Fimmtudagur 23.janúar 2020
FókusFréttir

Íslenskar furðufréttir: Köttur hélt mæðgum í gíslingu – Íbúi á Sauðárkróki varð ástfanginn af uppblásinni dúkku

Auður Ösp
Laugardaginn 13. júlí 2019 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Innlendir og erlendir fjölmiðlar birta reglulega svokallaðar furðufréttir. DV rifjar hér upp nokkrar ógleymanlegar íslenskar fréttir sem ýmist vöktu kátínu, furðu eða hneykslan.

Köttur hélt mæðgum í gíslingu

Í september 2017 greindi DV frá því að köttur hefði haldið reykvískum mæðgum í gíslingu í verslun Samkaupa í Hlíðahverfi. Vaka Dögg Björnsdóttir ræddi við DV og sagði umræddan kött hafa ráðist á og klórað dóttur hennar og hund þeirra. Sagði hún að þeim mæðgum stæði ógn af kettinum sem héldi til í kringum húsið þeirra og væri með „ógnandi tilburði“.

„Síðastliðinn fimmtudag stóð hann fyrir framan tröppurnar heima og tók upp að ráðast á okkur þegar við ætluðum að labba inn. Bara af því að við ætluðum upp tröppurnar. Við vorum ekki að ógna honum, stelpan var ekki að fara klappa honum eða hundurinn að hnýsast, við vorum bara að fara upp tröppurnar heima. Hann sýndi klærnar, hvæsti og stökk að okkur auk þess sem hann blokkaði allar leiðir svo við kæmumst ekki frá. Hann klóraði dóttur mína og hundinn líka. Við þurftum að flýja inn í Samkaup í Suðurveri og bíða þar inni þar til hann færi, þetta var orðið það slæmt.“

Fram kom að afgreiðslumaður Samkaupa hefði leyft mæðgunum og hundinum að halda til í versluninni þar sem þau biðu eftir að óargadýrið léti sig hverfa. Kötturinn lét þó engan bilbug á sér finna heldur beið fyrir utan verslunina. Mæðgurnar þurftu að leita aðstoðar hjá afgreiðslumanninum til að fæla kisann í burtu.

„Nú er stelpan orðin skíthrædd og þorir ekki út ef þessi köttur er þar, auk þess sem hún er búin að fá martraðir,“ sagði Vaka jafnframt í samtali við DV og kvaðst undrandi á því að lausaganga katta væri leyfð á meðan aðrar reglur væru í gildi  um lausagöngu hunda.

„Ég veit að þetta er köttur, en ef hann er að ógna lífi annarra ber manni skylda til að láta vita.“

Ástfanginn af kynlífsdúkku

Í desember 2004 ræddi DV við  Ólaf Bergmann Sigurðsson, íbúa á Sauðárkróki, en hann var á þeim tíma í sambúð með uppblásinni kynlífsdúkku sem hann kallaði Pamelu. Fram kom að Ólafur væri yfir sig ástfanginn af Pamelu og hefði meðal annars farið með hana í gönguferðir um bæinn og tekið hana með sér á barinn. Þá hafði hann farið með Pamelu í búðir og keypt á hana föt.

„Hún er voðalega sæt stúlka og til í allt, en það er bara verst að hún lekur,“ sagði Ólafur meðal annars. „Mér finnst samt verst að hún er ekki með neina kennitölu. Ég hef reynt að fá hana skráða til heimilis en það gengur því miður ekki vel.“

Fram kom að Ólafur ætti við geðræn vandamál að stríða og að íbúar á Sauðárkróki hefðu lýst yfir miklum áhyggjum yfir þessu hátterni hans. Töldu þeir augljóst að Ólafur þyrfti á hjálp að halda. Nokkrir íbúar höfðu kvartað til lögreglu. Í samtali við DV sagði Ársæll Guðmundsson, sveitarstjóri á Sauðárkróki, að Ólafur væri sjálfráða einstaklingur og því væri lítið sem yfirvöld í bænum gætu gert.

