar hringdi í tjaldsvæðið og náði sambandi við umræddan starfsmann. „Vörðurinn sem ég hringdi í sagði mér að strákarnir hefðu ekki virst svo slæmir og að stelpurnar hefðu bara átt sjálfar að hringja í lögguna ,,fyrst þeim fannst þeir svona hræðilegir”“, segir móðirin og um þetta segir stúlkan: „Þeir VORU hræðilegir og þeir VORU að áreita okkur, þetta var ekki eitthvert tilfinningalegt dæmi heldur bara staðreyndir.“

Stigvaxandi viðbrögð hjá eiganda tjaldsvæðisins

Símtal móðurinnar við tjaldsvæðisvörðinn endaði með því að hann skellti á. Í samtali við DV viðurkennir hún að hún hafi skiljanlega verið reið og æst þegar hún hringdi og það hafi haft áhrif á það hvernig símtalið þróaðist.

„En ég skrifaði síðan tölvupóst til eiganda tjaldsvæðisins þar sem ég reifaði málið nokkuð nákvæmlega og kallaði þau til ábyrgðar, að þau myndu skoða hvernig þau tækju á þessum málum. Svo stakk ég upp á því að tjaldsvæðið myndi bæta þessum krökkum þetta upp. Við þessu barst kurteislegur tölvupóstur þar sem boðin er endurgreiðsla á þessum fimm þúsund kalli sem kostar að tjalda þarna og boðað að verkferlar verði skoðaðir. Ég held að það þurfi opinberari yfirlýsingu en þetta og að þau þurfi að gera eitthvað fyrir þessa krakka,“segir móðirin og bendir á að þetta séu ekki hræðslugjarnir krakkar. „Stelpurnar tvær sem skipulögðu þessa ferð eru með bein í nefinu og kalla ekki allt ömmu sína. Dóttir mín kom heim niðurbrotin eftir nóttina, staðan var bara þannig um tíma að þau voru grátandi inni í tjaldi, umkringd þessu ógeði.“

Móðirin bendir á að verið sé að hvetja landsmenn til að ferðast innanlands í sumar og það sé ekki uppörvandi í því samhengi að vita til þess að ástandið geti verið svona á tjaldsvæðum landsins: „Þetta er ekki einstakur atburður. Hver hefur ekki lent í því að vera á tjaldsvæðum þar sem fólk hagar sér eins og svín og truflar svefnfrið. En þetta sem gerðist þarna er þó á hærra stigi.“

Annað foreldri barns í ferðinni sendi líka tölvupóst á tjaldsvæðið og fékk ívið lengra og afdráttarlausara svar þar sem beðist var afsökunar og enn fremur boðað að verkferlar yrðu skoðaðir vel.

Þegar DV hafði samband við eiganda tjaldsvæðisins, Elísabetu Jóhannsdóttur, viðurkenndi hún einnig að ekki hefði verið rétt staðið að málum:

„Mér finnst afskaplega leitt að ungmenni hafi ekki upplifað sig örugg. Það finnst mér vera aðalatriðið í þessu máli. Við munum setjast niður hérna, allir starfsmenn, og fara yfir alla verkferla og gæta þess í framtíðinni að það verði passað upp á að allir fari að reglum. Hér eiga allir að upplifa sig örugga,“ segir Elísabet sem bendir á að hún hafi átt og rekið tjaldsvæðið vandræðalaust í 15 ár.

Varðandi dræm viðbrögð starfsmannsins þá segir Elísabet að hann hafi einfaldlega komið með allt aðra lýsingu á stöðunni en það sem unglingarnir greini frá. Hún vill hins vegar gæta trúnaðar og ekki deila frásögn hans með DV. Þegar blaðamaður bendir henni á að svo virðist sem á hafi skort að maðurinn hlustaði á það sem unglingarnir höfðu að segja um ástandið þá segir hún að það sé ekki nógu gott og eitthvað sem verði að fara betur yfir.

„Mér finnst við hafa brugðist þessum krökkum og við þurfum að skoða okkar mál. En það má ekki gleyma því að aðalsökin í svona málum er hjá gerendunum. Ef fólk ætlar að fara að taka Gesthús Selfossi af lífi núna eins og mér virðist vera fara að gerast á netinu, eins og umræðan er komin af stað núna, þá gleymast þessir drengir sem höguðu sér vona. Mér finnst oft vanta inn í svona umræðu að láta hana snúast um gerendurna.“

Tjaldsvæðið birtir yfirlýsingu

Málið er komið inn á borð lögreglu á Selfossi og búið er að senda erindi til sýslumanns sem veitir leyfi til reksturs tjaldsvæða. Gesthús Selfossi hefur hins vegar birt yfirlýsingu um málið á Facebook-síðu sinni. Í yfirlýsingunni kemur fram að hópur fimm ungra manna hafi áreitt unglingana en stúlkan sem DV ræddi við telur að mennirnir hafi verið fleiri. Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Yfirlýsing frá Gesthúsum Selfossi vegna áreitis sem átti sér stað á tjaldsvæði Gesthúsa við Engjaveg á selfossi þann 22.maí 2020

Starfsmenn Gesthúsa harma það atvik sem átti sér stað aðfaranótt laugardags síðastliðinn þegar fimm manna hópur ungra manna áreitti hóp ungmenna á tjaldsvæði Gesthúsa.

Öryggi gesta á tjaldsvæði Gesthúsa hefur ávalt verið í hávegum haft og er það meðal annars ástæða fyrir því að á staðnum er sólarhrings vakt á sumrin svo gestir geti náð í starfsmann á svæðinu þegar eitthvað kemur upp á.

Þegar starfsmaður okkar fór til drengjanna að ræða við þá vegna kvartana sem höfðu borist, þá voru þeir afar kurteisir og náðu að fela raunverulega hegðun sína fyrir honum.

Þegar litið er til baka og við heyrum upplifun þessa hóps sem sem dvaldi hjá okkur þá sjáum við mæta vel að ekki var brugðist rétt við.

Ofbeldishótanir eru óboðlegar með öllu móti og hefði verið réttast að fá lögregluaðstoð þá og þegar.

Það er því miður raunin að það koma fyrir uppákomur þar sem við bregðumst ekki nægilega vel við og notum við þau atvik til þess að læra af þeim og bæta þá þjónustu sem boðin er upp á hér á tjaldsvæðinu.

Við viljum biðja hópinn sem varð fyrir aðkasti á tjaldsvæðinu innilegrar afsökunar og bjóðum fulla endurgreiðslu

Að lokum þá viljum við hvetja alla til að standa saman gegn ofbeldi og ekki vera smeyk við að fá lögregluaðstoð þegar ofbeldi er annarsvegar.

Fyrir hönd Gesthúsa
Elísabet Jóhannsdóttir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar