Gunnar Þorsteinn Halldórsson íslenskufræðingur er látinn eftir baráttu við krabbamein, sextugur að aldri. Hann fæddist 9. apríl 1960. Gunnar var stundum kenndur við hið sögufræga hús Sjólyst á Fáskrúðsfirði, sem hann keypti og gerði upp. Hann stundaði einnig kennslu þar. Í Reykjavík starfaði Gunnar meðal annars við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu, var leiðgsögumaður og rak gistiheimili í miðbæ Reykjavíkur. Hann var kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og við Grunnskólann á Fáskrúðsfirði.
Meðal þeirra sem minnast Gunnars er Albert Eiríksson. Í hugljúfum minningarorðum sínum segir hann:
„Draumur Gunnars var að sitja við opinn glugga í Sjólyst í ellinni, semja ljóð og skáldsögur, anda að sér sjávarilminum og hlusta á fagran fuglasöng í bland við öldugjálfrið. Það hefði farið honum vel. Blessuð sé minning Gunnars í Sjólyst.“
Í grein Alberts kemur fram að Gunnar var harðduglegur en hann gerði upp íbúðir á sumrin sem hann leigði út. Hann hafði hins vegar vetursetu í París og stundaði um tíma íslenskukennslu í Sorbonne.
Útför Gunnars verður frá Dómkirkjunni í dag kl. 13. Streymt verður frá útförinni. Sjá spilara að neðan.