fbpx
Laugardagur 15.ágúst 2020
Fréttir

„Ef þú ert í neyslu núna þá ertu að taka allt“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 8. september 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólrún Freyja Sen og Eyþór Gunnlaugsson eru meðal þeirra sem standa að gerð þáttanna Óminni sem sýndir eru í opinni dagskrá á Stöð 2 á þriðjudagskvöldum. Þættirnir eru þrír talsins en sá fyrsti var sýndur síðasta þriðjudagskvöld. Fólkið á bak við þættina hefur unnið mikið með forvarnarstarfinu Eitt líf og tekur virkan þátt í árveknisátakinu Á allra vörum sem í ár vinnur að því að stórefla fræðslu og forvarnarstarf til að upplýsa almenning um þær hættur sem fylgja fíkniefnaneyslu.

Eitt líf var komið á legg í kjölfar andláts Einars Darra í maí í fyrra. Einar Darri lést eftir ofneyslu róandi lyfja aðeins átján ára gamall og voru það aðstandendur hans sem stofnuðu minningarsjóð um hann og hófu forvarnarverkefnið Eitt líf. Hugmyndin að Óminni kviknaði eftir andlát Einars Darra, en Kristján Ernir, einn af framleiðendum þáttanna var góður vinur hans.

„Ég og Kristján Ernir vorum með síðu sem heitir Babl, sem var hugsuð sem fréttamiðill fyrir ungt fólk. Við töluðum mikið um fíkniefnavanda ungs fólks, sérstaklega eftir að Einar Darri lést. Í kjölfarið fæddist hugmynd um að gera þætti um þessi efni, sem eru vinsæl í dag. Okkur fannst eins og það þyrfti að uppfæra forvarnarfræðslu og að foreldrar þyrftu að uppfæra þekkingu sína því í dag snýst þetta ekki bara um kókaín og spítt. Það eru önnur efni sem eru einnig vinsæl og fólk þekkir ekki einkenni neyslu þeirra efna,“ segir Sólrún.

Ekki aumingjar

„Þættirnir fjalla um vímuefnavandann á Íslandi og fyrsti þátturinn fjallaði um efnislega heiminn; hvaða efni eru vinsæl í dag, hvernig sölukerfið virkar, handrukkun og svoleiðis. Annar þáttur fjallar um hvernig fíknisjúkdómurinn þróast, hvernig neyslan þróast. Í þriðja þætti förum við yfir þau áföll sem fólk verður fyrir í neyslu og reynum að útskýra að þessi áföll verða ekki til þess að þú hættir í neyslu, heldur hafa þau áhrif að neyslan verður harðari,“ bætir hún við um þættina Óminni. Eyþór segir enn fremur að þættirnir reyni að brjóta niður úrsérgengnar staðalímyndir um fíkla.

„Gamli hugsunarhátturinn gengur út á að þetta séu allt aumingjar, en aðgengi að fíkniefnum er svo mikið í dag að það geta allir lent í þessu. Við sjáum það með Einar Darra. Hann kom ekki af slæmu heimili og fjölskylda hans vissi ekki að hann væri að prófa þetta,“ segir hann.

Skiptir ekki máli hvar þú byrjar

Þættirnir eru alfarið styrktir af styrktarsjóðnum Hringfara sem hefur það að markmiði að efla forvarnarverkefni vegna fíkniefnaneyslu ungs fólks. Þættirnir tóku lengri tíma í vinnslu en Sólrún og Eyþór reiknuðu með og tóku ákveðnum breytingum í ferlinu.

