fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Höldum árásum á manninn í lágmarki – Beinum spjótum okkar að boltanum

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 9. nóvember 2019 09:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við Íslendingar erum vanir því að sum mál blási upp, nái hámarki á degi tvö og séu svo gleymd og grafin á degi fjögur. Viðbrögð við sigri leikarans Atla Rafns Sigurðssonar gegn Borgarleikhúsinu í héraðsdómi er ágætis dæmi um það.

Upphófust miklar ritdeilur um dóminn, uppsögnina, #metoo hreyfinguna, rétt þolenda til að njóta nafnleyndar, sem og persónuárásir á milli tveggja, þjóðþekktra kvenna. Önnur er komin af Rauðsokkum og kvenskörungum, hefur verið ein ástsælasta leikkona landsins síðan hún byrjaði að leika sem barn og skefur ekki af skoðunum sínum. Hin er aktívisti, baráttukona þolenda ofbeldis, skelegg og óhrædd.

Báðar höfðu þær mikið til síns máls í sínum skrifum, að mér fannst. Ég var sammála mörgu sem þær sögðu en ekki öllu. Orrahríðin geisaði þeirra á milli í löngum, vel skrifuðum pistlum sem margir höfðu sterkar skoðanir á. Og eins og alltaf þegar einhver viðrar skoðanir sínar opinberlega þá breyttist umræðan innan einhverra kreðsa í að fara í manninn, ekki boltann. Það eina sem vantaði í alla þessa umræðu var einhvers konar lausn.

Ég hef velt máli Atla Rafns mikið fyrir mér. Ef ég set mig í spor yfirmanns á stórum vinnustað þá skil ég ákvörðunina að segja honum upp. Sem yfirmaður viltu að vinnustaðurinn sé öruggur. Ef upp koma deilur þá reynirðu að leysa þær á sem farsælastan hátt. Ef ekki tekst að leysa þær þá þarf að gera breytingar, þá jafnvel sem þýða að einhver missir vinnuna. Þetta getur hins vegar verið langt ferli og því finnst mér skjóta skökku við að fólki sé sagt upp fyrirvaralaust án þess að einhverjar útskýringar séu á því gefnar, eða reynt á einhvern hátt að leysa málin. Nú er þetta mál sérstaklega viðkvæmt því upprekstrarsökin er meint kynferðisleg áreitni. Það var hins vegar ekki mergur dómsmálsins sem fram fór. Mergur þess var að ákvarða hvort uppsögnin var réttmæt og dæmt að svo væri ekki.

Þó að ekki hafi verið lagður á það dómur hvort Atli Rafn hafi áreitt konur kynferðislega innan leikhússins þá hefur réttindum þolenda til nafnleysis verið velt upp. Atli Rafn fékk ekki að vita eðli ásakananna né hverjar konurnar væru sem hefðu kvartað undan honum í trúnaði. Unnið hefur verið að því statt og stöðugt síðustu ár að þolendur kynferðisbrota stígi fram. Hins vegar hafa þeir ekki mætt skilningi innan dómskerfisins og oft ekki trúað. Því er skiljanlegt að þolendur stígi fram undir nafnleynd af hræðslu við að orð þeirra séu dregin í efa. Innan lagarammans er hins vegar hæpið að byggja dómsmál, þar sem líklegt er að brotamaður verði sakfelldur, á nafnlausum frásögnum. Þetta er eins konar sársaukafull mótsögn.

Hver er þá lausnin? Á að segja fólki upp eða draga það fyrir dóm en á sama tíma vernda nafnleynd meintra þolenda? Hvenær er rétt að segja fólki upp vegna kvartana um kynferðislega áreitni, eða önnur meint brot? Þurfa kvartanirnar að vera visst margar, lýsingarnar ákveðið hrottalegar? Og hver ákveður það svo?

Eitt er víst, að mál Atla Rafns vekur fleiri spurningar en svör. Þetta er erfitt mál sem sprettur upp úr #metoo byltingunni og eftir það sitjum við sem þjóðfélag án lausnar. Eins og málið horfir við mér núna virðist hafa verið brotið á réttindum allra hlutaðeigandi, en aðeins einn fengið bætur. Það er ekki rétt. Vonandi verða þessi orðahríð og skoðanaskipti til þess að við, sem samfélag, finnum lausn. Leyfum málinu að blása út, ná hámarki en höldum því lifandi. Og höldum árásum á manninn í lágmarki. Beinum spjótum okkar að boltanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni
Fréttir
Í gær

Sverrir tjáir sig um handtökuna – „Hissa á þessu leikriti“

Sverrir tjáir sig um handtökuna – „Hissa á þessu leikriti“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“