fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Sakar Þríþrautarsambandið um mismunun og einelti: „Þetta er eitthvað sem á ekki að líðast“

Auður Ösp
Sunnudaginn 22. mars 2020 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þessi framkoma er einfaldlega siðlaus. Sumt af því sem forsvarsmenn sambandsins hafa fullyrt við mig er hreinlega ósatt,“ segir Amanda Marie Ágústsdóttir, þríþrautarkona og einkaþjálfari, en hún hefur höfðað mál gegn Þríþrautarsambandi Íslands og sakar stjórn félagsins um einelti og mismunun. Sambandið synjaði á seinasta ári beiðni hennar um að keppa á vegum þess í svokallaðri elite-þríþrautarkeppni sem fram átti að fara fram í Kirgistan. Rökin voru þau að Amanda hefði ekki náð meintum lágmarkstímum í íþróttinni.

Amanda telur hins vegar að Þríþrautarsambandið hafi á sama tíma ekki gert sömu kröfur til annars íþróttafólks. Þá bendir hún á að umræddir lágmarkstímar séu ruglingslegir, framsetning þeirra óljós og framkvæmd þeirra einnig óljós. Í stefnu kemur fram að ósannað sé að öðrum en henni hafi verið synjað um þátttöku í elite-keppninni á grundvelli þess að viðkomandi hafi ekki náð lágmarkstímum. Ekki liggur annað fyrir en að Amanda sé sú eina sem Þríþrautarsambandið  hefur útilokað frá sambærilegu móti með þessum hætti.

Amanda hefur farið fram á að Þríþrautarsambandið greiði henni 1,5 milljónir í skaðabætur, auk málskostnaðar. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 12.mars síðastliðinn.

Kom henni í opna skjöldu

Amanda er bandarísk í aðra ættina en hún hefur verið búsett hér á landi í 10 ár. Undanfarin ár hefur hún tekið þátt í og náð góðum árangri í þríþrautarkeppnum bæði hér heima og erlendis. Til að mynda árið 2017, þegar hún var í 27. sæti af 91 keppanda í þríþrautarkeppni í Rotterdam í Hollandi. Þá er hún afrekskona í sundi og Íslandsmethafi í 800 metra skriðsundi kvenna 25–29 ára í 25 metra laug. Þá lenti hún í 3. sæti í stigakeppni Þríþrautarsambandsins í þríþraut árið 2017.

Í apríl síðastliðnum sótti Amanda um það hjá Þríþrautarsambandinu að fá að keppa á vegum þess í svokallaðri elite-þríþrautarkeppni sem fram átti að fara í bænum Cholpon-Ata í Kirgistan dagana 29. til 30. júní 2019, en þátttaka íþróttamanna í keppni sem þessari er háð því að þeir séu skráðir í hana af hálfu síns þríþrautarsambands. Amanda segist hafa litið á keppnina sem kjörið tækifæri fyrir hana til að keppa á alþjóðavettvangi og öðlast dýrmæta reynslu, þó svo að um væri að ræða keppni sem sé smá í sniðum samanborið við elite-þríþrautarkeppnir.

Í stefnu sem birt hefur verið Þríþrautarsambandinu, og DV hefur undir höndum, kemur fram að eftir að Amanda sóttist eftir þátttöku í keppninni hafi gjaldkeri Þríþrautarsambandsins verið í tölvupóstsamskiptum við þjálfara hennar og í kjölfarið lagði þjálfarinn fram rökstuðning fyrir þátttöku Amöndu í keppninni. Það hafi hins vegar komið í ljós seinna meir að á þessum tíma hefðu ekki allir stjórnarmenn Þríþrautarsambandsins fengið jafnan aðgang að þessum tölvupóstsamskiptum gjaldkerans og þjálfarans. Þær upplýsingar sem komið var á framfæri við gjaldkerann höfðu þar af leiðandi ekki verið kynntar öllum stjórnarmönnum.

Þann 14. maí síðastliðinn fékk Amanda tilkynningu um að Þríþrautarsambandið gæti ekki skráð hana í keppnina, en rökin voru þau að ekki hefði verið sýnt fram á að Amanda hefði náð meintum lágmarkstímum í íþróttinni.

Í stefnunni kemur fram að þessi ákvörðun hafi komið henni í opna skjöldu þar sem hún vissi sem var að ekki væru gerðar sömu kröfur um lágmarkstíma til annarra íslenskra íþróttamanna sem Þríþrautarsambandið skráir til leiks í sambærilegar elite-keppnir. Þá hafði sambandið áður skráð hana í aðrar slíkar keppnir án þess að vísa neitt til lágmarkstíma.

