fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Fréttir

Arftaki Krossins sendir út kröfur á fólk sem tengist ekki söfnuðinum: „Það er eins og það hafi verið gerð einhver keyrsla á gamalt fólk“

Máni Snær Þorláksson
Föstudaginn 19. júlí 2019 10:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir kannast við að fá sendar kröfur í heimabanka sinn frá hinum ýmsu stofnunum. Sumar af þessum kröfum geta verið á vegum hjálparsamtaka og eru þær kröfur þá yfirleitt merktar valfrjálsar í heimabankanum.

Sú var hins vegar ekki raunin þegar viðmælandi DV fékk kröfu upp á 3.000 krónur í heimabanka sinn frá Smárakirkju árið 2017. Krafan var ekki merkt valfrjáls og maðurinn kannaðist ekki við að skulda Smárakirkju neinn pening, enda hafði hann aldrei stigið fæti þar inn. 

Maðurinn hafði ekki í hyggju að borga kröfuna þar sem hann fann enga ástæðu fyrir tilvist hennar. Með tímanum gleymdi hann kröfunni, en var minntur á hana aftur núna í júlí þegar hann fékk innheimtubréf frá Inkasso vegna kröfunnar. Krafan hafði einnig hækkað, en innheimtugjald upp á 1.178 krónur hafði bæst við.

Árið 2017 sá maðurinn einnig um fjármál systur sinnar þar sem hún átti við veikindi að stríða. Systir hans er látin, en hann tók eftir því á sínum tíma að hún hafði fengið sambærilega kröfu frá Smárakirkju. Rétt eins og bróðir sinn hafði konan aldrei stigið fæti inn í kirkjuna.

„Plís, við viljum ekki svona umfjöllun“

Í samtali við DV sagði Sigurbjörg Gunnarsdóttir, forstöðukona Smárakirkju, að málið væri leyst. „Þetta voru algjör mistök sem áttu sér stað hjá bankanum og það er búið að fella allar kröfurnar niður.“

Eins og áður kom fram hafði maðurinn vitneskju um tvær kröfur, sína eigin og systur sinnar. Í dag er því í raun bara ein virk krafa þar sem systir mannsins er látin. Það að Sigurbjörg segi að búið sé að fella niður allar kröfurnar bendir til þess að kröfurnar hafi verið fleiri.

Fátt um svör Sigurbjörg Gunnarsdóttir. Mynd: Skjáskot/Vísir

Það var fátt um svör þegar Sigurbjörg var spurð hversu margar kröfur hefðu verið felldar niður. 

„Ég bara veit það ekki, en ég veit að þetta eru allavega einhverjar … einhverjar … einhverjar kröfur.“

Grunurinn um að kröfurnar hafi verið fleiri fékk byr undir báða vængi við þetta svar hennar. Það var enn minna um svör þegar Sigurbjörg var spurð hvaða banki það væri sem gerði þessi mistök og vildi hún ekki nefna nafn bankans. Sigurbjörg botnar samtalið með orðunum „Plís, við viljum ekki svona umfjöllun,“ og ítrekar að mistökin séu alfarið bankanum að kenna.

Þrátt fyrir að Sigurbjörg hafi ekki viljað segja hvaða banki það var sem gerði þessi mistök er auðvelt að sjá við hvaða banka Smárakirkja stundar viðskipti. Á heimasíðu kirkjunnar má finna reikningsnúmer hennar og þannig er hægt að sjá að viðskipti kirkjunnar fara í gegnum Arion banka. 

Í nafni bankaleyndar gat starfsmaður Arion banka ekki tjáð sig um það hverjir þar eru í viðskiptum eða um einstaka viðskiptavini. Starfsmaðurinn gat þó sagt að hann hefði aldrei heyrt um mistök sem svipa til þeirra sem Sigurbjörg kennir bankanum um.

„Það er eins og það hafi verið gerð einhver keyrsla á gamalt fólk“

Viðmælandinn hafði aftur samband við DV en þá hafði hann náð að tala við Smárakirkju. Einstaklingur á vegum kirkjunnar hafði sagt við viðmælandann að hann hefði samþykkt kröfuna í gegnum síma. Það átti að hafa verið gert í úthringingum á vegum hjálparstarfs kirkjunnar sem heitir Vonin. Maðurinn kannaðist þó ekki við að hafa samþykkt eitt né neitt. „Ég gef aldrei neitt svona upp í gegnum símann.“ Sigurbjörg nefndi hjálparstarfið aldrei í tengslum við kröfurnar í samtali við DV.

Ekki er algengt að góðgerðasamtök noti innheimtuþjónustu vegna krafna sem ekki eru greiddar og staðfestir Þórir Örn Árnason, framkvæmdastjóri Inkasso, í samtali við DV, að það tíðkist ekki að innheimtur séu sendar á vegum góðgerðasamtaka. „Mál þetta er komið til vegna þess að bókari og endurskoðandi Smárakirkju gerði samning við Inkasso.“

Bókari Smárakirkju er Kristinn Birgisson en ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir síendurteknar tilraunir DV.

Viðmælandi DV hefur sínar hugmyndir um ástæðuna fyrir þessum kröfum. „Það er eins og það hafi verið gerð einhver keyrsla á gamalt fólk af því að það borgar bara alla reikninga sem koma í heimabankann. Sérstaklega ef það er ekki valkrafa heldur bara krafa.“

 

Smárakirkja reist á rústum Krossins

Gunnar Þorsteinsson var einn þeirra sem stofnuðu trúfélagið Krossinn og var hann lengi vel forstöðumaður hans. Árið 2010 stigu sjö konur fram og sök­uðu Gunnar um kyn­ferð­is­lega áreitni.   

Í kjölfar þessara ásakana vék Gunnar sem forstöðumaður, en sat áfram í stjórn safnaðarins. Dóttir Gunnars, Sigurbjörg Gunnarsdóttir, tók við starfi föður síns þegar hann lét af störfum. 

Þann 4. júní 2014 var haldinn safnaðarfundur í Krossinum. Á fundinum var Gunnari vikið úr söfnuðinum og í kjölfarið var Krossinum breytt í Smárakirkju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“

Karl Arnar hristir hausinn: „Snúið fyr­ir einka­fyr­ir­tæki að standa í sam­keppni við djúpa vasa rík­is­ins“
Fréttir
Í gær

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði

Kjartan vill að stakir frídagar verði færðir að helgum: Slíta í sundur vinnuvikuna og valda margvíslegu ónæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harry Potter-stjarnan opnar sig um vinslitin við JK Rowling

Harry Potter-stjarnan opnar sig um vinslitin við JK Rowling
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gullúr sem fannst á líki eins af farþegum Titanic seldist á rúmar 200 milljónir króna

Gullúr sem fannst á líki eins af farþegum Titanic seldist á rúmar 200 milljónir króna