Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur áætlar að taka á móti 100 kvótaflóttamönnum á næsta ári. Frettabladid.is greindi frá og segir þennan hóp þann stærsta sem íslensk stjórnvöld hafa nokkru sinni tekið á móti á einu ári. Þar kemur jafnframt fram að til hafi staðið að taka á móti 85 kvótaflóttamönnum á þessu ári, en vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna stöðva flutning flóttafólks tímabundið.

Þá segir að tekið hafi verið á móti 74 flóttamönnum í fyrra og 52 árið 2018. Vísar Fréttablaðið í svar Félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar á Alþingi. Í svarinu segir að ólíklegt sé að það náist að ná fólkinu heim á þessu ári vegna ástandsins í samfélaginu, en þó er kapp lagt á að svo verði.

Hluti af ferlinu sé að taka hverja fjölskyldu fyrir sig í viðtal, en slíkt hafi reynst erfitt í núverandi ástandi. Þá fara Útlendingastofnun og Ríkislögreglustjóri yfir listann yfir einstaklinga sem og skýrslur um þá.

Kvótaflóttamenn eru þeir sem koma hingað til lands í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og hafa verið skoðaðir, undirbúnir og samþykktir af íslenskum stjórnvöldum áður en þeir leggja í ferðalagið hingað til lands. Ekki er óalgengt að hælisleitendum sé slegið að jöfnu við kvótaflóttamenn sem er alrangt. Hælisleitendur eru þeir sem koma hingað til lands, yfirleitt á fölskum forsendum, þ.e. með fölsuð skilríki, eða á ferðamannavegabréfsáritun gefin út fyrir Schengen svæðið, til dæmis, en þegar til Íslands er komið sækja þeir um alþjóðlega vernd, eða hæli, hér á landi. Ísland er skuldbundið samkvæmt alþjóðasamningum til þess að veita þeim sem uppfylla sett skilyrði alþjóðlega vernd.

Kvótaflóttafólkið sem um ræðir er, að sögn Fréttablaðsins, frá Líbanon, Keníu og Íran. Talsverðan tíma getur tekið að útvega fólkinu ferðaskilríki, ferðagögn og eftir atvikum útgönguleyfi frá erlendum stjórnvöldum, og því má búast við að fólkið komi ekki hingað til lands fyrr en í fyrsta lagi að þrem mánuðum liðnum frá því skýrslutökur klárast.