Gervipíkan í Góða hirðinum

Í september 2016 greindi DV frá því að notuð gervipíka hefði verið til sölu í nytjaverslun Góða hirðisins í Fellsmúla. Píkan, sem var mjög skítug, var verðmerkt og kostaði 1.500 krónur.

„Guð minn góður. Hún er enn hérna,“ sagði ónefndur starfsmaður Góða hirðisins þegar blaðamaður DV hringdi til þess að fá frekari upplýsingar um gervipíkuna.  Umrætt kynlífsleikfang var tekið úr sölu í snatri og því fargað.

Fram kom að Góða hirðinum bærust reglulega kynlífsleikföng en slíkir munir væru þó ekki til sölu í versluninni, enda væru starfsmenn meðvitaðir um í hverju notkun tækjanna fælist. „Sá sem verðmerkti þetta hefur ekki áttað sig á því hvaða tæki þetta var,“ sagði starfsmaðurinn sem DV ræddi við.

Gervipíkan var rædd á starfsmannafundi verslunarinnar daginn eftir en þar kannaðist enginn við að hafa verðmerkt gripinn.

Málið tók óvænta stefnu þegar DV barst ábending frá notanda á Facebook sem kom ekki fram undir fullu nafni. Ábendingin hófst á þessum orðum: „Já, ég skildi gervipíkuna eftir í Góða hirðinum“.

Umræddur maður sagðist hafa verið ásamt kærustu sinni í strætóskýli við Reykjavíkurveg tveimur vikum áður. Fann hann þar gervipíkuna, sem hafði verið vafin inn í Bónuspoka og skilin eftir fyrir aftan skýlið. Daginn fyrir birtingu fréttarinnar ákvað parið að hrekkja grandalausa viðskiptavini Góða hirðisins. Fóru þau með gervipíkuna í verslunina og settu á hana verðmiðla en miðann tóku þau af lampaskermi í versluninni.

Maðurinn sagðist hafa fylgst með í fimm til sex mínútur og skemmt sér konunglega þegar viðskiptavinur tók upp hlutinn og skoðaði.

DV tókst ekki að staðfesta frásögn mannsins, sem var með raunverulegan prófíl á Facebook en notaðist við gælunafn.

Ætlaði á Laugaveg en endaði á Siglufirði

Bandarískur ferðamaður varð landsþekktur á einni nóttu í febrúar 2016 þegar hann ætlaði að fara á Hótel Frón við Laugaveg í Reykjavík en endaði á Laugarvegi á Siglufirði.

Maðurinn hafði komið til landsins með flugi frá New York og átti bókað hótelherbergi í Reykjavík. Sló hann inn heimilisfangið Laugarvegur 22a í GPS-tæki sitt. Eitt auka „r“ varð þannig til þess að hann keyrði alla leið norður á Siglufjörð og tók það rúmlega fimm klukkustundir.

Hótel Frón á Laugavegi

Fram kom í frétt DV að hugsanleg útskýring gæti verið að Hótel Frón væri skráð á Laugarvegi, en ekki Laugavegi, á nokkrum erlendum bókunarsíðum, til að mynda booking.com og hotels.com.

Bandaríkjamaðurinn gerði sér grein fyrir mistökunum eftir að hann hringdi dyrabjöllu hjá íbúa á Siglufirði og spurði til vegar. Hann bókaði þá hótelherbergi á Hótel Sigló í stað þess að keyra til baka.

Ed Sheeran varð 82 ára Íslendingur

Í janúar á seinasta ári greindi DV frá vægast sagt óþægilegum mistökum sem urðu í prenti á Morgunblaðinu. Undir liðnum dánarfregnir var greint frá andláti 82 ára gamals manns, Svavars Gunnars Sigurðssonar. Svavar Gunnar var bifvélavirki og rak sitt eigið verkstæði í Fjarðarstræti. Hans var minnst í minningargreinum sem „vönduðum fagmanni“, „fríðum manni með karlmannlega rödd og bros sem bræddi hjörtu“. Svavar Gunnar flutti síðar til Svíþjóðar og vann hjá Volvo-verksmiðjunum.

