fbpx
Fimmtudagur 26.nóvember 2020
Fréttir

DV birtir kosningaspá sína í bandarísku kosningunum – Spennandi kosninganótt framundan

Heimir Hannesson
Laugardaginn 31. október 2020 17:00

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kosið verður í bandarísku forsetakosningunum á þriðjudaginn. Óhætt er að segja að gríðarleg spenna sé fyrir kosningunum. Kosningabaráttan er án nokkurs vafa sú allra litríkasta sem háð hefur verið og mörg met slegin. DV leit yfir farinn veg og spáir fyrir úrslitum í kosningunum næsta þriðjudag.

Kosningabaráttan

Þar sem Trump er sitjandi forseti var lítill gaumur gefinn að forkosningum Repúblikana. Þó voru kjaftasögur uppi um að hann fengi mótframboð í lok árs 2019, en ekkert varð af þeim framboðum. Sigldi Trump því örugglega í höfn og var formlega útnefndur forsetaframbjóðandi flokksins í lok ágúst, líkt og hefð er fyrir.

Leið Bidens að útnefningu var talsvert lengri. Samtals buðu sjö sig fram í flokknum, allt verðugir frambjóðendur. Þau voru Bernie Sanders, Elizabeth Warren, Michael Bloomberg, Pete Buttigieg, Amy Klobuchar og Tulsi Gabbard. Biden tók um 52% af kjörmönnum undir lokin. Næstur á eftir honum var Sanders með um 27%. Honum stafaði því aldrei hætta af mótframbjóðendum sínum og sigldi frekar átakalaust í gegnum forkosningarnar. Hafa sumir nefnt að forkosningarnar í Demókrataflokknum hafi verið nokkuð vægar, sem hafi jafnvel bitnað á Biden síðar meir. Ef slagurinn hefði verið harðari hefði Biden fengið tækifæri til þess að svara fyrir ætluð hneykslismál í „öruggara“ umhverfi og afgreiða málin áður en Trump gæti nýtt sér þau með sínum hætti.

Leðjubornar kappræður

Þar sem lengi var ljóst að Biden og Trump yrðu útnefndir hefur baráttan að mestu leyti verið þeirra á milli, og ekki alltaf snúist um málefnin. Raunar má segja að málefnin hafi verið algjört aukaatriði í þessari kosningabaráttu.

Kappræðurnar snérust að lang mestu leyti um COVID-19 faraldurinn og persónulegar árásir manna á milli. Það sýndi sig best í fyrri kappræðunum sem urðu að pólitískum leðjuslag og málefnin komust hvergi að. Öðrum kappræðum var svo aflýst eftir að Donald Trump sjálfur greindist með COVID og neitaði að taka þátt í kappræðum í gegnum fjarfundabúnað. Í þriðju kappræðunum var svo brugðið á það ráð að loka á hljóðnema frambjóðendanna, til að hindra aðra uppákomu eins og í þeim fyrstu.

Það sem fylgdi voru svo endurteknar árásir frambjóðenda á mótframbjóðendur sína. Rauði þráðurinn í kosningabaráttu Trumps var að Biden væri gamall, farinn að sýna einkenni öldrunar og of langt til vinstri. Á meðan segir Biden að Trump sé hættulegur Bandaríkjunum, rússnesk yfirvöld hafi hann í vasanum og að hann hafi sýnt af sér vítavert viðbragðsleysi við COVID-faraldrinum og kostað þannig fleiri mannslíf en hafi þurft.

Skoðanakannanir viku fyrir kosningar

Biden leiðir svo til allar markverðar skoðanakannanir á landsvísu. Eins og Hillary Clinton og Al Gore sönnuðu, þá er það ekki nóg. Þó er þess virði að nefna að forysta Bidens er nánast fjórum sinnum meiri en forysta Clinton yfir Trump árið 2016. Þá hefur Trump aldrei mælst hærri en Biden í kosningabaráttunni.

Eins og DV hefur áður bent á eru bandarískar forsetakosningar ekki ein kosning heldur aðskildar kosningar á 51 stað. Í langflestum þeirra eru niðurstöðurnar fyrirfram gefnar. Í öðrum, svokölluðum „sveifluríkjum“, [e. swing state) eru úrslitin tvísýnni og niðurstöður skoðanakannana tvíræðari. Þannig leiddi Hillary til að mynda í Michigan og Wisconsin viku fyrir kjördag 2016, en tapaði báðum ríkjum í kosningunum.

Þá má einnig nefna að þó möguleiki sé á að tapa kosningunum með meirihluta atkvæða, þá verður sú niðurstaða ólíklegri eftir því sem meirihluti atkvæða eykst. Hillary hlaut 48,2% atkvæða og Trump 46,1%, munurinn var því 2,1%. Munurinn sem nú mælist á milli Bidens og Trumps er nær 8%. Stærðfræðilegar líkur á dreifingu atkvæða þannig að meirihluti kjörmanna næðist ekki með 8% forskot á landsvísu, eru svo til engar.

Skoðanakannanirnar sjálfar má svo túlka á marga vegu og er hver með sína skoðun á því máli. Þeir sem halda vilja í von um að Donald Trump beri sigur úr býtum, þrátt fyrir mótlæti í skoðanakönnunum, hafa bent á skekkjurnar í skoðanakönnununum 2016 og sagt þær vera að endurtaka sig. Um þær fjallaði DV ítarlega í síðasta blaði. Þá hafa þeir bent á að pólitíska andrúmsloftið í Bandaríkjunum verði til þess að færri séu tilbúnir til að viðurkenna stuðning við Trump. Þannig séu þeir ólíklegri til að svara spyrlum þegar þeir hringja eða banka á dyr. Þeir sömu benda einnig á að kjósendur Trumps séu ólíklegri til að vera hafðir með í úrtaki spyrla, en allt eins líklegir til að mæta á kjörstað. Hvað sem þessu líður verður ekki litið fram hjá því að úrslit kosninganna 2016 voru ekki langt frá skoðanakönnunum á landsvísu, en atkvæðadreifing réð því að Trump sigraði í lykilríkjum. Bæði hafa skoðanakönnuðir og spyrlar lært sína lexíu frá því fyrir fjórum árum, og munurinn er, sem fyrr sagði, svo miklu meiri nú.

