fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

„Ég er ennþá með stöðu sakbornings í þessu rugli, sem ég aldrei kom nálægt“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 11. ágúst 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eggert Skúli Jóhannesson framkvæmdastjóri hefur ítrekað verið sakaður um misferli í viðskiptum. Á árinu 2016 hófst rannsókn á meintum svikum hans úr Ábyrgðarsjóði launa, hann stofnaði Hjálparsamtök bágstaddra barna sem sættu mikilli tortryggni og voru lögð niður eftir aðeins örfáa mánuði. DV ræddi við mann sem einnig er grunaður um svik úr Ábyrgðasjóði sem segir Eggert hafa misnotað kennitölu sína og komið því til leiða að hann er í dag grunaður  maður í sakamáli.

Þetta er brot úr stærri umfjöllun úr helgarblaði DV

 

Segir undirskrift sína falsaða

DV hefður verið í sambandi við einstakling, hér eftir nefndur Jón Jónsson, sem hefur stöðu grunaðs manns í máli meintra fjársvika úr Ábyrgðarsjóði launa. Hann kýs að stíga fram í skjóli nafnleyndar. Jón Jónsson segist ekki skilja með hvaða hætti hann hafi dregist inn í málið þar sem hann hafi enga kröfu gert í sjóðinn. Nafn hans kom þó fyrir skjölum nokkurra fyrirtækja tengdum Eggerti Skúla, bæði sem vitundavottur og meintur þátttakandi í fyrirtækjarekstrinum. Jón kannast ekkert við aðkomu sína og segir kennitölu sína misnotaða og undirskrift falsaða.

Blaðamaður hefur undir höndum afrit af löggildum skilríkjum Jóns og getur vottað að undirskrift hans þar er gerólík þeirri undirskrift sem birtist í skjölum tengdum fyrirtækjum Eggerts. Hins vegar ef þessi meinta falsaða undirskrift Jóns er borin saman við rithönd Eggerts Skúla í sömu skjölum, má þar sjá þónokkur líkindi.

Jón Jónsson er sakborningur í þessu máli og segir það aðeins vegna þess að Eggert Skúli hafi misnotað kennitölu hans. Hann segir það alveg með ólíkindum hversu auðvelt er á Íslandi að misnota kennitölu annarra.

„Þá var hann búinn að vera með eitthvert fyrirtæki skilst mér og sendi kröfu til Ábyrgðarsjóðs og gaf mig upp sem starfsmann hjá þeim. Ég vissi ekkert af þessu fyrr en um 2016. Þá fékk ég reikning frá skattinum um að ég skuldaði skatt.“

Vinagreiði hafði alvarlegar afleiðingar

Jón er kunnugur Eggerti og hefur verið til fjölda ára svo þegar Eggert hafði samband og bað um smá vinagreiða þá grunaði Jóni ekki að hann væri að taka þátt í saknæmri háttsemi.

„Þá hafði hann samband og sagði mér að hann væri að fá eitthvert uppgjör varðandi eitthvert slys sem hann og fyrrverandi kona hans hefðu lenti í. Hann væri orðinn gjaldþrota og væri í einhverju veseni með konuna sína og spurði hvort það væri í lagi að peningurinn kæmi inn á reikning hjá mér. Og ég sagði við hann: Það er allt í lagi. Svo fæ ég greiðslu frá lögfræðiskrifstofu á Íslandi. Lögfræðingur 101 eða eitthvað. Ég var ekkert að pæla í þessu. Millifæri svo yfir á hann. Þá voru þetta aurarnir sem komu frá Vinnumálastofnun. Þetta voru ekki peningar út af neinu slysi. Síðan í framhaldinu fæ ég reikning frá RSK um að ég skuldi skatt vegna þessara greiðslna. Það stóð bara á yfirlitinu hjá bankanum – Uppgjör – ekkert annað. Stóð bara lögfræðiskrifstofa 101 eða eitthvað. Það var ekkert sem sagði mér að þetta kæmi frá einhverjum opinberum aðilum. Það stemmdi allt fyrir mér.“

Eftir að reikningurinn barst frá skattinum fór Jón að grafast fyrir um málið og komst að því að krafa hafi verið gerð í Ábyrgðarsjóð launa í hans nafni. Í kjölfarið segist hann hafa sett sig í samband við sjóðinn og þá hafi hjólin farið að rúlla og rannsókn á meintu misferli Eggerts hafist.

Hótanir

Eftir umfjöllun Fréttatímans árið 2016 um meint svik úr Ábyrgðarsjóði launa barst Þóru Tómasdóttur, þáverandi ritstjóra Fréttatímans, sem jafnframt skrifaði fréttina, eftirfarandi hótun frá gerviaðgangi á Facebook:

„Sæl, hlakka til að sjá þig í dag. Djöfull hlakkar mig til að leika mér að þér helvítis hóran þín og fokkings krökkunum þínum líka. Þykist búa á Þýskalandi en býrð í raun á [X]. Fokkings hóran þín ég sé þig á eftir ef eki þá mjög fljótlega og það sem ég geri við þig mun ekki boða gott fokkings tussan þín.“

Hótunin barst sama dag og fréttin um meint svik Eggerts fór í loftið og taldi Þóra engan vafa leika á að hótunin tengdist fréttinni.

DV birti brot úr þessari umfjöllun á dv.is á þriðjudaginn. Í kjölfarið barst blaðamanni hótun um meiðyrðaákæru frá „Ólafi“ nokkrum á Lögmannastofu Reykjavík. Ekki er neinum upplýsingum er fyrir að fara á netinu um þessa stofu og enginn af þeim lögmönnum sem bera fornafnið Ólafur starfar á stofu með þessu nafni samkvæmt upplýsingum úr félagatali Lögmannafélags Íslands.

Blaðamaður reyndi jafnframt að hafa samband við son Eggerts Skúla og tengdadóttur vegna málsins en fékk engin svör. Hins vegar virðist téður Ólafur hjá Lögmannastofu Reykjavík hafa fengið veður af fyrirspurnunum, því skömmu síðar sendi hann blaðamanni aftur tölvupóst.

„Vil vinsamlega biðja þig um að hætta að ofsækja fólk út í bæ sem að hefur ekkert við þig að tala og hefur enga aðild.“

Blaðamaður spurði þá hvort hún væri að ræða við Eggert sjálfan eða Jóhann Gísla son hans, undir dulnefni, en „Ólafur“ vísaði því alfarið á bug. „Þú ert hvorki að ræða við Eggert eða Jóhannes og er undrandi á þeirri hugmynd þinni.“

Yfirlýsing vegna umfjöllunar

Þar sem „Ólafur“ virðist þó hafa einhverja tengingu við þá feðga bauð blaðamaður honum að koma yfirlýsingu fyrir þeirra hönd á framfæri. Í þeirri yfirlýsingu er maður nafngreindur og því haldið fram að hann sé heimildamaður DV. Er svo jafnframt vegið að persónuheiðri hans. Verður sá hluti yfirlýsingarinnar ekki birtur.

„Eins og fram hefur komið, þá er þessum röngu ásökunum vísað á bug og mun þér verða stefnt persónulega og ábyrgðarmönnum DV fyrir dómstólum vegna meiðyrða. Detti ykkur í hug að birta þetta þrátt fyrir að hafa verið leiðrétt.

Mér hefur verið tjáð hver standi að baki þessari aðför en það er áðurgreindur [maður er nafngreindur og vegið að persónuheiðri hans] eins og þú væntanlega veist sjálf og gott að það komi fram hér hversu óöruggar heimildir þínar eru. Það vegur þungt fyrir dómi. Við skipti á þessum tveimur hlutafélögum sem Eggert átti og fóru í þrot í hruninu, var ekkert saknæmt og lokuðu skiptastjórar þeim án þess að neitt væri við þau að athuga. Verið er að fjalla um eldgamla upplogna grein sem kóperuð er úr tímariti.is og er fyrnd og ekki einu sinni talað við viðkomandi aðila.

Að vera að bendla óviðkomandi aðilum, eins og fyrrverandi tengdadóttur sem er í einhverju félagi og son sem er varamaður er fáránlegt og ég trúi því ekki að þér detti í hug að birta það eftir að þú hefur verið leiðrétt.

Eggert er t.d. með hreina sakaskrá og stundaði heiðarleg viðskipti með kvóta og skip í um 15 farsæl ár og hefur verið í viðskiptum í yfir 30 ár án þess að hafa nokkurn tímann komist í kast við lögin. Jóhannes átti við fíknivanda að stríða sem unglingur  og hefur verið ofsóttur af DV í 10 ár vegna afleiðinga þess. En hann hefur verið edrú í um fimm ár en reglulegar ofsóknir DV hafa ekki gert honum það léttara fyrir. En á því verður tekið.

Ráðlegg þér að sleppa þessari birtingu á þessari „frétt“ því að það verða miklir eftirmálar af þessum meiðyrðum og vísvitandi rangri frásögn.“

Fjöldi fyrirtækja sem tengist fjölskyldunni

Rannsókn blaðamanns leiddi í ljós fjölda fyrirtækja sem virðast með einum eða öðrum hætti tengjast Eggerti Skúla. Yfirleitt er hann sjálfur ekki skráður beinn þátttakandi en finna má undirskriftir hans sem vitundarvott á nokkrum stöðum. Hins vegar eru fyrirtækin skráð á eiginkonu hans, syni, tengdadóttur, fyrrverandi maka hans, kunningja og aðra venslamenn. Fjöldi fyrirtækja kemur þar við sögu, áðurnefnd Ice X Investments ehf. Alexandra ehf., Is info ehf., Fisksalan ehf., H32 ehf., Íslensk skráning ehf. og Icelandic market and sales ehf. svo dæmi séu tekin. Einnig fyrirtækið Spyrmye AS og Havprodukter Johannesson í Noregi.

Jón Jónsson segir Eggert hafa skilið eftir sig sviðna jörð víða í Noregi og Fréttatíminn ræddi við einstaklinga árið 2016 sem höfðu átt í viðskiptum með harðfisk við Eggert Skúla og sögðu farir sínar ekki sléttar. Málið hefur tekið mikið á Jón sem segir það ömurlegt að vera sakborningur í máli í þrjú ár, án þess að nokkuð gerist og saklaus í þokkabót.

„Mig langar að klára þetta, lögreglan er með sitt og ákæra hann kannski. Ég er ennþá með stöðu sakbornings í þessu rugli, sem ég aldrei kom nálægt. Það er ekki gaman, sem löghlýður borgari að liggja undir ásökunum, ár eftir ár. Sérstaklega ekki þegar maður kemur hvergi nærri og kennitala manns misnotuð út og suður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við
Fréttir
Í gær

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“