Það þótti hins vegar skjóta skökku við að ljósmyndin sem birtist með andlátsfregninni var svo sannarlega ekki af umræddum Svavari. Þess í stað var birt mynd af breska tónlistarmanninum Ed Sheeran.

Mistök Morgunblaðsins vöktu talsverða athygli en breski götumiðillinn Metro greindi meðal annars frá málinu. Morgunblaðið endurbirti í kjölfarið minningargreinarnar um Svavar Gunnar og sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Vegna mistaka við birtingu minningargreina í gær eru greinarnar birtar aftur. Morgunblaðið harmar mistökin og biður ættingja og alla hlutaðeigandi innilega velvirðingar.“

Æfði sig að keyra inni á klósetti

Í apríl á seinasta ári greindi DV frá því að pítsusendill hjá Domino’s í Spönginni hefði verið rekinn úr starfi eftir að hann olli tjóni á bílaleigubíl sem staðurinn var með á leigu.

Það sem vakti hvað mesta athygli var að umræddur sendill hafði aldrei tekið bílpróf og kunni að eigin sögn ekki að keyra beinskiptan bíl.

„Það var ekki ég sem bað um vinnu sem sendill, ég sótti bara um og átti von á að fara að vinna við að baka. Ég var aldrei spurður um ökuskírteini eða hvort ég kynni að keyra. Ég fór inn á klósett til að læra hvernig á að keyra beinskiptan bíl, svo fékk ég líka hjálp frá hinum sendlunum,“ sagði maðurinn í samtali við DV.

Starfsmaður DV rissaði upp þessa teikningu af fyrrum starfsmanni Dominos

Maðurinn sagði jafnframt að eftir að hann lét af störfum hefði hann verið boðaður á fund með stjórnendum Domino’s þar sem hann var rukkaður um tjónið á bílnum, sem nam um hálfri milljón króna.

„Ég var boðaður á annan fund sem ég mætti ekki á, þá fékk ég skilaboð sem minntu á eitthvað frá handrukkara. Sagt að ég hefði svikið þá um fund og ég þyrfti að borga 400 til 500 þúsund. Hvernig á ég að borga ef ég er ekki með vinnu?“ spurði maðurinn síðan.

Dásamaði kynlíf með álfum

Hallgerður Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri og myndlistarmaður, var í viðtali við kanadíska fjölmiðilinn VICE árið 2009 og ræddi þar um kynlíf sitt með álfum. Hallgerður hafði nokkrum árum áður gefið út bókina Please Yours ELF þar sem finna mátti hispurslausar lýsingar á kynlífi álfa með mennskum konum.

Hallgerður Hallgrímsdóttir.

Í viðtalinu við VICE lýsti Hallgerður nokkuð nákvæmlega atlotum sínum og álfanna og sagði þá alltaf standa sig vel í rúminu. Líkti hún álfasæði við glimmer. „Þú munt 100 prósent fá fullnægingu. Ég fékk alveg nóg af því að minnsta kosti.“

Hallgerður sagði kynlíf með álfum „það öruggasta sem fyrirfinnst á jörðinni“, enda bæru álfar ekki með sér kynsjúkdóma. Þá væri ekki hægt að gera álfkonu ólétta eða verða ólétt eftir álf.

Annað viðtal við Hallgerði birtist á vefsíðunni vbs.tv og þar sagði hún meðal annars að álfar væru ansi góðir í að klæmast. „Álfarnir koma bara og hvísla í eyrað á þér.“

Á öðrum stað kom fram að Hallgerði fyndist kynlíf með venjulegum mönnum hreinlega leiðinlegt. „Ég held að heimurinn yrði betri ef fleiri svæfu hjá álfum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Þröstur vandar Sólveigu ekki kveðjurnar: „Ég fékk yfir mig galldembu“

Þröstur vandar Sólveigu ekki kveðjurnar: „Ég fékk yfir mig galldembu“
Fréttir
Í gær

Fyllti innkaupakerruna af bringum og Pepsi Max og gekk út

Fyllti innkaupakerruna af bringum og Pepsi Max og gekk út