Kosningarnar og spá DV

Kosið verður 3. nóvember í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Þar sem ríkin eru ekki öll á sama tímabelti verða kjörstaðir fyrst opnaðir á austurströnd Bandaríkjanna, frá Maine í norðri til Flórída í suðri. Þeim kjörstöðum verður jafnframt lokað fyrst, sem er hentugt fyrir áhugasama Íslendinga því það þýðir að tölur munu fljótt taka að berast frá Pennsylvaníu og Flórída. Flórída verður lykilríki fyrir Trump og er áhugasömum bent á að fylgjast vel með Flórída á kosninganótt. Ef fyrstu tölur þaðan eru Biden hliðhollar má segja að úrslitin séu ráðin. Trump á ekki neina von á sigri öðruvísi en með kjörmönnum þaðan. Pennsylvanía er jafn mikilvæg fyrir Trump, en þó er möguleiki á sigri, án þess að sigra þar.

Trump mældist viku fyrir kjördag með 0,8% forskot, en sigraði þá með 1,2%. Nú mælist Biden með 1,8% forskot. Sömu sögu er að segja þvert á öll „sveifluríkin“ sem Trump vann 2016.

DV spáir sigri naumu taupi sitjandi forseta og að Joe Biden verði því svarinn inn sem næsti forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi. Úrslitin eftir ríkjum má sjá hér að neðan.

DV spáir naumum sigri Bidens, 295-243.

Spá Rafns Steingrímssonar

Rafn Steingrímsson er forritari og býr í Cincinnati í Ohio. Ohio er eitt þeirra ríkja sem horft verður til á kosninganótt. Rafn hefur löngum fylgst með stjórnmálum vestanhafs og DV fékk hann til þess að veita blaðinu annað álit og sína eigin spá um við hverju er að búast þann 3. nóvember:

Árið 2016 var óvinsælasti stjórnmálamaður Bandaríkjanna að keppast um forsetaembættið við næst óvinsælasta frambjóðanda Bandaríkjanna. Baráttan var mun naumari en stjórnmálaskýrendur vildu meina og hlutfall óáveðna kjósenda var mun hærra en það er í dag. Óákveðnir enduðu flestir á því að kjósa Donald Trump og með því tókst honum þrátt fyrir að fá færri atkvæði á landsvísu að trygga sér sigur með naumum sigri í þrem miðvesturríkjum sem höfðu stutt frambjóðenda demókrata í forsetakosningum um árabil.

Staðan í dag er allt önnur. Sitjandi forseti er óvinsæll og Joe Biden er að mælast betur í könnunum en Hillary Clinton á sama tíma í baráttunni. Ég ætla að giska á að Joe Biden nái að fella sitjandi forseta með um 300-350 kjörmönnum og ef ég á að giska til gamans hvernig hvert ríki mun falla ætla ég að giska á að Joe Biden taki til baka Wisconsin, Michigan og Pennsylvania. Hann vinni Florida og North Carolina naumlega — þó ég yrði ekkert hissa ef Trump tæki þau bæði en hann þarf algjörlega á þeim að halda og getur varla unnið án þeirra.

Að lokum ætla ég að giska á að Joe Biden nái að snúa tveim hefðbundnum rauðum ríkjum, Arizona og Georgia, sem hafa færst nær demókrötum undanfarin ár í breyttu pólítísku landslagi. Það verður að vísu að fylgja að Ohio, Iowa og Georgia eru reyndar algjörir óvissuþættir (og reyndar Texas) á þessu stigi og geta jafn auðveldlega lent báðum megin.

Eftir stendur hins vegar að leiðir Joe Biden að Hvíta húsinu eru mun fleiri en leiðir Donald Trump. Kosningarnar snúast bara um 10 sveifluríki. Joe Biden þarf bara að vinna um 2-3 af þeim til þess að bera sigur úr býtum á meðan Donald Trump þarf að vinna um 8 af þeim. Biden er því í mun betri stöðu þó svo að sigur Trump sé ekki útilokaður.

Rafn spáir talsvert stærri sigri Bidens en DV, eða 357-181.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Ef ferðaþjónustan er ekki gjaldþrota nú þegar þá verður hún það innan tíðar“

„Ef ferðaþjónustan er ekki gjaldþrota nú þegar þá verður hún það innan tíðar“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Stella segir „skuggafaraldur“ geisa í skjóli faraldursins – „Ekkert þríeyki stigið fram til að bjarga þeim“

Stella segir „skuggafaraldur“ geisa í skjóli faraldursins – „Ekkert þríeyki stigið fram til að bjarga þeim“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum
Sjö greindust í gær
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gagnrýna styrktarsamning Reykjavíkurborgar við RÚV

Gagnrýna styrktarsamning Reykjavíkurborgar við RÚV
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gripdeild og leigubílstjóri laminn

Gripdeild og leigubílstjóri laminn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leggja til að netsala á áfengi verið bönnuð með öllu

Leggja til að netsala á áfengi verið bönnuð með öllu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stúlkan er fundin

Stúlkan er fundin