Alma Möller landlæknir áréttaði á upplýsingafundi um COVID-19 að Anna Aurora Waage Óskarsdóttir, sem grunuð er um að hafa villt á sér heimildir og starfað án tilskilinna leyfa sem sjúkraliði í bakvarðasveit á Bolungarvík, hafi ekki haft starfsleyfi frá Landlæknisembættinu og engin umsögn frá henni um starfsleyfi hefði borist embættinu.
Alma segir að tilefni sé til að fara yfir alla ferla í ljósi þessara tíðinda. Stofnanir þurfi að fara vandlega yfir gögn og vottorð og engan afslátt megi gefa af því.
Landlæknisembættið mun veita stofnunum aðgang að starfsleyfaskrá og hefur vinna við skrána farið fram með hjálp Persónuverndar. Stefnt er að því að skráin verði opinber almenningi í framtíðinni.