Þríþrautarsamband Íslands (ÞRÍ)  fer með yfirstjórn íslenskra þríþrautarmála, er æðsti aðili í slíkum málum á Íslandi og aðili að Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ). Amanda kærði ákvörðun Þríþrautarsambandsins til dómstóls ÍSÍ og gerði þá kröfu að höfnunin yrði felld úr gildi og Þríþrautarsambandinu gert að skrá hana í keppnina.

Í greinargerð frá Þríþrautarsambandinu fyrir dómstól ÍSÍ er tekið fram að Amanda hafi þegar tjáð sig um málið á opinberum vettvangi og lýst einelti og ofbeldi í hennar garð.

„Kærandi getur því vart talist uppfylla tilvísaða reglu 2.5 a) í ITU-reglunum. Í því ljósi er enn langsóttara að kærandi fái frekari undanþágur frá afreksstefnu kærða, til viðbótar þeim sem hún hefur þegar fengið.“

Í stefnunni segir að skrifleg greinargerð hafi borist dómstól ÍSÍ þann 13. júní síðastliðinn og samkvæmt lögum ÍSÍ hefði dómur átt að vera kveðinn upp í síðasta lagi viku síðar, eða þann 20. júní. Málsmeðferð dómstólsins dróst hins vegar á langinn og úrskurðaði hann ekki í málinu fyrr en 3. júlí 2019. Þá var keppnin í Kirgistan hins vegar yfirstaðin og málið því ónýtt fyrir Amöndu. Kröfu hennar var því vísað frá, á þeim grundvelli að skráningarfrestur í keppnina væri runninn út, og keppnin sjálf raunar einnig yfirstaðin, og hún því ekki talin hafa lögvarða hagsmuni lengur af kröfunni. Í kjölfarið skaut Amanda málinu til áfrýjunardómstóls ÍSÍ sem vísaði kröfu hennar frá dómi vegna meintra formannmarka. Þar af leiðandi fékkst aldrei efnisleg úrlausn í deilunni.

Amanda Marie Ágústsdóttir.

 Telur sig hafa sætt mismunun

„Ég var virkilega vongóð um að það yrði brugðist við þegar ég fór lengra með málið. Það á ekki að umbera mismunun af þessu tagi,“ segir Amanda í samtali við DV. Það kom mér því gjörsamlega í opna skjöldu þegar málinu var klúðrað á þennan hátt af hálfu dómstólsins.“

Amanda spyr jafnframt hver sé eiginlega tilgangurinn með því að hafa dómstól þegar þetta séu vinnubrögðin.

„Hvernig stendur á því að ég neyðist til að höfða einkamál á hendur Þríþrautarsambandinu, þegar það er til staðar dómstóll sem á að leysa úr málum eins og þessum? Ef þau fá að komast upp með þetta þá mun það gera þeim kleift að halda uppteknum hætti.“

Líkt og fyrr segir bendir Amanda á að Þríþrautarsambandið hafi ekki  gert þær kröfur til annars íþróttafólks að það standist þessa umræddu lágmarkstíma.

Nefnir hún sem dæmi að einum hafi verið leyft að keppa í sambærilegum eða stærri keppnum án þess að hann hafi náð téðum lágmarkstímum. Sá keppti í Ironman 70.3 keppnum (í. járnkarl) sem atvinnumaður án þess að hann hefði náð lágmarkstímunum, án þess að hann hefði keppt í slíkum keppnum sem áhugamaður og án þess að hann hefði verið með skráð hálft maraþon hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands en hlaupaleggurinn í Ironman 70.3 keppni er einmitt hálft maraþon.

Þá segist Amanda vita til þess að annar íþróttamaður hafi verið skráður til sambærilegrar eða stærri keppni, án þess að hafa náð lágmarkstímunum. Sá hafi tekið þátt  2019 Quarteira ETU Triathlon Junior European Cup í Portúgal þann 28. apríl 2019 án þess að hafa náð lágmarkstímunum.

Segir viðmið úr takti við raunveruleikann

Umrædd tímaskilyrði sem Þríþrautarsambandið bar fyrir sig í málinu eru frá árinu 2017 og að danskri fyrirmynd. Þar segir:

„Til að keppa í ETU/ITU keppnum í meistarflokki (elite) þarf einstaklingur að standast eftirfarandi lágmarkstíma í sundi og hlaupi:

Hlaup karlar: 5 og 10km: 16:00 og 32:50 og 33:15 sem lágmark.

