fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

7 atriði til að hafa í huga við fasteignakaup

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 11. september 2019 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ein stærsta fjárhagslega skuldbindingin sem margir undirgangast er kaup á fasteign og því mikilvægt að vanda vel til verka. Hér hafa verið tekin saman nokkur ráð sem gott er að hafa í huga í fasteignakaupum.

Það kostar að kaupa

Þegar eign er keypt þarf að greiða ýmsan aukakostnað tengdum kaupunum.

Umsýsluþóknun til fasteignasölunnar: Þóknunin hefur sætt nokkurri gagnrýni í gegnum tíðina þar sem óljóst hefur þótt hvað í þóknuninni felst. Dæmi eru um að kaupendur hafi hreinlega neitað að greiða gjaldið. Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson greindi frá því á síðasta ári að hann hefði rifist í fasteignasölu út af þessu gjaldi og hótað því að hætta við kaup nema frá gjaldinu yrði fallið. Fékk hann það í gegn. Umsýslugjald er líka mismikið eftir því hvaða fasteignasala sér um söluna. Gjaldið hefur verið á bilinu 50–80 þúsund krónur.

Stimpilgjald: Þetta er gjald sem þarf að greiða sýslumanni vegna eignatilfærslu fasteignar. Gjaldið nemur 0,8% af fasteignamati fyrir einstaklinga, en 1,6% fyrir lögaðila. Fyrstu kaupendur greiða aðeins 0,4%.

Lántökugjald: Gjaldið er föst krónutala á bilinu 35–75 þúsund krónur. Sumir lánveitendur fella niður lántökugjald þegar um fyrstu kaup er að ræða.

Það kostar að eiga

Við kaup á fasteign er ekki nóg að einblína bara á væntanlegar afborganir af íbúðalánum því það fylgir ákveðinn fastur kostnaður því að vera fasteignaeigandi.

Fasteignagjöld: Þau eru lögð árlega á fasteign. Þau eru ákvörðuð af sveitarfélaginu sem fasteignin tilheyrir og samanstanda gjarnan af fasteignaskatti, vatnsgjaldi, holræsagjaldi, lóðaleigu sorpeyðingargjaldi og fleira

Húsnæðistryggingar: Allir húseigendur verða að brunatryggja eign sína hjá tryggingafélagi. Iðgjaldið byggir á brunabótamati eignarinnar. Eins þarf greiða náttúruhamfaratryggingagjald og gjald í ofanflóðasjóð. Einnig er mælt með því að kaupa húseigendatryggingu og/eða heimilistryggingu að auki.

Hússjóður: Ef fasteign er í fjölbýlishúsi þá þarf að reikna með mánaðarlegu gjaldi í hússjóð. Gjarnan er hitakostnaður sameiginlegur fyrir fjölbýlishús og er þá hiti innifalinn í hússjóðnum. Eins getur hússjóður átt að standa straum af aðkeyptri ræstivinnu, viðhaldi á lyftu, viðhaldi á húsi, rafmagni í sameign, sameiginlegu þvottahúsi og svo framvegis. Sum húsfélög eru dugleg að safna í framkvæmdasjóð svo það verði minni skellur fyrir húseigendur þegar tími kemur á kostnaðarsamar framkvæmdir. Þetta mánaðarlega hússjóðsgjald er ákvarðað af hverju húsfélagi fyrir sig og getur verið allt frá nokkur þúsund krónum á mánuði allt upp í tugi þúsunda.

Rafmagn og hiti: Algengast er að hver fasteign greiði mánaðarlega fyrir rafmagnsnotkun sína. Síðan greiða fasteignareigendur mánaðarlegan hitakostnað, sé hiti ekki innifalinn í hússjóðsgjaldi.

Húsfélög fjöleignahúsa

Yfirlýsing húsfélags: Það er ekki hægt að ganga frá kaupsamningi nema yfirlýsing húsfélags liggi fyrir. Í yfirlýsingu skal taka fram greiðslustöðu hússjóðs, hvort búið sé að samþykkja framkvæmdir og annað sem gæti skipt kaupanda máli við ákvarðanir. Húsfélagið þarf hins vegar ekki að greina frá fyrirhuguðum framkvæmdum sem hafa ekki verið samþykktar. Því er líka mikilvægt fyrir kaupanda að skoða vel ástand eignarinnar til að gera sér hugmynd um hvort tími sé kominn á viðhald, eða spyrja seljanda hvort rætt hafi verið um eitthvert viðhald á síðustu húsfundum.