„Við byrjuðum á því að taka viðtöl við 36 ónafngreinda einstaklinga sem eru með fíknisjúkdóm og hafa verið í harðri neyslu. Við enduðum með 24 tíma af myndefni og skrifuðum síðan handritið út frá þessum frásögnum. Það sem kom okkur á óvart var að þessir einstaklingar voru jafn mismunandi og þeir voru margir. Þeir komu af mismunandi heimilum en samt var frásögn allra þessara fíkla á þá leið að þegar sjúkdómurinn þróast hjá þeim verða þau sama manneskjan og upplifa það sama. Þá fyrst fengum við að upplifa að þetta er sjúkdómur sem hefur sín einkenni,“ segir Eyþór. „Fyrst ætluðum við að einblína á efnin en síðan komumst við að því að það skiptir ekki máli hvar þú byrjar, þú endar alltaf á sama stað,“ bætir Sólrún við.

Dóp á samfélagsmiðlum

Eyþór og Sólrún segja það vissulega hafa tekið á að taka viðtöl við allt þetta fólk þar sem sögur þeirra voru allar átakanlegar á sinn hátt. Eyþór þekkir þennan heim af eigin reynslu og segir hann hafa breyst gríðarlega mikið síðustu áratugina.

„Ef við berum saman fíkniefnaheiminn í dag og það sem áður var þá var þetta alltaf þessi hópur á Hlemmi sem var að dópa í gamla daga. Þeir voru áberandi sem slæmu krakkarnir sem fóru út í þennan heim. Núna er þetta alls staðar. Dóp er komið á samfélagsmiðla, þannig að fyrir mína hönd þá neyddist ég sjálfur í neyslu þegar ég var ungur og það var fyrst og fremst út af aðgengi, sem var ekki svona mikið í gamla daga. Þetta er mjög framandi hlutur fyrir foreldra í dag, hvernig þessi heimur virkar, því hann er svo frábrugðinn því sem var,“ segir hann. „Það er svo mikið talað um kvíða en það má ekki tala um það sem eina faktorinn í þessu. Það er fyrst og fremst hvað efnin eru ótrúlega aðgengileg. Það eru ekki bara krakkar með kvíðavanda sem prófa. Þetta eru bara heilbrigðir og venjulegir krakkar. Þetta er að verða eðlilegt í ákveðnum hópum.“

Unglingadrykkja hefur vissulega minnkað, en miðað við það sem Eyþór og Sólrún hafa kynnt sér hafa eiturlyfin tekið við. Þá hefur neyslumynstur breyst á þann hátt að ungmenni í dag taka fleiri og alls kyns eiturlyf, en halda sig ekki bara í einni tegund eins og áður var.

„Ef þú ert í neyslu núna þá ertu að taka allt,“ segir Eyþór. „Það er enginn í dag sem er átján ára og er bara alkóhólisti eða bara á kókaíni. Það er líka það sem er svo hættulegt. Því fleiri efni sem þú tekur, því hættulegra hlýtur þetta að vera,“ bætir Sólrún við.

Erfiðara að tala um dóp en kynlíf

Eyþór telur mikilvægt að tala um batann. Það sé erfiðasti kaflinn hjá þeim sem kjósa að verða edrú og það sé ekki hægt að fara í gegnum hann einn. Þá leggur hann líka áherslu á að samfélagið taki vel á móti fólki sem kemur úr meðferð.

„Þetta eru ekki aumingjar. Þetta er ekki slæmt fólk því það var í neyslu. Þau eru bara mjög veik og þau eiga það skilið að samfélagið hjálpi þeim í gegnum þetta,“ segir hann. Þá eru þau Sólrún sammála um að það sé mikilvægt fyrir foreldra að fá fræðslu, eyða tíma með börnunum sínum og tala við börnin sín um þennan vanda sem hefur dregið ótalmörg ungmenni til dauða síðustu ár.