Hlaup konur: 5 og 10km: 18:40 og 38:10 og 39:30 sem lágmark

Sund karlar: 800m/1500m sundlaug: 9:20 og 17:50 og 18:30 sem lágmark.

Sund konur: 800m/1500m sundlaug: 9:50 og 18:30 og 19:40 sem lágmark.

Dæmi:

Karl hleypur 10km á 33:00 og þarf þá að synda á 17:40.

Kona sem hleypur 10km á 37:00 má vera 19:40 að synda 1500m.“

Í stefnunni segir að þessir lágmarkstímar séu  „ómálefnalegir og úr takti við raunveruleikann.“ Það megi til dæmis sjá af því að aðeins 13 konum í Íslandssögunni hefur tekist að hlaupa 5 kílómetra götuhlaup á undir 19 mínútum og 10 sekúndum, sem er sá lágmarkstími er tilgreindur sem B-lágmark fyrir konur til að keppa í elite-keppnum.

Í stefnunni eru einnig lögð fram úrslit í kvennaflokki í keppninni í Kirgistan sem Amöndu var meinað að taka þátt í. Hluti af keppninni var 5 kílómetra hlaup og eins og sést á úrslitunum þá hljóp engin kvennanna 5 kílómetra á undir 18 mínútum 40 sekúndum eða undir 19 mínútum og 10 sekúndum sem eru þau viðmið sem Þríþrautarsambandið vísaði til.

Þess ber að geta að hjá danska þríþrautarsambandinu eiga framangreindir lágmarkstímar aðeins við þá sem vilja keppa í afmörkuðum landsliðsverkefnum eins og World Triathlon Series, en þeir eiga ekki við um einstaklinga sem vilja keppa í smærri elite-keppnum.

Amanda tekur fram að keppnishaldarar í þessum mótum setji engin tímaviðmið til að keppa í þeim sjálfir. „Ef ég væri skráð þá fengi ég að keppa. Þau virðast ekki hafa neina ástæðu til að setja þessi tímavið „basically“, og velja svo hverjir geta farið án þeirra.“

Kvíðin og döpur

Amanda gagrýnir að henni hafi heldur aldrei verið gefið tækifæri til að sýna fram á hún gæti náð þessum umræddu lágmarkstímum. Það hefði verið auðvelt að gera með því að fara á hlaupabraut eða í sund og mæla hvort hún næði þessum tímamörkum.

Hún segir málið hafa haft afar neikvæð áhrif á hennar daglega líf og andlega heilsu, hún hafi upplifað kvíða og depurð og sótt sálfræðimeðferð til að takast á við líðan sína. Sálfræðingur hennar hefur vottað að Amanda hafi upplifað kvíða og depurð vegna málsins og þá kemur fram í vottorði að einkenni og líðan hennar sé í samræmi við rannsóknir á áhrifum eineltis.

„Koma skal fram af heilindum og háttvísi“

 Í lögum ÍSÍ kemur meðal annars fram að tilgangur sambandsins sé „að berjast gegn hvers kyns mismunun í íþróttum.“

Þá segir í Ólympíusáttmálanum að „þátttaka í íþróttum sé grundvallar mannréttindi og að sérhver einstaklingur skuli hafa möguleika á að iðka íþrótt, án mismununar af neinu tagi.“ Í sjöttu grein sáttmálans er einnig lagt bann við mismunun í íþróttum af neinu tagi.

Þá segir í 4. grein siðareglna ÍSÍ að gæta eigi jafnræðis og í 1. grein segir að „koma skuli fram af heilindum og háttvísi“.

Þá segir í 1. grein hegðunarviðmiða ÍSÍ fyrir stjórnarmenn og starfsfólk íþróttafélaga og sérsambanda:

„Komdu eins fram við alla óháð aldri, kyni, kynþætti, kynhneigð, fötlun, stjórnmálaskoðunum, uppruna, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu.“

Hægt að gera mun betur

„Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess að ég tel að þetta séu grundvallarmistök af hálfu Þríþrautarsambandsins: sumir fá að keppa án þess að mæta tímamörkum en aðrir ekki. Þetta er eitthvað sem á ekki að líðast. Punktur. Fyrir mér þá snýst þetta ekki eingöngu um að mér hafi verið meinað að keppa. Það er ekki hvatinn á bak við þetta, heldur snýst þetta um brot á ákveðnum grundvallaratriðum,“ segir Amanda. „Ætli ég sé ekki að reyna að halda í þá von að það sé hægt að knýja fram breytingar með því að varpa ljósi á málin og opna augu sem flestra? Ég held að íþróttasamfélagið geti gert mun betur en þetta.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans