fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Jóhannes hættir hjá Njarðvík vegna óánægju foreldra: „Mér vitanlega voru þetta foreldrar barna sem ég hef aldrei þjálfað“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 12. ágúst 2019 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhannes Albert Kristbjörnsson segir að sér hafi nýlega verið sagt upp störfum sem þjálfari yngri flokka hjá körfuknattleiksdeild Njarðvíkur. Jóhannes harmar uppsögnina sem hann segir að sé til komin vegna óskar einhvers hluta foreldra barna sem æfa hjá deildinni. Segir hann að unglingaráð deildarinnar hafi ákveðið að segja honum upp vegna umkvartana foreldra 10 ára pilta. Hafi foreldrarnir sagst ætla að fara með börnin frá félaginu yrði hann þjálfari. Hins vegar hefur hann ekki fengið að vita hve stór hluti foreldra 10 ára piltanna hafi sett sig upp á móti því að hann þjálfaði drengina né hver væri ástæðan fyrir þessari hörðu afstöðu þeirra.

Jóhannes, sem auk þjálfunar er starfandi héraðsdómslögmaður, á að baki langan og glæstan feril hjá Njarðvík, bæði sem leikmaður og síðar sem þjálfari yngri flokka.

„Mér vitanlega eru þetta foreldrar barna sem ég hef aldrei þjálfað áður en mögulegt er að þarna í hópnum sé foreldri eldra barns sem ég þjálfaði án vandkvæða í nokkur ár. Mér þykir leiðinlegt að þetta hafi farið svona því ég hef þjálfað í mörg ár hjá Njarðvík og ávallt gengið vel,“ segir Jóhannes

Sauð upp úr eftir að A-lið slátraði B-liði

Þegar blaðamaður gengur á eftir Jóhannesi varðandi það að tiltaka mögulegar ástæður fyrir óánægjunni og uppsögninni nefnir hann til sögunnar eitt tiltekið atvik:

„Fyrir nokkrum mánuðum kepptu A- og B-lið flokks sem ég þjálfaði ásamt öðrum hvort gegn öðru í átta liða úrslitum Íslandsmóts. Vegna síðbúinna forfalla hins þjálfarans sem stýrt hafði A-liðinu var foreldri úr þeim hópi fengið til að stýra liðinu. Leikurinn átti að vera skemmtun enda vinkonur að spila á móti vinkonum, getumunur talsverður og aðalatriðið að enginn meiddist. Þetta var mögulega einnig síðasti keppnisleikur nokkurra stúlkna úr B-liðinu. Segja má að eina markmiðið sem náðist var að enginn leikmaður meiddist. Allt annað fór úrskeiðis og ég var mjög ósáttur með framkomu A-liðs stúlkna við vinkonur þeirra í B-liðinu,“ segir Jóhannes en svo fór að A-liðið rústaði B-liðinu sem Jóhannesi fannst vera ódrengileg framkoma. Varð nokkur hvellur af þessu máli en Jóhannes veit ekki hvort þær deilur skipta hér máli.„Engir fundir voru haldnir hjá Unglingaráði vegna þessa atviks og engir formlegir eftirmálar en ég steig til hliðar varðandi lokaundirbúning A-liðsins fyrir úrslit Íslandsmótsins vegna þess að ég vildi ekki hafa neikvæð áhrif á leikmennina.“

„Ég þarf einfaldlega að sætta mig við það að eftir þetta atvik fór einhver eða einhverjir, á bak við tjöldin, að vinna gegn því að ég væri þjálfari hjá félaginu. Það er veruleikinn“ segir Jóhannes.