Ekki vera feimin við að skoða

Það er gífurlega mikilvægt að skoða fasteign vel. Lögum samkvæmt hvílir rík skoðunarskylda á kaupendum og allt það sem hefði mátt sjá við ítarlega skoðun þurfa þeir sjálfir að bera ábyrgð á og geta ekki sótt bætur til seljanda. Þótt snöggt á litið líti fasteign vel út á myndum og opnu húsi þá er þó ýmislegt sem gott að er gefa betri gaum. Hvernig er ástandið á gluggum, veggjum, lofti? Eru merki um raka? Hvernig gólfefni eru í eigninni? Ef um er að ræða parket, hvernig er ástandið? Þarf að skipta því út eða nægir að slípa það? Hvernig er ástand á blöndunartækjum? Er svalahurð í lagi? Raftæki sem fylgja eign er einnig gott að skoða vel. Kaupendur hafa brennt sig á því að taka við íbúð þar sem bakaraofnar virka ekki sem skyldi. Blaðamaður veit af einu tilfelli þar sem allar eldavélarhellur virkuðu og hafði kaupandi kannað það fyrir kaup, en eftir að flutt var inn í eignina kom á daginn að hellurnar virkuðu bara ef kveikt var á einni í einu. Þetta reyndist ákaflega ergjandi galli, en kaupandinn varð þó að taka á sig skellinn vegna hans út af ríku skoðunarskyldunni sem hann bar. Ef kaupendur treysta sér ekki til að taka stöðuna á eigninni sjálfir þá er alltaf hægt að fá með sér fagmann sem álitsgjafa eða til að gefa formlega ástandsskýrslu.

Setja upp kauptilboð

Til að kaupa fasteign þarf útborgun að lágmarki að vera 10–15% af kaupverði. Því hærri sem útborgunin er því meiri verður eignarhluturinn í eigninni. Hins vegar þarf alls ekki að stilla kauptilboð upp með þeim hætti að útborgun sé öll greidd samtímis og svo lánið eftir að lánastofnun greiðir það út.

Algengt er að halda hluta útborgunar til hliðar og greiða síðar þegar afsal eignarinnar er gefið út. Þetta fyrirkomulag getur verið visst öryggisatriði fyrir kaupanda. Þá heldur kaupandi eftir hluta greiðslunnar þar til hann hefur búið um hríð í eigninni og styrkir stöðu sína gagnvart seljanda ef uppvíst verður um galla.

Ásett verð er ekki heilagt

Hvað skal bjóða í fasteign, er spurning sem gjarnan vefst fyrir fólki. Helst vilja kaupendur fá fasteign á sem lægstu verði, en vilja þó ekki bjóða svo lágt að það geri seljendur afhuga viðskiptunum. Flottar eignir á vinsælum stöðum eru líklegri en aðrar til að fara á uppsettu verði eða jafnvel hærra, á meðan aðrar eignir seljast þónokkuð undir ásettu verði. Engin ein regla er til um við hvað beri að miða þegar tilboð er gert í eign. Það sem mestu máli skiptir er að vita sína eigin greiðslugetu, svo sem með því að vera búin að fara greiðslumat, og miða tilboð við það. Samkvæmt hefð er upphafsboð yfirleitt nokkru lægra en það verð sem kaupandi vonast til að fá eignina á.

Samþykkt kauptilboð

Tilboðum er gefinn viss gildistími, gjarnan 1–2 sólarhringar. Ef seljanda líst ekki á tilboð getur hann hafnað því eða gert gagntilboð til mögulegs kaupanda, tilboð geta svo gengið fram og til baka milli aðila þar til þeir komast að samkomulagi. Þegar kaup- eða gagntilboð hefur verið samþykkt er kominn á bindandi samningur milli kaupanda og seljanda. Seljandi getur því ekki hætt við kaupin ef honum berst betra boð, jafnvel þótt formlegur kaupsamningur hafi ekki verið undirritaður.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“