„Staðan er þannig að eldri kynslóðin veit ekki hvernig fíknisjúkdómurinn er og hvernig þessi efni virka. Þess vegna eiga þau mjög erfitt með að tala um þennan vanda við börnin sín. Þau vita ekkert hvað þau eiga að segja. Það er ábyggilega meira um foreldra sem finnst óþægilegra að tala við börnin sín um fíkniefni en um kynlíf. Þess vegna erum við að reyna að fræða Íslendinga eins grunnt og hægt er, um eins mikið og hægt er í þessum þáttum. Bara til þess að byggja upp öryggi hjá foreldrum til að þeir geti talað við börnin sín um þetta og sýnt börnunum sínum skilning. Staðan er orðin þannig í dag að þetta er orðið svo alvarlegt að ef foreldrar hafa einhverjar áhyggjur af því að barnið sé að prófa þá eiga þeir að grípa inn í strax,“ segir Eyþór. „Það er verra að missa barnið sitt, hvort sem það deyr eða maður missir það í neyslu, en þau óþægindi sem gætu hlotist af því að gera unglinginn sinn pirraðan með því að biðja hann um að fara í pissuprufu,“ bætir Sólrún við. Eyþór brýnir fyrir foreldrum að sýna skilning, ekki skamma.

„Þegar ég var að leiðast út í fíkniefni á sínum tíma var ég svo góður að ljúga og fela fyrir foreldrum mínum því ég var svo hræddur við að þeir myndu skamma mig. Síðan var ég skammaður þegar þau föttuðu þetta og þá byrjaði ég að fela þetta betur og laug meir.“

Þetta er maraþon

Sólrún og Eyþór segja að fíkniefni séu orðin mjög áberandi á skemmtistöðum og þar sem fólk er að neyta áfengis. Eyþór segir að lausnin á vandanum sé nokkuð einföld þótt hún sé langt því frá í sjónmáli.

„Sjálfur held ég að þetta snúist um framboð og eftirspurn. Besta leiðin til að stöðva þessa þróun er að fækka neytendum. Það þarf að vara börn við afleiðingum eiturlyfjaneyslu strax um tíu til tólf ára aldurinn. Þetta er eitt stórt maraþon, ekki eitthvað sem við reddum á tveimur til þremur árum. Þetta er þjóðarátak sem þarf að vera í gangi það sem eftir er.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Í gær

Rafrænt bingó fyrir eldri borgara – Margir hafa saknað þess að spila bingó

Rafrænt bingó fyrir eldri borgara – Margir hafa saknað þess að spila bingó
Fréttir
Í gær

„Hversu mörg mannslíf munu sóttvarnaraðgerðir og dýpkun efnahagslægðarinnar sem þær valda kosta?“

„Hversu mörg mannslíf munu sóttvarnaraðgerðir og dýpkun efnahagslægðarinnar sem þær valda kosta?“
Fréttir
Í gær

Fáséð að sálfræðingar gerist sekir um eins mikla vanþekkingu – „Særandi, niðrandi og beinlínis skaðleg“

Fáséð að sálfræðingar gerist sekir um eins mikla vanþekkingu – „Særandi, niðrandi og beinlínis skaðleg“
Fréttir
Í gær

Segir þátt Samherja brjóta eina helstu siðareglu blaðamanna – „Hverskonar vitleysa er þetta?“

Segir þátt Samherja brjóta eina helstu siðareglu blaðamanna – „Hverskonar vitleysa er þetta?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Telur líklegt að viðmælandi hafi boðið sér mútur

Telur líklegt að viðmælandi hafi boðið sér mútur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglurannsókn vegna gjaldþrots Farvel – Segir Ferðamálastofu hafa sýnt linkind

Lögreglurannsókn vegna gjaldþrots Farvel – Segir Ferðamálastofu hafa sýnt linkind
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Skýrsla eða ekki skýrsla: Verðlagsstofa staðfestir að hafa tekið saman upplýsingarnar

Skýrsla eða ekki skýrsla: Verðlagsstofa staðfestir að hafa tekið saman upplýsingarnar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sigur og ósigur Gylfa – Landsréttur snýr við frávísun í kynferðisbrotamáli sálfræðings

Sigur og ósigur Gylfa – Landsréttur snýr við frávísun í kynferðisbrotamáli sálfræðings