Hann bendir á að gjarnan heyrist meira í þeim óánægðu en þeim ánægðu „Það er mikilvægt að muna að óánægjuraddir eru þær sem heyrast. Oft eru miklu fleiri ánægðir en ekkert heyrist í þeim. Ég hef átt frábært samstarf við unglingaráð í gegnum tíðina, sannarlega verið Njarðvíkingur í húð og hár og mér líður dálítið eins og ég hafi verið að missa ættingja. Ég þykist viss um að Njarðvík lítur svo á að mér hafi ekki verið sagt upp. Þetta hafi snúist um eitthvað annað. Ég vissi bara þá og þegar mér var tilkynnt þetta að ég gæti ekki vænst þess að félagið stæði með mér, kæmi til þess síðar að foreldrar eða aðrir kvörtuðu yfir störfum mínum án þess að gefa fyrir því nokkrar haldbærar ástæðu og því gæti ég ekki starfað áfram fyrir félagið.“

„Stjórnarmenn standa frammi fyrir erfiðum valkostum þegar óánægðir foreldrar taka sig saman og þeir þurfa að taka erfiðar ákvarðanir.“

„Ég var innilega ósammála ákvörðuninni í þessu máli en það kom aldrei til greina af minni hálfu að grípa til baktals og ófrægingar sjálfum mér til varnar. Maður má aldrei verða það sem maður hefur ímugust á.“

Jóhannes segist ekki hættur þjálfun þrátt fyrir þetta: „Þetta er mín íþrótt og ég vil starfa áfram við þjálfun og að framgangi körfuboltans. Ég á börn í körfunni í Njarðvík og mun styðja þau til dáða. Nú leita ég mér að nýju félagi til að styðja og bæta.“

Logi: Tilfærsla en ekki uppsögn

„Þetta gerðist nú ekki alveg með þessum hætti. Jóhannesi var ekki vikið úr starfi heldur var ég aðeins að færa til þjálfara milli flokka, ég er ekki búinn að ákveða hver þjálfar hvaða flokk. Ég færði Jóhannes frá flokki sem hann var með á síðasta tímabili og honum var boðið að vera með aðra flokka. Við vildum alls ekki missa hann úr starfinu okkar því hann er mjög fær þjálfari. En ég færði hann um flokk svo hann gæti notið sín sem þjálfari hjá þeim flokki þar sem hann væri þjálfari. Því það var einhver kergja og óánægja með að hann væri þjálfari hjá nákvæmlega þessum flokki. Við funduðum um þetta og ég komst að þeirri niðurstöðu að það væri betra að hann þjálfaði annan flokk en á síðasta tímabili. En hann vildi það ekki, hann vildi vera áfram með sinn flokk. Það var eiginlega málið. Honum var aldrei sagt upp,“ segir Logi Gunnarsson, yfirþjálfari yngri flokka hjá körfuknattleiksdeild Njarðvíkur.

Logi segir að mikil ánægja sé með störf Jóhannesar. Jóhannes kjósi hins vegar að túlka þessa ákvörðun sem uppsögn og útlit sé fyrir að hann þjálfi ekki hjá deildinni í vetur sem sé miður. Logi undirstrikar einnig að hann hafi ávallt átt gott samstarf við Jóhannes og ekkert ósætti sé á milli þeirra.

„Hann virðist kjósa að túlka þetta sem uppsögn en þetta er það ekki. Ég þarf á hverju ári að breyta um þjálfara hjá flokkum og færa þá til. Ég þurfti að færa hann til og úr var varð að hann vildi ekki vera áfram. Ég var samt mjög ánægður með hann og vildi að hann yrði áfram hjá okkur,“ segir Logi.

Að sögn Loga stendur Jóhannesi áfram til boða að vera þjálfari hjá yngri flokkum Njarðvíkur. „Ég held samt að hann vilji ekki vera áfram úr því sem komið er. En ég er ekki búinn að festa þjálfara á alla flokka fyrir veturinn og því er enn allt opið.“

Logi gat ekki skýrt út óánægju foreldra með Jóhannes:

„Rétt eins og skólastjórar fæ ég ýmislegt inn á borð til mín og stundum henta sumir þjálfarar eða kennarar ekki tilteknum leikmanna- eða nemendahópum og það er bara svona innanhússmál, ég get ekki rætt hvers vegna ég færi þjálfara milli flokka en ég geri það við marga þjálfara,“ segir Logi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum